Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um breytingu á ýmsum lögum í þágu barna (samþætting þjónustu, snemmtækur stuðningur o.fl.)

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um breytingu á ýmsum lögum í þágu barna (samþætting þjónustu, snemmtækur stuðningur o.fl.)

        10. mars 2023

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni og fólk með þroskahömlun. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist, sem og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur og þá er nýlega hafin af hálfu ríkisins framkvæmd sérstakrar landsáætlunar um innleiðingu hans.

Meginmarkmið samningsins er að tryggja fötluðu fólki raunhæf tækifæri til virkrar þátttöku á öllum sviðum samfélagsins til jafns við aðra og án aðgreiningar. Í samningnum er lögð sérstök áhersla á skyldur ríkja til að tryggja fötluðum börnum og ungmennum sömu réttindi og tækifæri og önnur börn hafa og nægilegan stuðning og vernd til að það geti orðið að veruleika.

Landssamtökin Þroskahjálp leggja því mikla áherslu á að frumvarpið verði sérstaklega skoðað og rýnt m.t.t. þess að í því verði tekið fullt tillit til aðstæðna, þarfa og réttinda fatlaðra barna og ungmenna almennt og sérstaklega barna og ungmenna með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverfra barna og ungmenna. Það er mjög afdráttarlaus og mikilvæg skylda íslenska ríkisins að gæta þessa við lagasetningu af þessu tagi. Sú skylda er sérstaklega áréttuð í 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingarÞar segir m.a.:

     1.      Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi á grundvelli fötlunar.
        Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:
         a)          að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningi þessum,
         b)          að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin, …

Í samningnum eru ýmis ákvæði sem geta augljóslega haft mikla þýðingu í sambandi við það mál sem hér er til umsagnar.

 

 

 

7. gr. samningsins hefur yfirskriftina Fötluð börn og hljóðar svo:

     1.      Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að fötluð börn fái notið allra mannréttinda og grundvallarfrelsis til fulls og jafns við önnur börn. 
     2.      Í öllum aðgerðum, sem snerta fötluð börn, skal fyrst og fremst hafa það að leiðarljósi sem er viðkomandi barni fyrir bestu. 
     3.      Aðildarríkin skulu tryggja fötluðum börnum rétt til þess að láta skoðanir sínar óhindrað í ljós um öll málefni er þau varða, jafnframt því að sjónarmiðum þeirra sé gefið tilhlýðilegt vægi í samræmi við aldur þeirra og þroska og til jafns við önnur börn og veita þeim aðstoð þar sem tekið er viðeigandi tillit til fötlunar þeirra og aldurs til þess að sá réttur megi verða að veruleika.

Þá eru einnig ýmis ákvæði sem sérstaklega þarf að líta til í 24. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina Menntun og í 30. gr. sem hefur yfirskriftina Þátttaka í menningarlífi, tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi.

Samtökin fagna því að það sé lögð áhersla á snemmtækan stuðning og samþættingu á þjónustu á öllum skólastigum sem er liður í að styrkja umgjörð um þjónustu í þágu barna og stuðla að því að öll börn og foreldrar sem þurfa á að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi, án hindrana.  Mikilvægt er að það sé verið að huga að nemendum í framhaldsskóla því að það er allur gangur á því hvaða stuðningsúrræði og aðstoð nemendur fá á framhaldsskólastigi.

 

Samtökin gera athugasemdir við það að í frumvarpinu skuli aðeins vera fjallað um nemendur upp að 18 ára aldri. Fötluð ungmenni þurfa klárlega samþætta þjónustu eftir 18 ára aldur og úrræðin þar eru af skornum skammti.

 

Samtökin telja mjög jákvæð ákvæði í b-lið 28. gr. frumvarpsins um að upplýsa skuli tengilið eða málstjóra um niðurstöður athugana ef þjónusta er samþætt á grundvelli laga um samþættingu þjónustu í þágu barna og að tekið skuli mið af niðurstöðum athugana við gerð stuðningsáætlana. Ef vel er að þessu staðið er þetta mjög til þess fallið að leiða til þess að aðstandendur þurfi ekki ítrekað að upplýsa fagaðila um niðurstöður athugana með því að leggja þá skyldu á tengiliði og málastjóra að veita foreldrum og börnum leiðsögn um þjónustu sem er í boði og aðstoð við að fá aðgang að tiltekinni þjónustu.

 

 

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Anna Lára Steindal, verkefnastjóri í málefnum fatlaðra barna og ungmenna

 

Nálgast má mál sem umsögnin á við hér.