Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum nr. 19/1940 (barnaníðsefni, hatursorðræða mismunun o.fl.), 710. mál.

Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að hafa fengið frumvarpið til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á franmfæri við það.

Landssamtökin Þroskahjálp fagna þeim breytingum sem eru í frumvarpinu á almennum hegningarlögum sem hafa m.a. það mikilvæga markmið að veita fötluðu fólki sömu refsivernd og öðrum hópum sem vitað er og viðurkennt og sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að eru sérstaklega berksjaldaðir gagnvart hatursorðræðu og hatursglæpum.

Hatursorðræða (e. hate speech) hefur verið skilgreind sem orðræða sem ræðst gegn einstaklingi eða hópi á grundvelli til dæmis kynþáttar, trúar, kyns, fötlunar eða kynhneigðar.

Viðurkennt er að hatursorðræða er til þess fallin að ala á fordómum gagnvart fólki og hópum sem hún beinist að og leiðir þannig til aukinnar mismununar og getur einnig leitt til ofbeldis gagnvart þeim. Þá vegur hatursorðræða að skoðana- og tjáningarfrelsi þeirra sem fyrir henni verða því hún fælir þá frá að segja skoðanir sínar opinberlega og lýsa aðstæðum sínum og samfélagslegum hindrunum sem við er að glíma.

Þess vegna er viðurkennt og mælt fyrir um það í fjölþjóðlegum mannréttindasamningum að ríkjum sé rétt að banna hatursorðræðu með lögum þó að í því felist nokkur skerðing á tjáningarfrelsi þeirra sem beina hatursorðræðu að öðrum. Með tilkomu og almennri notkun samfélagsmiðla hefur ógnin sem leiðir af hatursorðræðu gagnvart mannréttindum minnihlutahópa aukist mikið.

Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að virða ákvæði hans og framfylgja þeim.

Í 1. gr. samningsins segir m.a.: „Markmiðið með samningi þessum er að stuðla að, verja og tryggja að allt fatlað fólk njóti til fulls og að jöfnu allra mannréttinda og mannfrelsis og að stuðla að virðingu fyrir eðlislægri reisn þess.“ Og í 3. gr. samningsins kemur fram að virðing fyrir eðlislægri reisn fatlaðs fólks sé ein af meginreglum samningsins.

Í 8. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina „Vitundarvakning“ segir m.a. að ríki sem skuli „samþykkja tafarlausar, árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir ... til þess að stuðla að vitundarvakningu alls staðar innan samfélagsins, einnig á vettvangi fjölskyldunnar, um fatlað fólk og að auka virðingu fyrir réttindum og mannlegri reisn þess“, og „til þess að vinna á móti staðalímyndum, fordómum og skaðlegum venjum sem tengjast fötluðu fólki, einnig þeim sem eru reist á kyni og aldri, á öllum sviðum lífsins.“

16. gr. samningsins hefur yfirskriftina „Frelsi frá misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum.“ Þar er kveðið á um ýmsar skyldur ríkja sem hafa fullgilt samninginn til að vernda fatlað fólk fyrir ofbeldi af ýmsu tagi. Þau ákvæði samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks sem vísað er til hér að framan eru viðurkenning ríkja heims á þeirri staðreynd að fatlað fólk hefur orðið fyrir og verður enn fyrir miklum fordómum sem m.a. birtast í neikvæðri og lítillækkandi orðræðu, mismunun og ofbeldi af ýmsu tagi hvarvetna í heiminum. Ísland er engin undantekning frá því eins og dæmin sýna.

Með vísan til þess sem að framan er rakið hvetja Landssamtökin Þroskahjálp Alþingi til að samþykkja frumvarpið eins skjótt og verða má.  Samtökin óska eftir að fá  fund með allsherjar- og menntamálanefnd til að gera betur grein fyrir sjónamiðum sínum og  áherslum varðandi frumvarpið.

 

Virðingarfyllst,

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

Nálgast má frumvarp sem umsögnin á við hér.