Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um áform um breytingar á lögum um útlendinga

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um áform um breytingar á lögum um útlendinga

   10. október 2023

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undigengist, sem og á heimsmarkmiðum SÞ, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.

Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur og þá er í gangi af hálfu ríkisins framkvæmd sérstakrar landsáætlunar um innleiðingu hans.

Í samningnum eru ýmis ákvæði sem hafa verulega þýðingu m.t.t. þess máls sem hér er til umfjölluna

Með vísan til framangreinds vilja samtökin árétta sérstaklega skyldur sem hvíla á íslenska ríkinu samkvæmt samningnum og íslenskum lögum og rétti, þ.m.t. stjórnsýslurétti, til að líta sérstaklega til aðstæðna, þarfa og réttinda fatlaðra hælisleitenda og flóttafólks.

Samtökin benda í því sambandi m.a. sérstaklega á að þegar um er að ræða það sem stundum er kallað „ósýnilega“ fötlun, þ.e. þroskahömlun, einhverfu eða geðrænar áskoranir er sérstök hætta á að fólk fari á mis við þau réttindi og vernd sem það á njóta vegna fötlunarinnar og þess að ekki er tryggt að hlutaðeigandi stjórnvöld taki nægilegt og viðeigandi tillit til hennar við meðferð og afgreiðslu mála. Á íslenska ríkinu hvílir skýlaus skylda til að haga verklagi við meðferð og mat umsókna um alþjóðlega vernd og/eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum þannig að tryggt verði, eins og nokkur kostur er, að fatlað fólk fari ekki af þessum ástæðum á mis við þá viðeigandi aðlögun, réttindi og vernd sem ríkinu ber að tryggja því.

Þá vilja samtökin sérstaklega benda á eftirfarandi: 

  • Staða fatlaðs fólks í aðstæðum sem fólk flýr úr eru sérstaklega  erfiðar – Sérstaklega vegna fötlunar þess og alls kyns hindrana sem það mætir.
  • Fatlað fólk kemst síður en annað fólk burtu úr slíkum aðstæðum.
  • Fatlað fólk kemst styttri vegalengdir, ef það á annað borð getur flúið.
  • Fatlað fólk er oft skilið eftir í hörmulegum aðstæðum þegar aðrir flýja.
  • Fatlað fólk er þannig líklegt til að festast í mjög erfiðum aðstæðum um langan tíma.
  • Fatlað fólk er líklegt til að upplifa mjög mikla streitu og erfiðleika á flóttanum.
  • Erfiðleikar sem fólk á flótta almennt mætir verða oft óyfirstíganlegir þegar fatlað fólk á í hlut – Vegna fötlunar þess.

 

Samtökin telja augljóst að það væri óforsvaranlegt m.t.t. þarfa og réttinda fatlaðra umsækjenda um hæli, þ.m.t. umsækjenda með „ósýnilega“ fötlun ef hætt verður að veita talsmannaþjónustu á fyrsta stigi umsóknar. Það myndi mjög líklega hafa það í för með sér að að við meðferð og afgreiðslu umsókna verði tekið enn minna tillit til fötlunar fólks en nú er og er núveradni staða þó engan vegin ásættanleg hvað þetta varðar. Starfsfólk útlendingastofnunar hefur mjög litla þekkingu á aðstæðum, þörfum og réttindum fatlaðs fólks og stofnunin hefur, að mati samtakanna, mjög lítið gert til að bæta úr því.

Þá telja samtökin að fyrirhugaðar breytingar hvað varðar leyfi af mannúðarástæðum séu mjög mikil afturför m.t.t. mannréttinda og mannúðar sem hljóta að eiga að vera leiðarljós í þessum málaflokki.  Samtökin geta alls ekki tekið undir að fyrirhugaðar lagabreytingar séu nauðsynlegar til þess að samræma regluverkið því sem gerist og gengur í Evrópu og benda í því sambandi á að það getur aldrei verið réttlæting fyrir íslenska ríkið fyrri því að skerða mannréttindi mjög jaðarsetts og berskjaldaðas fólks að önnur ríki hafi gert það.

Með vísan til þess sem að framan er rakið telja samtökin að þær áformuðu breytingar á lögum um útlendinga, sem hér eru til umsagnar, muni gera meðferð og afgreiðslu mála fatlaðra umsækjenda enn óvandaðari og tilviljunarkenndari en nú er og minnka mjög líkur á að þeir fái réttláta málsmeðferð og þann stuðning og vernd sem þeir eiga rétt á.

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa miklum áhuga og vilja til samráðs við dómsmálaráðuneytið um það sem fjallað er um í þessari umsögn og vísa í því sambandi til eftirfarandi ákvæðis 3. mgr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs  fólks.

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

 

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Katarzyna Kubiś, verkefnastjóri hjá Þroskahjálp

Anna Lára Steindal verkefnastjóri hjá Þroskahjálp

 

Nálgast má mál sem umsögnin á við hér