Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um rafrænar skuldaviðurkenningar, 980. mál

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um rafrænar skuldaviðurkenningar, 980. mál

        2. maí 2023

Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að hafa fengið frumvarpið til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfæri varðandi það.

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk og fötluð börn. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undigengist, sem og á heimsmarkmiðum SÞ, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.

Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur og þá er í gang af hálfu ríkisins framkvæmd sérstakrar landsáætlunar um innleiðingu hans.

Meginmarkmið samningsins er að tryggja fötluðu fólki raunhæf tækifæri til virkrar þátttöku á öllum sviðum samfélagsins til jafns við aðra og án aðgreiningar.

4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingarÞar segir m.a.:

     1.      Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi á grundvelli fötlunar.
        Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:
         a)          að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningi þessum,
         b)          að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin, …
(Feitletr. Þroskahj.).

Í samningnum eru ýmis ákvæði, sem geta augljóslega haft mikla þýðingu í sambandi við það mál sem hér er til umsagnar.

5. gr. samningsins hefur yfirskriftina Jafnrétti og bann við mismununÞar segir:

     1.      Aðildarríkin viðurkenna að allar manneskjur eru jafnar fyrir og samkvæmt lögum og eiga rétt á jafnri vernd og jöfnum ávinningi af lögum án nokkurra mismununar.
     2.      Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og árangursríka réttarvernd gegn mismunun af hvaða ástæðu sem er. 
     3.      Aðildarríkin skulu, í því skyni að efla jafnrétti og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða. 
     4.      Eigi ber að líta á sértækar aðgerðir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram raunverulegu jafnrétti fyrir fatlað fólk, sem mismunun í skilningi samnings þessa. 
(Feitletr. Þroskahj.).

9. gr. samningsins hefur yfirskriftina Aðgengi. Þar segir m.a.:

     1.      Til að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins skulu aðildarríkin gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja fötluðu fólki aðgengi, til jafns við aðra, að efnislegu umhverfi sínu, samgöngum, upplýsingum og samskiptum, þ.m.t. samskiptatækni og -kerfiog að annarri aðstöðu og þjónustu sem opin er eða veitt almenningi hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli. Ráðstafanir þessar, sem skulu fela í sér að bera kennsl á og útrýma hindrunum og tálmunum aðgengis, skulu meðal annars ná til:
         a)          bygginga, vega, samgangna og annarrar aðstöðu innan dyra sem utan, þar á meðal skóla, íbúðarhúsnæðis, heilbrigðisstofnana og vinnustaða,
         b)          upplýsinga og samskipta auk annarrar þjónustu, þar á meðal rafrænnar þjónustu og neyðarþjónustu.
     2.      Aðildarríki skulu enn fremur gera viðeigandi ráðstafanir til þess að:
         a)          þróa, breiða út þekkingu á og fylgjast með innleiðingu lágmarksviðmiða og leiðbeininga um aðgengi að aðstöðu og þjónustu sem opin er eða veitt almenningi
         b)          tryggja að einkaaðilar, sem bjóða fram aðstöðu og þjónustu sem veitt er eða opin almenningi, taki mið af öllum þáttum aðgengis fatlaðs fólks,

         g)          efla aðgengi fatlaðs fólks að nýrri upplýsinga- og samskiptatækni og -kerfum, þar á meðal netinu,
         h)          við hönnun, þróun, framleiðslu og dreifingu aðgengilegrar upplýsinga- og samskiptatækni og kerfa þar að lútandi sé frá upphafi unnið að því að slík tækni og kerfi verði aðgengileg með sem minnstum tilkostnaði.
(Feitletr. Þroskahj.).

Stafræn framþróun hefur haft mikil áhrif á íslenskt samfélag og stjórnvöld hafa varið miklum kröftum og fjármagni í hagræðingu og umbreytingu vinnubragða. Fyrir langflesta þýðir þetta mikil bót í þjónustu og tímasparnað en fyrir stóran hóp fólks hefur þetta haft þær afleiðingar að jaðarsetning eykst og tími og vinna sem fer í að eiga við kerfi, sem gera ráð fyrir að allir hafi tæknifærni, aðgengi að rafrænum skilríkjum og fulla getu hefur aukist gríðarlega.

Landssamtökin Þroskahjálp hafa ítrekað bent stjórnvöldum á þær grafalvarlegu afleiðingar sem þessi þróun hefur haft og heldur áfram að hafa á meðan ekki er hugað með fullnægjandi hætti að réttindum, þörfum og aðstæðum fatlaðs fólks. Samtökin hafa kallað eftir samráði og stefnumótun en slíkt hefur setið á hakanum, á meðan stafræn þróun heldur áfram á miklum hraða.

Dæmi eru um að einstaklingar sem tilheyra tæknilega jaðarsettum hópum hafi farið á mis við mikilvægar upplýsingar vegna aðgengisleysi að stafrænu pósthólfi. Þá eru dæmi um að einstaklingar hafi ekki geta nýtt sér umboðsmannagátt / persónulega talsmenn í stafrænum málum þar sem þeir hafi ekki bakland eða stuðningsnet sem geta sinnt því hlutverki, enda ætti ekki að þvinga fatlaðan einstakling til þess að afhenda aðgengi að upplýsingum vegna þess að stafræn kerfi hafa ekki verið aðlöguð að þörfum hans.

Þá hafa fatlaðir einstaklingar lýst miklum erfiðleikum í samskiptum við fjármálastofnanir vegna stafrænnar þróunar og lýsti einstaklingur með þroskahömlun og aðstadnendur hans á málþingi Þroskahjálpar að það hefði tekið þau 3-4 mánuði að festa kaup á íbúð vegna tregðu bankastofnunar til þess að sinna þörfum mannsins vegna þess að hann hafði ekki aðgang að rafrænum skilríkjum.

Aðstandendur, fagfólk og fatlað fólk hefur lýst þessu eins og lélegum vísindaskáldskap þar sem þau sem hafi ekki aðgang að tækninni lenda algjörlega á skjön og velviljaðir starfsmenn geti ekkert gert til þess að aðstoða vegna þess að tölvukerfið segi nei!

Það er nauðsynlegt í allri lagasetningu að taka mið af þörfum ólíkra hópa og skylda hins opinbera m.a. vegna innleiðingar á samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks sem nú stendur yfir, eins og fyrr kom fram.

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa enn og aftur eftir heildrænni stefnumótun, samráði og eftirliti við innleiðingu stafrænna lausna hjá hlutaðeigandi og ábyrgum tjórnvöldum ríkisins og vísa í því sambandi til samráðsskyldu stjórnvalda samkvæmt 3. mgr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hljóðar svo:

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

 

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, sérfræðingur í málefnum fatlaðs fólks

 

Nálgast má frumvarpið sem umsögnin á við hér.