Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um vinnumarkaðsaðgerðir (stytting bótatímabils o.fl.)
28. október 2025
Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk og fötluð börn og ungmenni. Samtökin byggja stefnu sína og starfsemi á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að framfylgja, sem og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.
Landssamtökin Þroskahjálp benda á að atvinnuleysisbætur eru mjög nauðsynlegar fyrir þau, sem verða fyrir því að missa vinnuna og fjölskyldur þeirra. Rannsóknir sýna svo ekki verður um villst að atvinnuleysi reynir mjög á þau sem í þeirri aðstöðu eru og hefur mjög oft mikil og skaðleg áhrif á heilsu þeirra og lífsgæði. Til að vega á móti þeim skaðlegu áhrifum er félagsleg virkni og þátttaka í samfélaginu afar mikilvæg. Kvíði vegna fjárhags og framfærslu dregur úr getu fólks til virkni og fégslegrar þáttöku.
Samtökin telja verulega hættu á að sú skerðing á rétti til atvinnuleysisbóta, sem lögð er til í frumvarpinu, geti aukið þau skaðlegu áhrif, sem atvinnuleysi hefur á andlega og líkamlega heilsu þeirra sem í þeirri aðstöðu lenda og þar með einnig dregið úr líkum á að þau komist sem fyrst aftur út á vinnumarkaðinn og lendi síður í örorku.
Með vísan til framangreinds eru samtökin á móti því að hámarkslengd tímabils, sem atvinnuleysistryggingar eru greiddar verði stytt úr 30 mánuðum í 18 mánuði og að skilyrði fyrir ávinnslu atvinnuleysistrygginga verði lengt úr þrem mánuðum í tólf mánuði.
Þá vilja samtökin leggja sérstaka áherslu á mikilvægi þess að tryggja að einstaklingar, sem hafa verið virkir á almennum vinnumarkaði og hafa verið í atvinnuleit án árangurs, fái einstaklingsmiðaða aðstoð Vinnumálastofnunar við að finna störf við hæfi. Takist það ekki þarf að tryggja að þeir sem eru með skilgreinda fötlun, sem og þeir sem hafa ekki fengið greiningar varðandi það, falli alls ekki á milli kerfa. Þetta er sérstaklega mikilvægt í ljósi skorts á aðgengi að greiningum fyrir fullorðið fólk. Vinnumálastofnun þarf því að hafa mjög skýra verkferla um í hvaða úrræði fólki verður vísað þegar bótarétti líkur. Það hefur mjög alvarlegar afleiðingar fyrir andlega og líkamlegu heilsu fólks og lífsgæði þess og aðstandenda þess að setja það í þá aðstöðu að vera án framfærslu og í óvissu um stöðu sína hvað það varðar.
Virðingarfyllst.
Guðmundur Ármann Pétursson, formaður Þroskahjálpar
Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar
Málið sem umsögnin fjallar um má finna hér