Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að aðgerðaáætlun vegna stefnu um tómstunda- og félagsstarf barna og ungmenna.

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni og fólk með þroskahömlun. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum. Um 20 félög eiga aðild að samtökunum með um 6 þúsund félagsmenn.

Augljóst er að aðgerðaráætlun í félags- og tómstundastarf barna og ungmenna varðar mikilvæga hagsmuni og réttindi fatlaðra barna og ungmenna til þátttöku í samfélagi, í gegnum tómstundastarf, án aðgreiningar og á jafnréttisgrundvelli.

Ungmennaráð Þroskahjálpar, sem skipað er einstaklingum með þroskahömlun og/eða aðrar skerðingar á aldrinum 16-24 ára, hefur skilgreint aukið aðgengi að félags- og tómstundastarfi sem forgangsverkefni. Í málefnavinnu ráðsins í janúar 2020 kom fram eindreginn stuðningur við að ráðið beitti sér fyrir því að hvetja til þess að tækifæri og aðgengi að félagslífi, tómstundum og íþróttum yrði aukið. Réttur fatlaðs fólks, þar á meðal barna og ungmenna, til þátttöku í samfélagi til jafns við aðra er áréttaður og varinn í samningi Semeinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Ísland fullgilti árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að fylgja. Í 30. grein samningsins er fjallað sérstaklega um þátttöku í menningarlífi, tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi og áréttuð skylda stjórnvalda til þess að tryggja fötluðum börnum, til jafns við önnur börn, aðgang að leikjum og tómstunda- og frístunda- og íþróttastarfi, meðal annars innan skólakerfisins.[1]

Fötluð börn njóta allra þeirra réttinda sem mælt er fyrir um í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem hefur verið tekinn í íslensk lög og í 23. gr. samningsins eru réttindi fatlaðra barna sérstaklega áréttuð.

Í umsögn um drög að stefnu um félags- og tómstundastarf bentu Landssamtökin Þroskahjálp á mikilvægi þess að gefa samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks vægi í stefnumótuninni. Það er jafnvel enn mikilvægara við mótun aðgerðaráætlunar til innleiðingar stefnunni. Það eru því samtökunum vonbrigði að í þeim drögum sem hér eru til umsagnar  skuli ekki vera skýrar að orði kveðið um jafnan rétt fatlaðra barna og ungmenna, þá staðreynd að oft njóta þau ekki þeirra réttinda sinna í reynd og mikilvægi þess að gæta sérstaklega að réttidnum þeirra og hagsmunum í öllum aðgerðum sem settar eru fram í áætluninni. Eina aðgerðin sem vísar óbeint til fatlaðra barna er undir markmiði 3.5. sem kveður á um að öll börn og ungmenni hafi aðgang að og jöfn tækifæri til þátttöku. Þar er félagsmálaráðuneytinu falið að fylgjast með þátttöku barna og ungmenna í skipulögðu starfi og gert að fylgjast sérstaklega með þeim hópi sem tekur síður þátt og greina ástæðuna.

Þær hindranir sem fötluð börn og ungmenni standa frammi fyrir þegar kemur að þátttöku í félags- og tómstundastarfi haldast í hendur við skort á stuðningi og viðeigandi aðlögun. Það liggur fyrir og afar mikilvægt er að aðgerðaráætlunin fjalli beint og opinskátt um ójafnræðið sem því fylgir.

Með vísan til framangreinds vilja Landssamtökin Þroskahjálp koma eftirfarandi á framfæri:

Ekki má gera ráð fyrir því að tækifærum fatlaðra barna og ungmenna til þátttöku í tómstunda- og félagsstarfi fjölgi sjálfkrafa ef ráðist er í almennar aðgerðir. Reynslan sýnir að til þess að fjölga tækifærum þeirra þarf sértækar aðgerðir sem miða að því að auka skilning á aðstæðum fatlaðra barna, þörfum þeirra og réttindum sem birtast í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Í ljósi þess sem að ofan greinir er mikilvægt að bæta inn í allar aðgerðir sem miða að þjálfun starfsfólks, leiðbeinenda og þjálfara fræðslu og þjálfun í að vinna með fötluðum börnum og ungmennum með ólíkar stuðningsþarfir og fræðslu um þau réttindi sem fötluðum börnum eru tryggð í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi faltaðs fólks, öðrum mannréttindasamningum og íslenskum lögum og stefnumótun.

Í áætluninni er að finna markmið um að búnir verði til sérstakir gæðavísar, annars vegar fagleg gæðaviðmið fyrir rekstur aðila sem standa að tómstunda- og félagsstarfi fyrir börn og ungmenni og hins vegar gæðaviðmið fyrir rekstur og stjórnun félagasamtakanna. Mikilvægt er að báðir þessir gæðavísar taki mið af fjölbreytileika og ólíkum þörfum barna. Landssamtökin Þroskahjálp lýsa yfir áhuga á samstarfi um útfærslu þeirra með aðstæður, þarfir og réttindi fatlaðra barna og ungmenna í huga.

Þá er mikilvægt í rannsóknar- og þróunarverkefnum, sem fjallað er um í 5. markmiði áætlunarinnar, að huga sérstaklega að þörfum, hagsmunum og réttindum fatlaðra barna og ungmenna. Til dæmis með því að greina sérstaklega þátttöku þeirra í tómstunda- og félagsstarfi, tækifæri og hindranir. Einnig að safnað verði tölfræðigögnum um almenna þátttöku þeirra í tómstunda- og félagsstarfi sem og þátttöku í sérúrræðum sem eingöngu eru ætluð fötluðum börnum og/eða ungmennum.

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa yfir miklum áhuga og vilja til taka þátt í nánari útfærslu áætlunarinnar með tilliti til þeirra ábendinga sem hér hafa verið settar fram og vísa í því sambandi til samráðsskyldna stjórnvalda samkvæmt 3. mgr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs ólks sem hljóðar svo:

“Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.”

 

Virðingarfyllst,

Anna Lára Steindal, verkefnisstjóri í málefnum barna og ungmenna hjá Landssamtökunum Þroskahjálp.

Nálgast má mál sem umsögnin á við hér

[1] 30. gr.

Þátttaka í menningarlífi, tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi.

     1.      Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til þess að taka þátt í menningarlífi til jafns við aðra og skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk:

         a)          njóti aðgengis að menningarefni í aðgengilegu formi,

         b)          njóti aðgengis að sjónvarpsefni, kvikmyndum, leikhúsi og öðrum menningarviðburðum í aðgengilegu formi,

         c)          njóti aðgengis að stöðum þar sem flutningur menningarefnis eða þjónusta á sviði menningar fer fram, t.d. leikhúsum, söfnum, kvikmyndahúsum, bókasöfnum og ferðaþjónustu og njóti, eftir því sem við verður komið, aðgengis að minnisvörðum og stöðum sem hafa þjóðmenningarlegt gildi.

     2.      Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólk fái tækifæri til að þróa og nota sköpunargáfu sína og listræna og vitsmunalega getu, ekki einvörðungu í eigin þágu, heldur einnig í því skyni að auðga samfélagið.

     3.      Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir, í samræmi við alþjóðalög, til þess að tryggja að lög, sem vernda hugverkarétt, feli ekki í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki eða óréttmætar hindranir við aðgang þess að menningarefni.

     4.      Fatlað fólk skal eiga rétt, til jafns við aðra, á viðurkenningu og stuðningi við sérstaka menningar- og tungumálssjálfsmynd sína, þar á meðal táknmál og menningu heyrnarlauss og heyrnarskerts fólks.

     5.      Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir, í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að taka til jafns við aðra þátt í tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi, til þess að:

         a)          hvetja til og efla þátttöku fatlaðs fólks, eins og frekast er unnt, í almennu íþróttastarfi á öllum stigum,

         b)          tryggja fötluðu fólki tækifæri til þess að skipuleggja, þróa og taka þátt í íþrótta- og tómstundastarfi fyrir fatlað fólk og stuðla í því skyni að framboði á viðeigandi leiðsögn, þjálfun og úrræðum til jafns við aðra,

         c)          tryggja fötluðu fólki aðgang að stöðum þar sem íþrótta- og tómstundastarf fer fram og að ferðamannastöðum,

         d)          tryggja fötluðum börnum jafnt aðgengi á við önnur börn til þátttöku í leikjum, tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi, þar á meðal innan skólakerfisins,

         e)          tryggja fötluðu fólki aðgang að þjónustu þeirra sem annast skipulagningu tómstundastarfs, ferðamennsku. frístunda- og íþróttastarfs.