Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008 (símar og snjalltæki), 232. mál
27. nóvember 2025
Landssamtökin Þroskahjálp eru heildarsamtök fatlaðs fólks sem vinna sérstaklega að réttinda- og hagsmunamálum allra fatlaðra barna og ungmenna og aðstandenda þeirra og fólks með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir. Samtökin byggja stefnu sína og starfsemi á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að framfylgja, sem og á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.
Landssamtökin Þroskahjálp leggja áherslu á að umræða um notkun tækni í skólastarfi verði að byggjast á jafnræði, mannréttindum barna og raunverulegri reynslu þeirra sem njóta þjónustu og stuðnings skólakerfisins.
Að takmarka truflun, styrkja félagsfærni og stuðla að heilbrigðu skólaumhverfi eru mikilvæg og verðug markmið. Þroskahjálp styður aðgerðir sem miða að því að skapa öruggt og uppbyggilegt námsumhverfi fyrir öll börn.
Hins vegar er mikilvægt að reglur um símanotkun og snjalltæki séu ekki of víðtækar eða ómarkvissar og taki mið af ólíkum þörfum barna, þar með talið fatlaðra barna sem kunna að reiða sig á tæki til samskipta, skipulags eða náms.
Réttur fatlaðra barna til aðgengis og þátttöku
Samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Alþingi samþykkti að lögfesta 12. nóvember sl, ber að tryggja að fatlaðir nemendur hafi jafnan aðgang að skólaumhverfi, samskiptum og námi. Snjalltæki, forrit og stoðtækni geta verið grundvallaratriði til að tryggja þennan aðgang og þátttöku.
Takmarkanir sem sem skerða aðgang eða koma í veg fyrir að fatlaðir nemendur hafi aðgang að nauðsynlegri stoðtækni geta grafið undan þessum réttindum og dregið úr sjálfstæði, námstækifærum og félagslegri þátttöku þeirra.
Reynslan sýnir skert tæknilæsi fatlaðra barna
Þrátt fyrir að snjalltæki og tæknilausnir geti verið öflug tæki til aukinnar þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu sýnir reynslan að fötluð börn og ungmenni útskrifast almennt úr grunnskólum með minni tæknilæsi en önnur börn. Þetta á bæði við um almenna tækniþekkingu og hæfni til að nýta tæki sem stoðtæki í daglegu lífi, til dæmis máltækni.
Þessi þróun er grafalvarleg og endurspeglar kerfisbundinn skort á markvissri kennslu og aðlögun tækni að þörfum fatlaðra barna.
Jafnræði og réttlæti
Landssamtökin Þroskahjálp leggja mikla áherslu á, að ef teknar verða upp strangari reglur um snjalltæki í skólum, verði tryggt að þær leiði ekki til frekari jaðarsetningar fatlaðra barna. Þvert á móti ber að:
- Tryggja markvissa kennslu í notkun tækni fyrir öll börn.
- Kenna notkun máltækni og snjalltækni til samskipta, skipulags, náms og félagslegrar þátttöku.
- Meta einstaklingsbundnar þarfir og leyfa undanþágur þar sem tæki eru nauðsynleg til að stuðla að jafnræði.
Að tryggja að fatlaðir nemendur hafi ekki aðeins aðgang að tækni heldur öðlist einnig færni til að nota hana er mikið réttlætismál. Án slíkrar kennslu er hætta á að bilið milli fatlaðra og ófatlaðra barna hvað varðar tækifæri til virkrar samfélagsþátttöku og möguleika til sjálfstæðs lífs breikki enn frekar.
Tilmæli frá Landssamtökunum Þroskahjálp:
Þroskahjálp leggur til að reglur um símanotkun og snjalltæki feli í sér:
- Skýrar undanþágur fyrir börn sem nýta tæki vegna fötlunar.
- Mat á einstaklingsbundnum þörfum fatlaðra barna í samstarfi við foreldra og/eða sérfræðinga og skólans.
Þroskahjálp styður að settar séu skýrar og sanngjarnar reglur um símanotkun og snjalltæki í grunnskólum en það er lykilatriði, að mati samtakanna, að slíkar reglur tryggi að fatlaðir nemendur njóti réttar og tækifæra til þátttöku á jafnréttisgrundvelli. Það verður að tryggja að fatlaðir nemendur verði ekki fyrir frekari útilokun eða mismunun – heldur fái raunveruleg tækifæri til að læra, þroskast og taka þátt í samfélaginu á eigin forsendum.
Samtökin hvetja eindregið til þess að í öllum ákvörðunum og stefnumótun á þessu sviði verði mannréttindi og jafnræði sett í öndvegi og samráð haft við fötluð börn og / eða hagsmunasamtök sem koma fram fyrir þeirra hönd.
Virðingarfyllst.
Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar
Katarzyna Kubiś, verkefnastjóri í málefnum fatlaðra barna
Málið sem umsögnin fjallar um má finna hér.