Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um brottfararstöð, 230. mál

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um brottfararstöð, 230. mál

 

27. nóvember 2025

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk og fötluð börn og ungmenni. Samtökin byggja stefnu sína og starfsemi á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að framfylgja, sem og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.

Landssamtökin Þroskahjálpp lýsa yfir verulegum áhyggjum af áhrifum frumvarpsins, verði það óbreytt að lögum, á stöðu og réttindi fatlaðs fólks, og þá sérstaklega fatlaðra barna, sem leita alþjóðlegrar verndar á Íslandi.

1. Áform, sem kveðið er á um í frumvarpinu, taka ekki tillit til aðstæðna, þarfa og réttinda fatlaðs fólks – sérstaklega ekki fatlaðra barna

Frumvarpið virðist byggja á nálgun, sem miðar einvörðungu að skilvirkni í meðferð umsókna og brottvísunum, án þess að tryggt sé að tekið sé tillit til mannréttinda og persónulegra aðstæðna einstakra umsækjenda á viðeigandi hátt. Fatlað fólk á samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Alþingi samþykkti að lögfesta 12. nóvember sl., skýlausan rétt á viðeigandi aðlögun, einstaklingsbundnum stuðningi, vernd og þjónustu sem tekur mið af fötlun þess. Þar að auki njóta fötluð börn verndar samkvæmt barnasatttmála Sameinuðu þjóðanna. Það er mat landssamtakanna Þroskahjálpar að þessar mannréttindalegu skuldbindingar verði ekki uppfylltar, verði frumvarpið óbreytt að lögum.

Það vekur sérstaka athygli og áhyggjur að í frumvarpinu er hvorki vikið að því hvernig tryggt verði að fatlað fólk hafi aðgang að sérhæfðri þjónustu, stuðningi og hæfu fagfólki innan brottfararstöðvar, né hvernig fatlað fólk með stuðningsþarfir verði varið gegn aukinni hættu á að aðstæður þess versni enn frekar og færni skerðist.

2. Reynslan sýnir að ekki er nægilega tekið tillit til aðstæðna fatlaðs fólks í umsóknarferlinu

Landssamtökin Þroskahjálp hafa ítrekað séð skýr dæmi um að mat á umsóknum fatlaðs fólks um alþjóðlega vernd tekur alls ekki nægilegt tillit til fötlunar, sértækra þarfa, réttinda og hagsmuna þess. Þetta á enn frekar við um umsóknir barna. Samtökin árétta í þessu sambandi sérstaklega skyldu stjórnvalda til að tryggja fötluðum einstaklingum viðeigandi aðlögun, sem er grundvallarregla í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

Í mörgum tilvikum hafa einstaklingar, með skerta færni eða þroskahömlun, ekki fengið viðeigandi aðlögun og stuðning til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, né hefur verið  tryggt að mat stjórnvalda á þörf fyrir vernd sé byggt á faglegri þekkingu og traustum upplýsingum um fötlun og / eða umönnunar- og stuðningsþarfir.

Landssamtökin Þroskahjálp telja ástæðu til að minna á að íslensk stjórnvöld hafa þegar fengið gagnrýni fyrir málsmeðferð og þjónustu við fatlaða umsækjendur um alþjóðlega vernd. Frumvarpið bætir ekki úr þessum ágöllum heldur virðist í mörgu tilliti auka hættuna á að fatlað fólk verði fyrir frekari réttindabrotum af hálfu íslenskra stjórnvalda.

3. Hætta á versnandi aðbúnaði og meðferð mála fatlaðs fólks

Þroskahjálp óttast að brottfararstöð, eins og hún er útfærð í frumvarpinu, muni leiða til hraðari, óvandaðri og ómannúðlegri málsmeðferðar í málum umsækjenda sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Það á einkum við um fatlað fólk sem getur þurft tíma, sérfræðiþjónustu, túlkaþjónustu og aðlagaðar samskiptaleiðir til að geta notið réttinda sinna.

Frumvarpið tekur ekki nægilegt til þessa og virðist alls ekki tryggja að stjórnvöld uppfylli skyldur sínar  til að tryggja nauðsynlega sérfræðiþekkingu og / eða úrræði innan brottfararstöðvar til að bregðast með viðeigandi hætti og aðlögun við fötlunartengdum þörfum og réttindum, hvorki barna né fullorðinna.

Að mati Landssamtakanna Þroskahjálpar eru því verulegar líkur á því að aðbúnaður fatlaðra umsækjenda versni verði frumvarpið óbreytt að lögum, bæði hvað varðar lífsskilyrði á staðnum og möguleika fatlaðra umsækjenda um alþjóðlega vernd til að fá að njóta réttinda sinna og viðeigandi aðlögunar í reynd af hálfu hlutaðeigandi stjórnvalda.

4. Niðurstaða

Með vísan til þess sem að framan er rakið leggjast Landssamtökin Þroskahjálp eindregið gegn frumvarpinu og telja að það standist hvorki alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar né grundvallarreglur um vernd barna og fatlaðs fólks.

Landssamtökin Þroskahjálp skora á stjórnvöld og Alþingi:

  • Að falla frá áformum um brottfararstöð.
  • Að setja réttindi og hagsmuni fatlaðs fólks,  barna og annarra viðkvæmra hópa í forgrunn við mótun úrræða.
  • Að styrkja og bæta verndarkerfið í heild sinni í samræmi við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks, í stað þess að þrengja að réttindum og skerða þjónustu við fatlaða umsækjendur um alþjóðlega vernd.
  • Að hafa náið og innihaldsríkt samráð við hagsmunasamtök fatlaðs fólks við útfærslu úrræða sem fatlað fólk mun nýta, svo sem skylt er samkvæmt 3. mgr. 4 gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

Virðingarfyllst.

Guðmundur Ármann Pétursson, formaður Þroskahjálpar

Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 

Málið sem umsögnin fjallar um má finna hér.