Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um fjárlagafrumvarp 2018.

 

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um fjárlagafrumvarp 2018.

Landssamtökin Þroskahjálp vilja koma eftirfarandi á framfæri við fjárlaganefnd varðandi frumvarp til fjárlaga 2018.

Framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks.

Þann 31. maí 2017 samþykkti Alþingi þingsályktun um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks 2017–2021.

http://www.althingi.is/altext/146/s/1000.html 

Liður F.6. í framkvæmdaáætluninni hljóðar svo:

F.6. Áhrif fjárveitingar til félags-, heilbrigðis- og menntamála hafa á líf fatlaðs fólks verði skoðuð. 
     Markmið: Heildarmynd af samfélagslegum stuðningi við fatlað fólk sé ljós. 
     Lýsing: Við fjárlagagerð verði skoðað hvernig fjárveitingar koma við fatlað fólk eins og gert er í kynjaðri fjárlagagerð með jafnrétti í huga. Áhrif útgjaldabreytinga á sviði velferðar, heilbrigðis og menntunar á stöðu og líf fatlaðs fólks verði skoðuð. Sérstaklega verði hugað að stöðu ungs fólks þegar það hefur sjálfstætt líf og áætlunum framfylgt um að útrýma herbergjasambýlum í áföngum. Skipaður verði stýrihópur með fulltrúum samstarfsaðila. 
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið. 
     Dæmi um samstarfsaðila: Fjármála- og efnahagsráðuneytið, innanríkisráðuneytið, samtök fatlaðs fólks og sveitarfélög. 
     Tími: 2017–2021. 
     Kostnaður: Innan ramma. 
     Mælanlegt markmið: Breyttu verklagi komið á.

Landssamtökin Þroskahjálp telja mjög mikilvægt að ráðuneyti og stofnanir þeirra taki ályktanir Alþingis alvarlega, þ.m.t. þessa ályktun sem Alþingi samþykkti var fyrir rúmlega hálfu ári síðan. Ekki þarf að hafa mörg orð um hverju það skiptir fyrir vald, virðingu og trúverðugleika löggjafans. Samtökin urðu ekki vör við að unnið væri samkvæmt ofangreindri ályktun við gerð þess frumvarps til fjárlaga sem nú liggur fyrir og telja því nauðsynlegt að fjárlaganefnd kalli eftir upplýsingum um það frá fjármálaráðuneytinu og ef ráðuenytið hefur virt þessa ályktun Alþingis að vettugi kalli nefndin eftir skýringum ráðuneytisins á þeirri framkvæmd.

Á bls. 39 í fylgiriti með frumvarpi til fjárlaga 2018 kemur fram undir liðnum 08-809 Málefni fatlaðra „rekstrartilfærslur“ upp á 316 milljónir kr. Landssamtökin Þroskahjálp telja nauðsynlegt að fjárlaganefnd tryggi að skýrt verði hvað felst í þessum lið og bendir í því sambandi á að kostnaður vegna notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) á ekki að falla undir framkvæmdaáætlun, sbr. greinargerð með framkvæmdaáætluninni þar sem segir: „Ekki er sérstök aðgerð um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) í framkvæmdaáætluninni þar sem fyrirhugað er að lögfesta NPA.“

Ef það er hins vegar réttur skilningur að einungis 60,8 milljónir kr. séu ætlaðar til framkvæmdaáætlunarinnar, sbr. framannefndan lið í fylgiritinu, er augljóst að mati samtakanna að ekki verður mögulegt að hrinda nema litlum hluta áætlunarinnar í framkvæmd.  

Um örorkubætur.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir undir yfirskriftinni „Jöfn tækifæri“:

Ísland á að vera land tækifæranna fyrir alla. Til að svo megi verða þarf að styrkja sérstaklega stöðu þeirra sem höllum fæti standa. Gerð verður úttekt á kjörum tekjulægstu hópanna í íslensku samfélagi, tillögur til úrbóta settar fram og þeim fylgt eftir. Sérstaklega þarf að huga að stöðu barna sem búa við fátækt en þau eru einn af viðkvæmustu hópum samfélagsins.

Landssamtökin Þroskahjálp fá ekki séð að í frumvarpinu sé gert ráð fyrir neinni raunhækkun örorkulífeyris til annarra en þeirra sem búa einir og hafa engar aðrar tekjur. Það er lítið skref í rétta átt að tryggja þeim sem búa einir 300 þúsund kr. á mánuði. En ef það er réttur skilningur hjá samtökunum að þeir sem búa með öðrum fái ekki einnig að lágmarki 300 þús. kr. hlýtur það að vekja mikla furðu og vonbrigði, enda í fullkomnu ósamræmi við tilvitnuð orð í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Samtökin fagna mjög áætlunum um að bæta kjör ellilífeyrisþega en telja að sömu réttlætisrök hljóti að eiga við um örorkulífeyrisþega.   

Innleiðing samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Alþingi fól utanríkisráðherra í september 2016  að fullgilda fyrir hönd íslenska ríkisins samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Fullgilding samningsins þýðir að íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að framfylgja öllum ákvæðum hans.

Í 4. gr. samningsins sem ber yfirskriftina Almennar skuldbindingar, er kveðið á um ýmsar skyldur sem ríki sem fullgilda samninginn hafa til að gera margvíslegar ráðstafanir til að tryggt verði að fatlað fólk fái öll þau réttindi og alla þá vernd sem samningurinn mælir fyrir um.

Þegar litið er til þeirra skyldna sem íslenska ríkið hefur tekið á sig með fullgildingu þessa mikilvæga mannréttindasamnings hlýtur að vekja furðu og vonbrigði að í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2018 skuli ekki gert ráð fyrir sérstökum fjárveitingum til þeirra verkefna og aðgerða. Þær 60,8 milljónir kr. sem ætlaðar eru í framkvæmdaáætlun duga skammt til þess.

Í þessu sambandi vilja Landssamtökin Þrokshjálp einnig benda fjárlaganefnd á og gera alvarlegar athugasemdir við að samkvæmt fyrirliggjandi frumvörpum um fjárlög og notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) er einungis gert ráð fyrir að samningum um NPA verði fjölgað um 20 á árinu 2018. Notendastýrð persónuleg aðstoð er þjónustuform sem mætir mjög vel þeim skuldbindingum sem ríki hafa samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks til að laga þjónustuna að þörfum þeirra sem í hlut eiga og að tryggja fötluðu fólki tækifæri til sjálfstæðs og eðlilegs lífs og virkrar þátttöku í samfélaginu. Þessi ráðagerð um litla fjölgun samninga lýsir litlum metnaði á þessu sviði almennt og sérstaklega í ljósi þess að ætla má að stór sveitarfélög séu tilbúin til samstarfs um mun meiri fjölgun NPA-samninga.

Félags- og húsnæðismálaráðherra skipaði starfshóp til þess að endurskoða lög um málefni fatlaðs fólks og lög um félagsþjónustu sveitarfélaga.  „Tilefni endurskoðunarinnar er meðal annars innleiðing samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks“, eins og segir í frétt á heimasíðu velferðarráðuneytisins þar sem drög að frumvörpum að lögum laga um þjónustu við fatlað fólk með sérstakar þjónustuþarfir og um breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga voru kynnt. Breytingar á íslenskri löggjöf sem gert er ráð fyrir í frumvörpunum eru því að mati hlutaðeigandi ráðuneytis m.a. nauðsynlegar til að standa við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem hefur nú verið fullgiltur.

Ekki verður sé að í fjárlagafrumvarpinu sé gert ráð fyrir nauðsynlegu fé til að hrinda þeim til ákvæðum í framkvæmd sem mælt er fyrir um í frumvarpsdrögunum og íslenska ríkinu er skylt að setja í lög og framfylgja samkvæmt samningi SÞ.

Fullgilding valkvæðs viðauka við samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

Alþingi ályktaði einróma í september 2016 að íslenska ríkið skyld fullgilda valkvæðan viðauka við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það hefur ekki enn verið gert. Fullgilding valkvæða viðaukans er mikilvægur þáttur í innleiðingu samningsins, eykur aðhald með hlutaðeigandi stjórnvöldum og veitir mannréttindum fatlaðs fólks aukna vernd. Meira en 90 ríki hafa fullgilt viðaukann. Ekki verður séð í fjárlagafrumvarpinu að gert sé ráð fyrir að valkvæði viðaukinn verði fullgiltur á árinu 2018 þrátt fyrir þessa afdráttarlausu ályktun Alþingis.

Sjálfstæð mannréttindastofnun.

Í frétt á heimasíðu innanríkisráðuneytisins sem birtist 8. júlí 2016 kemur fram að ráðuneytið hafi unnið drög að lagafrumvarpi um sjálfstæða mannréttindastofnun og eru þau birt með fréttinni á heimasíðunni til umsagnar. Í fréttinni segir að frumvarpið feli í sér að stofnuð verði sjálfstæð og þjóðbundin mannréttindastofnun sem starfi á vegum Alþingis (e. National Human Rights Institution) og að meginhlutverk hennar yrði að efla og vernda mannréttindi hér á landi eins og þau eru skilgreind í stjórnarskrá, lögum, alþjóðasamningum og öðrum alþjóðlegum skuldbindingum.

Þá segir í fréttinni að í frumvarpinu sé „kveðið á um að komið verði á fót stofnun sem uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru í Parísarviðmiðunum frá árinu 1993. Frumvarpið er mikilvægur liður í því að stjórnvöld geti fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.“ (Undirstr. LÞ) 

Ekki verður séð að í fjárlagafrumvarpinu sé gert ráð fyrir fé til að uppfylla þá skyldu sem íslenska ríkið hefur með fullgildingu samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks tekið á sig til að setja á fót sjálfstæða mannréttindastofnun, eins og réttilega segir í tilvitnaðri frétt á heimasíðu innanríkisráðuneytisins. Alþjóðlegir eftirlitsaðilar með mannréttindum hafa oft gert athugasemdir við að ekki sé til sjálfstæð mannréttindastofnun á Íslandi og hafa ítrekað og eindregið hvatt íslensk stjórnvöld til að bæta úr því.

Sérfræðiþjónusta fyrir fullorðið fólk (18 ára og eldri) með þroskahömlun, einhverfu og hreyfihömlun.

Ekki verður séð að í fjárlagafrumvarpinu sé gert ráð fyrir fé til að koma á fullnægjandi sérfræðiþjónustu fyrir fullorðið fólk (18 ára og eldri) með þroskahömlun, einhverfu og hreyfihömlun. Nú veitir Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins (GRR) þessa þjónustu fyrir börn en brýn þörf er á þessari sérfræðiþónustu fyrir fullorðið fólk. Það má gera hvort heldur sem er með því að útvíkka starfsemi GRR eða með því að stofna sérhæfða þjónustumiðstöð á sviði heibrigðis- og félagsþjónustu sem fengi m.a. það hlutverk að sjá fyrir þessari þjónustu. Rétt er í þessu sambandi að benda á að nú þegar starfa stofnanir sem veita fólki (bæði börnum og fullorðnum) sérfræðiþjónustu vegna heyrnarskerðinga og vegna sjónskerðinga og er því augljóslega verið að mismuna fólki um þjónustu af þessu tagi eftir því hvers konar fötlun um er að ræða.

Samskiptamiðstöð heyrnarlausra.

Ekki verður séð í fjárlagafrumvarpinu að gert sé ráð fyrir auknu fé til Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra sem hefur það hlutverk að sjá fólki sem á þarf að halda fyrir táknmálstúlkun. Í því sambandi er nauðsynlegt að líta til þess að íslenskt táknmál hefur verið viðurkennt með lögum og mælt fyrir um það að stjórnvöld skuli „hlúa að því og styðja“, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2011, um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls og að samningur Sameinuðu þjóðanna hefur verið fullgiltur. Í 9. gr. samningsins sem ber fyrirsögnina Aðgengi er lögð mikil áhersla á að tryggja fötluðu fólki möguleika til virkrar þátttöku í samfélaginu og samskipta við annað fólk og til aðgangs að upplýsingum og skyldur ríkja til að gera ýmsar ráðstafanir í því skyni. Táknmálstúlkun er augljóslega afar mikilvægur þáttur í því.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir:

„Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður innleiddur. Skýra þarf í lögum réttinn til táknmálstúlkunar í daglegu lífi.“

Með hliðsjón af þessum orðum og skuldbindinga íslenska ríkisins samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks hlýtur að vekja mikla furðu og vonbrigði að ekki sé gert ráð fyrir auknu framlagi til túlkaþjónustu hjá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, sbr. bls. 102  í fylgiriti með frumvarpi til fjárlaga 2018 og bls. 38 í sama riti 2017.

 

Reykjavík, 18. desember 2017.

Virðingarfyllst,

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður.

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri.