Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að stefnu um rafleiki / rafíþróttir

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni og fólk með þroskahömlun. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist.

Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Meginmarkmið samningsins er að tryggja fötluðu fólki raunhæf tækifæri til virkrar þátttöku á öllum sviðum samfélagsins til jafns við aðra og án aðgreiningar.

Í 4. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina “Almennar skuldbindingar” segir:
“1. Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi á grundvelli fötlunar. “
Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:
a) að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningi þessum,
b) að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin,
c) að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanagerð, …” (Feitletr. Þroskahj.)

30. gr. samningsins hefur yfirskriftina “Þátttaka í menningarlífi, tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi”. Þar segir m.a.:
“5. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir, í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að taka til jafns við aðra þátt í tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi, til þess að:
a) hvetja til og efla þátttöku fatlaðs fólks, eins og frekast er unnt, í almennu íþróttastarfi á öllum stigum,
b) tryggja fötluðu fólki tækifæri til þess að skipuleggja, þróa og taka þátt í íþróttaog tómstundastarfi fyrir fatlað fólk og stuðla í því skyni að framboði á viðeigandi leiðsögn, þjálfun og úrræðum til jafns við aðra,
c) tryggja fötluðu fólki aðgang að stöðum þar sem íþrótta- og tómstundastarf fer fram og að ferðamannastöðum,
d) tryggja fötluðum börnum jafnt aðgengi á við önnur börn til þátttöku í leikjum, tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi, þar á meðal innan skólakerfisins,
e) tryggja fötluðu fólki aðgang að þjónustu þeirra sem annast skipulagningu tómstundastarfs, ferðamennsku. frístunda- og íþróttastarfs.”

9. gr. samningsins hefur yfirskriftina “Aðgengi”.
Þar segir m.a.: “2. Aðildarríki skulu enn fremur gera viðeigandi ráðstafanir til þess að:
g) efla aðgengi fatlaðs fólks að nýrri upplýsinga- og samskiptatækni og -kerfum, þar á meðal netinu,
h) við hönnun, þróun, framleiðslu og dreifingu aðgengilegrar upplýsinga- og samskiptatækni og kerfa þar að lútandi sé frá upphafi unnið að því að slík tækni og kerfi verði aðgengileg með sem minnstum tilkostnaði.”

Landssamtökin Þroskahjálp leggja áherslu á að við stefnumótun þá sem hér er til umfjöllunar taki mennta- og menningarmálaráðuneytið “mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks”, eins og það er skuldbundið til að gera, sbr. ákvæði 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks sem vitnað er til hér að framan. Í því sambandi verður m.a. að líta sérstaklega til ákvæða 30. og 9. gr. samningsins.

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa vilja og áhuga til samráðs við mennta- og menningarmálaráðuneytið við það verkefni og visa í því sambandi til ákvæða 3. mgr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks sem hljóðar svo: “Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.”

Virðingarfyllst,
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar


Nálgast má mál sem umsögn á við hér.