Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar og Geðhjálpar um áform um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum nr. 19/1940 (öryggisráðstafanir)

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar og Geðhjálpar um áform um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum nr. 19/1940 (öryggisráðstafanir)

              21. ágúst 2025

Ekki þarf að hafa mörg orð um að frelsissvipting felur í sér mikið og alvarlegt inngrip gagnvart afar mikilsverðum mannréttindum og leiðir óhjákvæmilega til mikilla og margvíslegra skerðinga á ýmsum stjórnmálalegum, borgaralegum, efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum mannréttindum. Það er því afar rík og skýr skylda á íslenska ríkinu að gæta þess sérstaklega vel að öll lög sem það setur, sem fela í sér frelsisviptingar fólks um lengri eða skemmri tíma, séu í fullu samræmi við skuldbindingar ríkisins samkvæmt fjölþjóðlegum mannréttindasamningum. Þessi skylda verður eðli máls samkvæmt enn ríkari þegar um er að ræða frelsisviptingar gagnvart ósakhæfum einstaklingum og einstaklingum sem kunna að verða sviptir frelsinu, ekki fyrir framin brot heldur vegna þess að þeir eru taldir ”hættulegir umhverfi sínu”, eins og segir í kynningu á áformunum í samráðsgátt. Þá er augljóst að þegar um einstaklinga er að ræða, sem eiga vegna fötlunar, t.a.m. þroskahömlunar og/eða skyldra fatlana og/eða geðrænna áskorana, erfitt með að gæta réttinda sinna og hagsmuna við meðferð mála og eftir að ákvörðun hefur verið tekin um frelsisviptingu þeirra er bráðnauðsynlegt að tryggja réttaröryggi þeirra sérstaklega vel og tryggja þeim fullnægjandi og viðeigandi stuðning frá hæfum, óháðum aðilum, sem þeir hafa greiðan aðgang að og sem hafa skýr og virk úrræði til að standa vörð um réttindi  og hagsmuni skjólstæðinga sinna.

Í þessu sambandi árétta samtökin sérstaklega skyldur íslenska ríkisins samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem ríkið fullgilti árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur, stjórnarfrumvarp um lögfestingu samningsins var til meðferðar á síðasta þingi og þá er í gangi af hálfu ríkisins sérstök landsáætlun um innleiðingu hans.

Með vísan til þess sem að framan segir er umhugsunarvert, að mati samtakanna, hversu lítið er vísað til samningsins í þeim áformum, sem hér eru til umsagnar og vilja þau því árétta sérstaklega að í samningnum eru ýmis ákvæði sem hafa mikla þýðingu m.t.t. þess sem fjallað er um í áformunum.

4. gr. samningsins hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingarÞar segir:

1.      Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi á grundvelli fötlunar.
           Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:
          a)       að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningi þessum,
         b)       að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin
, ...
 

Við undirbúning gerð og setningu þeirra laga, sem hér eru til umsagnar, verða stjórnvöld að gæta sérstaklega að skyldum, sem á þeim hvíla samkvæmt 5., 12., 13. og 14. gr.samningsins.

 5. gr. samningsins hefur yfirskriftina Jafnrétti og bann við mismunun og er svohljóðandi:

     1.      Aðildarríkin viðurkenna að allar manneskjur eru jafnar fyrir og samkvæmt lögum og eiga rétt á jafnri vernd og jöfnum ávinningi af lögum án nokkurra mismununar.
     2.      Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og árangursríka réttarvernd gegn mismunun af hvaða ástæðu sem er. 
     3.      Aðildarríkin skulu, í því skyni að efla jafnrétti og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða. 
     4.      Eigi ber að líta á sértækar aðgerðir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram raunverulegu jafnrétti fyrir fatlað fólk, sem mismunun í skilningi samnings þessa. 

Í samningnum er viðeigandi aðlögun skilgreind svo: Viðeigandi aðlögun merkir nauðsynlegar og viðeigandi breytingar og lagfæringar, sem eru ekki umfram það sem eðlilegt má teljast eða of íþyngjandi, þar sem þeirra er þörf í sérstöku tilviki, til þess að tryggt sé að fatlað fólk fái notið eða geti nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og grundvallarfrelsi.

12. gr.samningsins hefur yfirskriftina Jöfn viðurkenning fyrir lögum og hljóðar svo:

1.         Aðildarríkin árétta að fatlað fólk á rétt á því að vera viðurkennt alls staðar sem persónur að lögum.

2.         Aðildarríkin skulu viðurkenna að fatlað fólk njóti löghæfis til jafns við aðra á öllum sviðum lífsins.

3.         Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólk fái þann stuðning sem það kann að þarfnast þegar það nýtir löghæfi sitt.

4.         Aðildarríkin skulu tryggja að allar ráðstafanir, sem varða nýtingu löghæfis, feli í sér viðeigandi og árangursríka vernd til þess að koma í veg fyrir misnotkun í samræmi við alþjóðleg mannréttindalög. Með slíkri vernd skal tryggt að ráðstafanir sem varða nýtingu löghæfis virði réttindi, vilja og óskir einstaklingsins, leiði ekki til hagsmunaárekstra eða hafi ótilhlýðileg áhrif, séu í samræmi við og sniðin að aðstæðum viðkomandi einstaklings, gildi í skemmsta mögulega tíma og séu endurskoðaðar reglulega af til þess bæru sjálfstæðu og óháðu yfirvaldi eða dómstóli. Verndin skal taka mið af og vera í samræmi við þau áhrif sem slíkar ráðstafanir hafa á réttindi og hagsmuni einstaklingsins.

5.         Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi og árangursríkar ráðstafanir, samkvæmt ákvæðum þessarar greinar, til þess að tryggja jafnan rétt fatlaðs fólks til þess að eiga eða erfa eignir, stýra eigin fjármálum og hafa til jafns við aðra aðgang að bankalánum, veðlánum og annars konar lánafyrirgreiðslu, jafnframt því að tryggja að fatlað fólk sé ekki svipt eignum sínum eftir geðþótta.

 

13. gr.samningsins hefur yfirskriftina Aðgangur að réttinum. Þar segir:

     1.      Aðildarríkin skulu tryggja fötluðu fólki árangursríkan aðgang að réttinum til jafns við aðra, meðal annars með aðlögun málsmeðferðar og aðlögun með tilliti til aldurs í því skyni að greiða fyrir árangursríkri þátttöku þess, beinni eða óbeinni, þar á meðal sem vitni, í allri málsmeðferð, þ.m.t. á rannsóknarstigi eða öðrum fyrri stigum máls.
     2.      Í því skyni að tryggja fötluðu fólki árangursríkan aðgang að réttinum skulu aðildarríkin efla viðeigandi þjálfun fyrir þau sem starfa á sviði réttarvörslu, þar á meðal lögreglu og starfsfólk fangelsa.

Og 14. gr.samningsins, sem hefur yfirskriftina Frelsi og öryggi einstaklingsins, er sérstaklega mikilvæg m.t.t. þeirra áforma sem hér eru til umsaganr. Greinin hljóðar svo:

     1.      Aðildarríkin skulu tryggja að fatlað fólk, til jafns við aðra:
         a)          njóti réttar til frelsis og persónulegs öryggis,
         b)          sé ekki svipt frelsi sínu með ólögmætum hætti eða geðþóttaákvörðunum og að frelsissvipting í hvaða mynd sem er sé lögum samkvæmt og að fötlun skuli ekki undir neinum kringumstæðum réttlæta frelsissviptingu.
     2.      Sé fatlað fólk svipt frelsi sínu á einhvern hátt skulu aðildarríkin tryggja að því séu tryggð mannréttindi til jafns við aðra í samræmi við alþjóðleg mannréttindalög og að meðferð þess samræmist markmiðum og meginreglum samnings þessa, meðal annars með því að tryggja því viðeigandi aðlögun.

Óháður sérfræðingur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (Special Rapporteur on the rights of persons with disabilities) sendi frá sér skýrslu (A/HRC/40/54) árið 2019, þar sem fjallað er um frelsisskerðingar gagnvart fötluðu fólki sérstaklega m.t.t. þeirra mikilsverðu mannréttinda, sem í húfi eru og þeirra ríku skyldna sem hvíla á ríkjum samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks almennt og sérstaklega samkvæmt 14. grein hans. Skýrsluna má nálgast á hlekkjum að neðan.

A/HRC/40/54: Rights of persons with disabilities - Report of the Special Rapporteur on the rights of persons with disabilities

https://docs.un.org/en/A/HRC/40/54

https://www.ohchr.org/en/documents/thematic-reports/ahrc4054-rights-persons-disabilities-report-special-rapporteur-rights

Í skýrslunni er að finna mikilvægar leiðbeiningar sem hljóta að hafa gríðarlegt vægi við túlkun og skýringu ákvæða hans og ákvörðun skyldna ríkisins sem leiða af ákvæðum 14. greinar. Landssamtökin Þroskahjálp og Geðhjálp leggja ríka áherslu á að þess verði sérstaklega vel gætt við undirbúning, gerð, setningu og framkvæmd þeirra áforma um þá lagasetningu, sem hér er til umfjöllunar, sem og eftirlit með framfylgd þeirra laga að taka fullt tillit til ákvæða samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, eins og íslenska ríkinu er skylt að gera, sbr. 4. gr. samningsins sem vitnað er til að framan. Samtökin lýsa miklum áhuga og vilja til náins og virks samráðs við dómsmálaráðuneytið við það mikilvæga verkefni og vísa í því sambandi til 3. mgr. 4. gr. samningsins, sem hljóðar svo:

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

 

Virðingarfyllst

f.h. Landssamtakanna Geðhjálpar                              f.h. Landssamtakanna Þroskahjálpar

Svava Arnardóttir, formaður                                      Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður

 

Málið sem umsögnin fjallar um má finna hér