Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um breytingu á barnalögum nr. 76/2003 (réttur til umönnunar), 30. mál og tillögu til þingsályktunar um skipun starfshóps til að annast veikt eða slasað barn, 191. mál.

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og fólk með þroskahömlun. Samtökin byggja stefnu sína á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum.

 Landssamtökin Þroskahjálp styðja þau sjónarmið sem fram koma í frumvarpinu og taka undir mikilvægi þess að rétturinn til umönnunar sé sjálfstæður réttur barns fremur en eingöngu réttur foreldra sem ræðst af ráðningarsambandi þeirra við vinnuveitendur. Slík breyting tæki með augljósum hætti ríkari mið af því sem er barni fyrir bestu, líkt og barnasáttmáli SÞ og samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks kveða á um. Í 7. gr. samningsins segir: „Í öllum aðgerðum, sem snerta fötluð börn, skal fyrst og fremst hafa það að leiðarljósi sem er viðkomandi barni fyrir bestu.“

Sjálfstæður réttur barns til umönnunar vegna veikinda eða slysa væri afar mikilvægur fötluðum börnum sem glíma við heilsubrest eða veikindi. Landssamtökin Þroskahjálp styðja því heils hugar að frumvarpið verði samþykkt. Þá styðja samtökin einnig tillögu til þingsályktunar um skipun starfshóps um rétt til að annast veikt eða slasað barn og markmiðin með skipun hans.

 

Virðingarfyllst.

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

Anna Lára Steindal, verkefnastjóri Þroskahjálapar í málefnum barna, ungmenna og fólks af erlendum uppruna

Nálgast má þingmál sem umsögnin á við hér

og hér.