Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að frumvarpi til laga um grunnskóla nr. 91/2008 og lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008, er varða fagráð eineltismála.

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni og fólk með þroskahömlun. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum. Um 20 félög eiga aðild að samtökunum með um 6 þúsund félagsmenn.

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa yfir ánægju með þau almennu áhersluatrið sem fram koma í frumvarpinu og lúta að því að auka vernd gegn einelti og skilvirkni fagráðs eineltismála, enda sýna kannanir og rannsóknir að fötluð börn og ungmenni séu líklegri til að verða fyrir einelti en önnur börn og ungmenni.

Landssamtökin beina þeim eindregnu tilmælum til stjórnvalda að tryggt verði að fagráð eineltismála verði í stakk búið til þess að taka sérstakt tillit til fatlaðra barna og unmenna, hvort heldur er sem mögulegir gerendur í einheltismálum eða þolendur í slíkum málum. M.a. með því að tryggja viðeigandi aðlögun og sjá til þess að til boði sé stuðningur sem tekur að fullu mið af fötlun og sérþörfum, t.d. að veita stuðning í viðtölum og/eða að upplýsingum sé miðlað á auðskildu máli.

Þá beinum við einnig þeim tilmælum til stjórnvalda að fagráð eineltismála setji sér verklagsreglur um hvaða persónupplýsinga teljist nauðsynlegt að afla í þeim málum sem varða fötluð börn og ungmenni og að eingöngu þeim upplýsingum sem hafa mikið og augljóst mikilvægi verði miðlað.

Í sambandi við frumvarp það sem hér er til umfjöllunar vekja Landssamtökin þroskahjálp sérstaka athygli á skyldum stjórnvalda samkvæmt eftirfarandi greinum í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

4. gr.
Almennar skuldbindingar.

     1.      Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og mannfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar. 
    Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til: 
          a)      að samþykkja öll viðeigandi lagaákvæði og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til þess að þau réttindi sem eru viðurkennd með samningi þessum verði að veruleika, 
          b)      að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar með talið á sviði lagasetningar, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin, 
          c)      að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanagerð, … 

7. gr.
Fötluð börn.

     1.      Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að fötluð börn fái notið mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við önnur börn. 
     2.      Í öllum aðgerðum, sem snerta fötluð börn, skal fyrst og fremst hafa það að leiðarljósi sem er viðkomandi barni fyrir bestu. 
     3.      Aðildarríkin skulu tryggja fötluðum börnum rétt til þess að láta skoðanir sínar óhindrað í ljós um öll mál er þau varða, jafnframt því að sjónarmiðum þeirra sé gefinn gaumur eins og eðlilegt má telja miðað við aldur þeirra og þroska og til jafns við önnur börn og veita þeim aðstoð þar sem tekið er eðlilegt tillit til fötlunar þeirra og aldurs til þess að sá réttur megi verða að veruleika

16. gr.
Frelsi frá misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum.

     1.      Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félags- og menntamála og aðrar ráðstafanir í því skyni að vernda fatlað fólk, jafnt innan heimilis sem utan, fyrir hvers kyns misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum, einnig með hliðsjón af kynbundnum þáttum slíkra athafna. 
     2.      Aðildarríkin skulu einnig gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar í hvaða mynd sem er, einnig með því að tryggja fötluðu fólki og fjölskyldum þess, ásamt þeim sem annast það, viðeigandi aðstoð og stuðning, sem tekur mið af kyni og aldri, meðal annars með því að veita upplýsingar og fræðslu um hvernig beri að forðast, átta sig á og tilkynna um misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar. Aðildarríkin skulu tryggja að sú þjónusta sem veitir vernd taki mið af kyni, aldri og fötlun. 
     3.      Í því skyni að koma í veg fyrir misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar í hvaða mynd sem er skulu aðildarríkin tryggja að óháð yfirvöld hafi virkt eftirlit með allri aðstöðu og áætlunum sem er ætlað að þjóna fötluðu fólki. 
     4.      Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að stuðla að líkamlegum, vitsmunalegum og sálrænum bata, endurhæfingu og félagslegri enduraðlögun fatlaðs fólks, sem verður þolendur misnotkunar í gróðaskyni, ofbeldis eða misþyrminga í ein­hverri mynd, meðal annars með því að bjóða fram þjónustu sem veitir vernd. Slíkur bati og enduraðlögun skulu fara fram í umhverfi sem stuðlar að bættri heilsu, velferð, sjálfsvirðingu, reisn og sjálfræði viðkomandi einstaklings, þar sem tillit er tekið til sérþarfa hans miðað við kyn og aldur. 
     5.      Aðildarríkin skulu taka upp skilvirka löggjöf og stefnu, einnig löggjöf og stefnu þar sem sérstakt tillit er tekið til kvenna og barna, til þess að tryggt sé að unnt sé að staðreyna og rannsaka misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar sem beinast gegn fötluðu fólki og ákæra vegna slíkrar háttsemi ef það á við. 

Samtökin lýsa yfir áhuga á því að eiga fund með ráðuneytinu til að gera frekari grein fyrir afstöðu sinni og áherslum og vísa í því sambandi til 3. tl. 4. gr. samnings SÞ þar sem segir:

Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd. 

 

Virðingarfyllst,

Anna Lára Steindal, verkefnisstjóri í málefnum barna, ungmenna og fólks af erlendum uppruna.

Nálgast má mál sem umsögnin á við hér