Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum nr. 19/1940 (Þrenging ákvæðis um hatursorðræðu), 82. mál
3. nóvember 2025
Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk og fötluð börn og ungmenni. Samtökin byggja stefnu sína og starfsemi á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að framfylgja, sem og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.
Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur, stjórnafrumvarp um lögfestingu samningsins var til meðferðar á síðasta þingi og er einnig til meðferðar á yfirstandandi þingi. Þá er í gangi af hálfu ríkisins sérstök landsáætlun um innleiðingu samningsins.
4. gr. samningsins hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar. Þar segir:
1. Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi á grundvelli fötlunar.
Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:
a) að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningi þessum, ...
Í 1. gr. samningsins segir:
Markmiðið með samningi þessum er að stuðla að, verja og tryggja að allt fatlað fólk njóti til fulls og að jöfnu allra mannréttinda og mannfrelsis og að stuðla að virðingu fyrir eðlislægri reisn þess.
Í 8. gr. samningsins, sem hefur yfirskriftina Vitundarvakning, segir:
1. Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að samþykkja tafarlausar, árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir:
a) til þess að koma á vitundarvakningu alls staðar innan samfélagsins, þar á meðal innan fjölskyldunnar, um fatlað fólk og að auka virðingu fyrir réttindum og mannlegri reisn þess,
b) til þess að vinna gegn staðalímyndum, fordómum og skaðlegum venjum sem tengjast fötluðu fólki, þar á meðal þeim sem tengjast kyni og aldri, á öllum sviðum lífsins, ...
16. gr. samningsins hefur yfirskriftina Frelsi frá misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum. Þar er kveðið á um ýmsar skyldur ríkja sem hafa fullgilt samningninn til að vernda fatlað fólk fyrir ofbeldi af ýmsu tagi og gera viðeigandi ráðstafanir til þess. þ.m.t. með setningu laga.
Þau ákvæði samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem vísað er til hér að framan eru viðurkenning og viðbrögð alþjóðasamfélagsins gagnvart þeirri staðreynd að fatlað fólk hefur orðið fyrir og verður enn fyrir miklum fordómum sem m.a. birtist í neikvæðri og lítilækkandi orðræðu, mismunun og ofbeldi af ýmsu tagi hvarvetna í heiminum. Ísland er engin undantekning frá því. Einn þáttur í slíku ofbeldi er hatursorðræða, sem skapar, ýtir undir og viðheldur fordómum og leiðir til mismununar og ofbeldis.
Með vísan til þess, sem að framan er rakið, lýsa samtökin andstöðu við að greinin verði þrengd með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu.
Virðingarfyllst.
Guðmundur Ármann Pétursson, formaður Þroskahjálpar
Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar
Málið sem umsögnin fjallar um má finna hér.