Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um áform um atvinnustefnu Íslands til 2035.
26. ágúst 2025
Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk og fötluð börn og ungmenni. Samtökin byggja stefnu sína og starfsemi á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að framfylgja, sem og á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.
Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur, stjórnarfrumvarp um lögfestingu samningsins var til meðferðar á Alþingi og þá er í gangi af hálfu ríkisins sérstök landsáætlun um innleiðingu hans.
Í samningnum er ýmis ákvæði sem hafa mikla þýðingu m.t.t. þess máls sem hér er til umsagnar.
4. gr. samningsins hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar. Þar segir:
1. Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi á grundvelli fötlunar.
Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:
a) að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningi þessum,
b) að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin,
c) að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanagerð, ...
5. gr. samningsins hefur yfirskriftina Jafnrétti og bann við mismunun og hljóðar svo:
1. Aðildarríkin viðurkenna að allar manneskjur eru jafnar fyrir og samkvæmt lögum og eiga rétt á jafnri vernd og jöfnum ávinningi af lögum án nokkurra mismununar.
2. Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og árangursríka réttarvernd gegn mismunun af hvaða ástæðu sem er.
3. Aðildarríkin skulu, í því skyni að efla jafnrétti og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða.
4. Eigi ber að líta á sértækar aðgerðir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram raunverulegu jafnrétti fyrir fatlað fólk, sem mismunun í skilningi samnings þessa.
Viðeigandi aðlögun er skilgreind svo í 2. gr. samningsins: „Viðeigandi aðlögun“ merkir nauðsynlegar og viðeigandi breytingar og lagfæringar, sem eru ekki umfram það sem eðlilegt má teljast eða of íþyngjandi, þar sem þeirra er þörf í sérstöku tilviki, til þess að tryggt sé að fatlað fólk fái notið eða geti nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og grundvallarfrelsi.
27. gr.samningsins hefur yfirskriftina Vinna og starf og er svohljóðandi:
1. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks, til jafns við aðra, til vinnu; í því felst réttur til að fá tækifæri til að afla sér lífsviðurværis með vinnu að eigin vali eða samþykki á vinnumarkaði og í vinnuumhverfi sem fötluðu fólki stendur opið, er án aðgreiningar og er því aðgengilegt. Aðildarríkin skulu tryggja og stuðla að því að rétturinn til vinnu verði að veruleika, einnig fyrir þau sem verða fötluð meðan þau gegna starfi, með því að gera viðeigandi ráðstafanir, þ.m.t. með lagasetningu, til þess meðal annars:
a) að leggja bann við mismunun á grundvelli fötlunar að því er varðar öll málefni sem tengjast atvinnu af hvaða tagi sem er, meðal annars nýliðunar-, ráðningar- og starfsskilyrði, starfsöryggi, starfsframa og öryggi og hollustuhætti á vinnustað,
b) að vernda rétt fatlaðs fólks, til jafns við rétt annars fólks, til sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða, þar á meðal jafnra tækifæra og sama endurgjalds fyrir jafnverðmæt störf, öryggis og hollustu á vinnustað, þar á meðal verndar gegn áreitni, og úrbóta vegna misréttis sem það telur sig hafa orðið fyrir,
c) að tryggja að fatlað fólk geti nýtt réttindi sín sem meðlimir stéttarfélaga til jafns við aðra,
d) að gera fötluðu fólki kleift að hafa árangursríkan aðgang að almennri tækni- og starfsráðgjöf, atvinnumiðlun og starfs- og símenntun,
e) að efla atvinnutækifæri og þróun starfsframa fyrir fatlað fólk á vinnumarkaði, ásamt því að auka aðstoð við að finna, öðlast og halda starfi og snúa aftur á vinnumarkað,
f) að fjölga tækifærum til að starfa sjálfstætt, stunda frumkvöðlastarfsemi, þróa samvinnufélög og stofna eigin fyrirtæki,
g) að ráða fatlað fólk til starfa innan opinbera geirans,
h) að stuðla að því að fatlað fólk verði ráðið til starfa innan einkageirans með viðeigandi stefnu og ráðstöfunum sem geta falist í áætlunum um sértækar aðgerðir, hvatningu og öðrum aðgerðum,
i) að tryggja að fatlað fólk fái viðeigandi aðlögun á vinnustað,
j) að efla möguleika fatlaðs fólks til að afla sér starfsreynslu á almennum vinnumarkaði,
k) að efla starfstengda og faglega endurhæfingu fatlaðs fólks, að það geti haldið störfum sínum og áætlanir um að það geti snúið aftur til starfa.
2. Aðildarríkin skulu tryggja að fötluðu fólki sé ekki haldið í þrældómi eða ánauð og að því sé veitt vernd, til jafns við aðra, gegn þvingunar- eða nauðungarvinnu.
Í almennum athugasemdum (e. General Comment) nefndar samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks varðandi ákvæði 27. gr. samningsins er að finna mjög mikilvægar og gagnlegar skýringar og leiðbeiningar varðandi túlkun og framfylgd ákvæðanna. Almennu athugasemdir nefndarinnar varðandi 27. gr. samningsins má nálgast á heimasíðu nefndarinnar á hlekkjum að neðan.
https://www.ohchr.org/en/documents/general-comments-and-recommendations/crpdcgc8-general-comment-no-8-2022-right-persons
https://docs.un.org/en/CRPD/C/GC/8
28. gr. samningsins hefur yfirskriftina Viðunandi lífskjör og félagsleg vernd. Þar segir m.a.:
1. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þess til viðunandi lífskjara, þar á meðal viðunandi fæðis, klæða og húsnæðis, og til sífellt batnandi lífsskilyrða og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika án mismununar á grundvelli fötlunar. ...
Landssamtökin Þroskahjálp fagna áformum um atvinnustefnu Íslands til 2035. Fram kemur þar að áhersla sé á fjölgun vel launaðra starfa, aukna verðmætasköpun og jafnvægi milli samfélags, umhverfis og innviða.
Hins vegar er ljóst að til að stefnan nái tilgangi sínum þarf hún að tryggja með viðeigandi ákvæðum, aðgerðum og ráðstöfunum að fatlað fólk njóti ávinnings af henni til jafns við aðra og án aðgreiningar. Atvinnuþátttaka fatlaðs fólks er þó ekki aðeins stefnumál stjórnvalda heldur samfélagslegt verkefni sem krefst samstarfs ríki, sveitarfélaga, atvinnulífs og samfélagsins alls.
Samtökin vilja vekja sérstaka athygli á landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024-2027 en þar kemur fram í aðgerð D.11 að markvisst verði leitað leiða til að fjölga störfum fyrir fatlað fólk hjá ríki og sveitarfélögum, sem og á almennum vinnumarkaði og að áhersla verði lögð á fjölbreytni starfa, sveigjanleg störf og hlutastörf, sem og tækifæri til starfsþróunar. Einnig kemur þar fram að sett verði mælanleg og tímasett markmið.
Landssamtökin Þroskahjálp leggja mjög mikla áherslu á að þess verði sérstaklega vel gætt við undirbúning, gerð, setningu og framkvæmd þeirrar stefnu, sem hér er til umfjöllunar, að taka fullt tillit til ákvæða samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, eins og íslenska ríkinu er skylt að gera, sbr. ákvæði 4. gr. sem vísað er til að framan og lýsa samtökin miklum vilja til virks og náins samráðs við forsætisráðuneytið við það mikilvæga verkefni. Samtökin vísa í því sambandi til 3. mgr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hljóðar svo:
Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.
Virðingarfyllst.
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar
Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar
Málið sem umsögnin fjallar um má finna hér.