Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018 (notendaráð), 838. mál.

Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að tryggja að öllum ákvæðum hans sé og verði framfylgt hér á landi. Í 4. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina „Almennar skuldbindingar“ er sérstaklega kveðið á um skyldur ríkja til að tryggja að í löggjöf þeirra séu fullnægjandi ákvæði til að tryggja það.[1] Skylda ríkja til samráðs við fatlað fólk og samtök sem vinna að réttinda- og hagsmunamálum þess er einn af meginþáttium samningsins og er það sérstaklega áréttað í 3. mgr. 4. gr. samningsins: 

 Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd. 

 Landssamtökin Þroskahjálp hafa skilning á þeim röksemdum sem fram koma í greinargerð með frumvarpi því sem hér er til umfjöllunar. Samtökin telja þó mjög mikilvægt og vísa í því sambandi m.a. til framannefndra skyldna ríkja samkvæmt samningi SÞ að í lögum sé nægilega skýrt kveðið á um samráðsskyldur stjórnvalda og framfylgd þeirra. Með vísan til þess sem að framan segir og þeirra réttinda og hagsmuna, sem ætla verður að þeim lagaákvæðum sem lagt er til að verði felld niður og/eða breytt sé ætlað að vernda, vaknar sú spurning, að mati samtakanna, hvort við gerð frumvarpsins hafi þess verið nægilega gætt að mæta þeim aðstæðum sem lýst er í greinargerð, án þess að skerða um of lagalega vernd þeirra réttinda og hagsmuna sem liggja til grundvallar umræddum ákvæðum laganna varðandi samráð.

 

Virðingarfyllst,

 

Bryndís Snæbjörndsdóttir, formaður þroskahjálpar

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

Nálgast má frumvarpið sem umsögnin á við hér.[1] Í greininni segir m.a.:

     1.      Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og mannfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar. 
    Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til: 
          a)      að samþykkja öll viðeigandi lagaákvæði og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til þess að þau réttindi sem eru viðurkennd með samningi þessum verði að veruleika,           

b)      að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar með talið á sviði lagasetningar, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin, ...