Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um almannatryggingar (hækkun lífeyris), 25. mál.

 Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að hafa fengið frumvarpið til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfæri varðandi það.

Með frumvarpi þessu er verið að tryggja að kaupgjaldsliður svokallaðra lífskjarasamninga nái til elli- og örorkulífeyrisþega með sambærilegum hætti og launafólks með lágar tekjur. Það að hækkun alamannatrygginga hækki með allt öðrum hætti en lágmarkslaun í landinu leiðir til vaxandi gliðnunar á milli launafólks annars vegar og örorkubótaþega hins vegar. Slíkt er með öllu óásættanlegt og afar óréttlátt.

Núverandi ríkistjórn hét því að bæta kjör öryrkja m.a. í stefnuyfirlýsingu sinni. Við það hefur ekki verið staðið.

Landssamtökin þroskahjálp standa vörð um hagsmuni og réttindi fólks sem vegna fötlunar þarf margt hvert frá unga aldri að reiða sig alfarið á bætur almannatrygginga. Samtökin hafna því alfarið og fordæma að þeir einstaklingar séu ítrekað látið bíða eftir nauðsynlegum og réttlátum kjarabótum vegna þvingandi aðgerða ríkisvaldsins við að ná fram breytingum á örorkumati til framtíðar.

Samtökin minna  einnig á að enn þá hefur ekki verið greitt út til öryrkja 1.1 miljarður kr. sem Alþingi ákvað á fjárlögum 2019 að skyldi nota til að bæta kjör þessa hóps 

Með vísan til þess sem að framan segir mæla Landssamtökin Þroskahjálp eindregið með að  frumvarpið verði samþykkt.

 

Virðingarfyllst.

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar.

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar.

Nálgast má frumvarpið sem umsögnin á við hér.