Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um leigubifreiðaakstur

 

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar[1] um frumvarp til laga um leigubifreiðaakstur, 167. mál.

Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að hafa fengið frumvarpið til umsagnir og vilja koma eftirfarandi á framfæri varðandi það.

Með tilliti til aðstæðna, þarfa og réttinda fatlaðs fólks er mjög mikilvægt að tryggt verði að þjónustan verði ekki lakari á virkum dögum, þegar eftirspurnin er minni, þar sem það myndi koma niður á þjónustu við fatlað fólk, sem hefur ekki tækifæri eða getu til að nýta sér almennar samgöngur eða einkabíla. Því verður að tryggja öruggt aðgengi að þjónustunni alla daga vikunnar allan sólarhringinn.

Fatlað fólk er oft mjög berskjaldað gagnvart misnotkun og ofbeldi af öllu tagi, eins og rannsóknir sanna svo ekki verður um deilt. Til að tryggja öryggi þess og þá vernd sem það þarf oft á að halda og stjórnvöldum er skylt að tryggja samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, er mjög mikilvægt að auðrekjanlegt sé hvaða leigubifreið og/eða leigubifreiðastöð viðkomandi hefur átt viðskipti við. Vegna þessa er nauðsynlegt að regluverkið sé skýrt að þessu leyti og tryggi þetta og að öryggi farþega og gæði þjónustu sé tryggð og undir fullnægjandi eftirliti.

 

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar.

 

Nálgast má frumvarp sem umsögnin á við hér.



[1] Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni og fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir. Samtökin byggja stefnu sína og starfsemi á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og heimsmarkmiðum SÞ.