Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að reglugerð um dagsektir Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála

Landssamtökin Þroskahjálp vilja koma eftirfarandi á framfæri við félagsmálaráðuneytið varðandi reglugerðardrögin og atriði sem þeim tengjast.

Í 5. gr. reglugerðardraganna segir:

„Reglugerð þessi, sem sett er á grundvelli 20. gr. laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021, tekur gildi 1. janúar 2022.“

23. gr. laga nr. 88/2021, um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, hefur yfirskriftina „Samráð við undirbúning stjórnvaldsfyrirmæla“ og hljóðar svo:

„Við undirbúning stjórnvaldsfyrirmæla sem ráðherra setur á grundvelli laga þessara og varða þjónustu sem er veitt af sveitarfélögum skal hafa samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga. Við undirbúning stjórnvaldsfyrirmæla sem ráðherra setur á grundvelli laga þessara skal eftir atvikum hafa samráð við notendahópa sem eiga hagsmuna að gæta og samtök þeirra.“

Ákvæði þessu komu inn í frumvarpið, sem varð að lögum nr. 88/2021, samkvæmt breytingartillögu meirihluta velferðarnefndar. Í nefndaráliti meirihlutanefndar segir um þá breytingartillögu :

„Samráð.
Samband íslenskra sveitarfélaga benti á í umsögn sinni að ekki sé til staðar almennt ákvæði um samráð við sambandið um setningu stjórnvaldsfyrirmæla og tilhögun gæðaviðmiða. Meiri hlutinn tekur að einhverju leyti undir þessar athugasemdir sambandsins en leggur áherslu á að samráð sé einnig haft við aðra hagsmunaaðila. Þá geta reglugerðir ráðherra fjallað um þjónustu sem er veitt af bæði ríki og sveitarfélögum og því telur meiri hlutinn ekki þörf á að lögfesta skyldu til samráðs við sveitarfélög um öll stjórnvaldsfyrirmæli heldur eingöngu þau sem varða sveitarfélög. Meiri hlutinn leggur því til að nýtt ákvæði bætist við frumvarpið þar sem kveðið er á um skyldu ráðherra til að hafa samráð annars vegar við Samband íslenskra sveitarfélaga þegar við á og hins vegar við aðra hagsmunaaðila þegar við á.“

Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem íslenska ríkið fullgilti árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja, m.a. og ekki síst við setningu laga og reglna sem varða réttindi fatlaðs fólks og eftilit með framfylgd þeirra, er mælt fyrir um samráðsskyldur stjórnvalda í 3. Mgr. 4. gr.,sem hefur yfirskriftina „Almennar skuldbindingar“ og í 3.mgr. 33. gr., sem hefur yfirskriftina „Eftirlit innanlands“.

3. mgr. 4. gr. samningsins hljóðar svo:

„Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.“

Og í 3. gr. 33. gr. samningsins segir:

„Borgaralegt samfélag, einkum fatlað fólk og samtök sem koma fram fyrir þess hönd, skal eiga hlut að og taka fullan þátt í eftirlitsferlinu.“

Nefnd samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hefur eftirlit með hvernig aðildarríki framfylgja ákvæðum samningsins, hefur sent frá sér almennar athugsemdir (General Comment) þar sem fjallað erum samráðsskyldur stjórnvalda samkvæmt samningnum og þar eru fyrrnefnd ákvæði 3. mgr. 4. gr. og 3. mgr. 33. gr. skýrð ítarlega.

Þessar almennu athugasemdir nefndarinnar hafa yfirskriftina „General comment No. 7 (2018) on the participation of persons with disabilities, including children with disabilities, through their representative organizations, in the implementation and monitoring of the Convention.“  

Þessar almennar athugasemdir nefndarinnar má nálgast á heimasíðu nefndarinnar á hlekk að neðan.

https://www.ohchr.org/en/hrbodies/crpd/pages/crpdindex.aspx

Landssamtökin Þroskahjálp vilja í þessari umsögn sinni vekja athygli á ofangreindum og mjög mikilvægum samráðsskyldum stjórnvalda, vegna þess að þau telja hafið vafa yfir að við undirbúning og gerð þessara reglugerðardraga sem hér eru til umsagnar hafi félagsmálaráðuneytinu borið „að hafa náið samráð“ við fatlað fólk og samtök sem vinna að réttindamálum þess og að „tryggja virka þátttöku“ af þeirra hálfu.

Almennt samráð í samráðsgátt stjórnvalda, eins og hér er haft og þegar drög að regugerð liggja þegar fyrir uppfyllir engan veginn þau skilyrði, sbr. það sem fram kemur í þeim almennu athugsemdum (General Comment NO.7) nefndar samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem vísað er til hér að framan.

Með vísan til þess sem að framan er rakið skora Landssamtökin Þroskahjálp á félagsmálaráðuneytið að gæta betur að samráðsskyldum sínum við undirbúning og setningu stjórnvaldsfyrirmæla sem varða réttindi fatlaðs fólks og/eða eftirlit með framfylgd þeirra.

 

Landssamtökin Þroskahjálp telja mjög nauðsynlegt að stjórnvöld sem bera lögum samkvæmt ábyrgð á eftirliti með framfylgd réttinda fatlaðs fólks hafi þvingunarúrræði sem virka og aðrar fullnægjandi heimildir, s.s. til að fá gögn og upplýsingar hratt og í því formi sem þeim hentar, sem og heimildir til nauðsynlegs aðgangs að stöðum sem sem hafa þýðingu við eftirlitsstörf þeirra. Slík úrræði og heimildir eru algjör forsenda þess að þau geti staðið undir skyldum sínum til að hafa virkt eftirlit með þjónustu við fatlað fólk og réttindum þess þar sem mjög mikilsverð mannréttindi eru mjög oft í húfi og mjög oft er um berskjaldaða einstaklinga og/eða hópa fólks  að ræða sem vegna aðstæðna sinna og/eða fötlunar eiga enga möguleika til að standa sjálfir vörð um réttindi sín og hafa lítil eða engin raunhæf tækifæri til að leita sjálfir eftir aðstoð til þess. Samtökin fagna því og styðja þær fyrirætlanir um þvingunarúrræði fyrir GEF sem er að finna í þessum reglugerðardrögum. 

Í þessu sambandi vilja Landssamtökin Þroskahjálp einnig enn og aftur ítreka áskorun sína til féalgsmálaráðuneytisins að það láti, án frekari tafa, fara fram ítarlega og vandaða endurskoðun á lögum nr. 88/2011, um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, með síðari breytingum, m.a. með það að markmiði að greina sérstaklega hvernig megi styrkja lagalegar heimildir og úrræði réttindagæslunnar og réttindgæslumanna til að gera þeim betur kleift að sinna þeim mikilvægu störfum í þágu fatlaðs fólks sem þeim eru falin með lögunum. Ekki þarf að taka það fram að við endurskoðun laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk er bráðnauðsynlegt að félagsmálaráðuneytið og önnur hlutaðeigandi stjórnvöld gæti þess sérstaklega vel „að hafa náið samráð“ við fatlað fólk og samtök sem vinna að réttindamálum þess og geri það sem gera þarf til að „tryggja virka þátttöku“ af þeirra hálfu á öllum stigum þeirrar vinnu.

Þá vilja samtökin benda á að í að í þeim drögum að reglugerð um dagsektir Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála, sem hér eru til umsagnar, er hvergi minnst á mannréttindi. Í 3. gr. draganna þar sem kveðið er á um „sjónarmið við ákvörðun dagsekta og fjárhæðir“ er m.a. mælt fyrir um að við þær ákvarðanir skuli tekið mið af „hagsmunum sem í húfi eru.“ Landssamtökin Þroskahjálp telja að við þetta mat og ákvörðun dagsekta hljóti að eiga að hafa sérstakt vægi þegar í húfi eru mannréttindi, sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig sérstaklega til virða og framfylgja með fullgildingu alþjóðlegra mannréttindasamninga, s.s samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Samtökin leggja því mjög eindregið til að ákvæðum 3. gr. verði breytt til samræmis við það áður en reglugerðin verður sett.

 

Virðingarfyllst,

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 

Nálgast má reglugerðardrög sem umsögnin á við hér.