Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að frumvarpi til laga um aðgengi að vefsetrum og smáforritum opinberra aðila

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að frumvarpi til laga um aðgengi að vefsetrum og smáforritum opinberra aðila

23. október 2025

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk og fötluð börn og ungmenni. Samtökin byggja stefnu sína og starfsemi á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að framfylgja, sem og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.

Landssamtökin Þroskahjálp fagna þeim frumvarpsdrögum sem hér eru til umsagnar en samtökin vilja nota þetta tækifæri til að minna fjármála- og efnahagsráðuneytið á skyldur þess samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks sem íslenska ríkið fullgilti árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í samningnum eru mörg ákvæði sem hafa verulega þýðingu m.t.t. þeirra mála sem hér eru til umfjöllunar. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur, stjórnarfrumvarp um lögfestingu samningsins var til meðferðar á síðasta þingi og er það einnig á  yfirstandandi þingi og þá er í gangi af hálfu ríkisins landsáætlun um innleiðingu samningsins.

Auk innleiðingar á þeirri EES-gerð sem nefnd er í frumvarpinu, óska samtökin eftir upplýsingum um hvort og hvernig nýleg tilskipun Evrópusambandsins, EAA (European Accessibility Act), sem tók gildi í júní 2025, komi til framkvæmdar á Íslandi.

Landssamtökin Þroskahjálp árétta enn og aftur eftirfarandi, sem fjármála- og efnahagsráðuneytið og önnur hlutaðeigandi stjórnvöld hafa hingað til alls ekki brugðist við með viðeigandi og fullnægjandi hætti, í ljósi þeirra mikilsverðu mannréttinda og hagsmuna sem eru í húfi fyrir fatlað fólk.

Mjög alvarlegur skortur er á heildrænni stefnumótun og regluverki, sem tryggir hindrunarlausa stafræna þátttöku fatlaðs fólks. Stjórnvöldum ber að tryggja aðgang alls fólks í samfélaginu að upplýsingum og þjónustu sem og tæknilegt öryggi. Í því sambandi er augljóslega afar mikilvægt að stjórnvöld móti stefnu og regluverk og beini því til einkaaðila sem sjá um hönnun, útfærslu og framkvæmd stafrænna lausna að taka mið að því að tryggja aðgengi fyrir alla. 

Auk þess að hindra aðgengi að þjónustu og upplýsingum hefur skortur á heildrænni stefnumótun og regluverki í för með sér mjög aukna hættu á jaðarsetningu og einangrun fatlaðs fólks. Stór hluti fatlaðs fólks fær ekki rafræn skilríki og getur þar af leiðandi ekki nýtt sér ýmsa mikilvæga opinbera þjónustu, sem almenningur hefur aðgang að. Sama á við um margs konar þjónustu sem veitt er af einkaaðilum, þar sem rafræn skilríki eru einnig hliðið að alls kyns tækifærum, þjónustu, menntun og afþreyingu, sem fatlað fólk á að hafa frjálsan og fullan aðgang að, til jafns við annað fólk í samfélaginu. Hér er um mjög mikla og ólöglega mismunun á grundvelli fötlunar að ræða og alvarlegt brot á mannréttindum, sem eru vernduð samkvæmt fjölþjóðlegum samningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist og áréttuð eru sérstaklega í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

Þessi mismunun og mannréttindabrot hafa viðgengist allt of lengi í íslensku samfélagi og íslenska ríkið hefur alvarlega brugðist þeim skyldum sínum að gera viðeigandi og fullnægjandi ráðstafanir vegna þessa.

Í 3. lið greinargerðar í frumvarpsdrögunum segir m.a.:

Nánari útfærsla á tæknilegum kröfum, afmörkun á undanþágum og framkvæmd eftirlits er hins vegar falin ráðherra.

Og í 6. lið greinargerðarinnar segir m.a. varðandi viðbótarkostnað:

... varanlegur árlegur rekstrarkostnaður vegna nýs eftirlits, áætlaður á bilinu 10–23 m.kr., ...

Landssamtökin Þroskahjálp óska eftir nánari upplýsingum um með hvaða hætti ráðherra mun framkvæma ofannefnt eftirlit og hvort og hvernig réttindi og hagsmunir fatlaðs fólks verði tryggðir.

Til að tryggja að kröfum um stafrænt aðgengi verði framfylgt verður ríkisstjórnin m.a. að ákveða og upplýsa um hvaða aðili innan stjórnsýslunnar skuli vera ábyrgur fyrir innleiðingu þess. Til þessa liggur ekki fyrir hver ber þá ábyrgð.

Landssamtökin Þroskahjálp krefjast þess jafnframt að fá sæti við borðið í nánara samráði við stjórnvöld varðandi umrædd mál, ásamt öðrum hagsmunasamtökum fatlaðs fólks, með það að markmiði að tryggja fullt aðgengi fatlaðs fólks að tæknilausnum og upplýsingum og vísa í því sambandi til 3. mgr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, þar sem segir:

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

Að gefnu tilefni vilja Landssamtökin Þroskahjálp benda fjámála- og efnahagsráðuneytinu á, að kynning áforma um setningu laga og kynning draga að lagafrumvarpi í samráðsgátt, er alls ekki „náið samráð“ og „virk þátttaka“ í skilningi 3. mgr. 4. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Í sjöundu almennu athugasemdunum (e. General Comment), sem nefnd samkvæmt samningnum sendi frá sér í september 2018 fjallar hún um samráðsákvæði samningsins (sjá hlekk að neðan).

https://docs.un.org/en/CRPD/C/GC/7

 

Virðingarfyllst.

Guðmundur Ármann Pétursson, formaður Þroskahjálpar

Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 

Málið sem umsögnin fjallar um má finna hér.