Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að frumvarpi til laga um lokað búsetuúrræði

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um  drög að frumvarpi til laga um lokað búsetuúrræði           

      29. janúar 2024

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk og fötluð börn. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum, sem og heimsmarkmiðum SÞ, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.

Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur og þá er í gangi af hálfu ríkisins sérstök landsáætlun um innleiðingu hans.

4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingarÞar segir:

     1.      Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi á grundvelli fötlunar.
        Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:
         a)          að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningi þessum,
         b)          að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin, ...

Af framangreindu leiðir að við undirbúning og meðferð lagsetningar þeirrar sem hér er til umfjölluna hvílir sú afar mikilvæga og skýra skylda á dómsmálaráðuneytinu og Alþingi ef frumvarpiðð verður lagt fram þar að taka sérstakt tillit til aðstæðna, þarfa og réttinda fatlaðs fólks almennt og fatlaðra barna sérstaklega, sem áréttuð eru í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem og skuldbindinga samkvæmt samningnum sem lúta sérstaklega að fötluðum hælisleitendnum, sbr. meðal annars 11. gr. samningsins, sem hefur yfirskriftina Aðstæður sem skapa hættu og neyðarástand sem kallar á mannúðaraðstoð.

Þá er augljóst að 5. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina Jafnrétti og bann við mismunun, hefur mikla þýðingu í þessu sambandi almennt og sérstaklega 3. mgr. greinarinnar um skyldu ríkja til að tryggja fötluðu fólki viðeigandi aðlögun. 5. gr. samningsins hljóðar svo:


     1.      Aðildarríkin viðurkenna að allar manneskjur eru jafnar fyrir og samkvæmt lögum og eiga rétt á jafnri vernd og jöfnum ávinningi af lögum án nokkurra mismununar.
     2.      Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og árangursríka réttarvernd gegn mismunun af hvaða ástæðu sem er. 
     3.      Aðildarríkin skulu, í því skyni að efla jafnrétti og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða. 
     4.      Eigi ber að líta á sértækar aðgerðir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram raunverulegu jafnrétti fyrir fatlað fólk, sem mismunun í skilningi samnings þessa. 
(Feitletr. Þroskahj.)

Þá er einnig augljóst, að mati samtakanna, að í 13. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina Aðgangur að réttinumog í 14. gr. sem hefur yfirskriftina Frelsi og öryggi einstaklingsins eru ákvæði, sem fella skyldur á íslenska ríkið, sem hafa mikla þýðingu í þessu sambandi.

 

Þá benda samtökin á að ekki þarf að hafa mörg orð um að frelsissvipting er mjög alvarlegt inngrip í afar mikilvæg mannréttindi og leiðir beint og óbeint til mikilla og margvíslegar skerðingar á mörgum öðrum mikilsverðum mannréttindum. Samtökin telja því nauðsynlegt að frumvarpið í heild og mörg ákvæði þess sérstaklega verði rýnd m.t.t. þessa, sem og meðalhófsreglunnar sem er meginregla íslensks réttar og mælir fyrir um að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti og þá skuli þess gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.

 

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Anna Lára Steindal, verkefnastjóri hjá Þroskahjálp

Katarzyna Kubiś, verkefnastjóri hjá Þroskahjálp

 

Nálgast má mál sem umsögnin á við hér.