Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar og Einhverfusamtakanna um drög að stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030

 

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar og Einhverfusamtakanna um drög að stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030

 

Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi  fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að virða öll ákvæði hans og framfylgja þeim. Það er meginmarkmið samningsins að verja fatlað fólk fyrir mismunun á grundvelli fötlunar á öllum sviðum samfélagsins. Aðgangur að heilbrigðisþjónustu, til jafns við aðra, er algjör grundvallarþáttur í því.

 

25. gr. samnings hefur yfirskriftina ,,Heilsa’’. Þar segir m.a.:

 

Aðildarríkin viðurkenna að fatlað fólk hafi rétt til þess að njóta góðrar heilsu að hæsta marki sem unnt er án mismununar vegna fötlunar. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja fötluðu fólki aðgang að heilbrigðisþjónustu sem tekur mið af kyni, m.a. heilsutengdri endurhæfingu. 

 

Aðildarríkin skulu einkum:

b) bjóða fram þá heilbrigðisþjónustu sem fatlað fólk þarfnast, einkum vegna fötlunar sinnar, m.a. að fötlun sé uppgötvuð snemma og að gripið sé inn í málið snemma, eftir því sem við á, og þjónustu sem miðar að því að draga úr fötlun eins og framast er kostur og koma í veg fyrir frekari fötlun, m.a. meðal barna og eldri einstaklinga,

 

c) bjóða fram fyrrnefnda heilbrigðisþjónustu eins nálægt samfélögum fólks og frekast er unnt, þ.m.t. til sveita,

 

d) gera þá kröfu til fagfólks í heilbrigðisþjónustu að það annist fatlað fólk eins vel og aðra, m.a. á grundvelli frjáls og upplýsts samþykkis, með því, auk annars, að auka vitund um, mannréttindi, meðfædda göfgi, sjálfræði og þarfir fatlaðs fólks með þjálfun fyrir starfsmenn, bæði innan einkarekinnar og opinberrar heilsugæslu, og með útbreiðslu siðferðislegra viðmiðana meðal þeirra,

...

 

Einhverfusamtökin og Landssamtökin Þroskahjálp fagna því að horft sé fram á veg í stefnu í geðheilbrigðismálum fyrir alla landsmenn og að allir landsmenn hafi aðgang að hagnýtum, gagnreyndum  og auðskildum upplýsingum um geðrækt, forvarnir og geðheilbrigðisþjónustu.

 

Þó er óhjákvæmilegt að árétta skýrt og ítreka enn að geðheilbrigðisþjónustan nú er algjörlega óviðunandi og stenst alls ekki þær kröfur sem leiða af framangreindum ákvæðum samnings  SÞ um réttindi fatlaðs fólks né heldur meginmarkmiðs heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um „Að skilja engan eftir“ en íslensk stjórnvöld vísa mjög mikið og oft til heimsmarkmiða SÞ og ekki síst við stefnumótun af því tagi sem hér er til umfjöllunar.

 

Staðreyndin og staðan er sú að fólki er mismunað alvarlega um aðgang að viðeigandi geðheilbrigðisþjónustu á grundvelli fötlunar.

 

Stefnan í geðheilbrigðismálum samkvæmt þingsályktunartillögunni, sem hér er til umfjöllunar, er mjög almenns eðlis. Þroskahjálp og Einhverfusamtökin telja hins vegar í ljósi stöðunnar og reynslunnar vera nauðsynlegt að í stefnunni verði skýrt tekið fram að öll geðheilbrigðisþjónusta þurfi að vera aðgengileg öllum og að tryggt skuli með tilgreindum og að trygg skuli að fólki verði ekki mismunað um aðgang að henni á grundvelli fötlunar, eins og nú er raunin hjá geðheilsuteymunum. Í stefnunni þarf að koma skýrt fram að sé þekking á fötlun ekki til staðar þurfi þjónustuveitandi að hafa aðgang að ráðgjafarteymi, sem getur komið inn í mál þegar þörf er á í stað þess að vísa fólki frá eins og mörg dæmi eru um. 

 

Í greinargerð í þingsályktunartillögunni er fjallað um geðheilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn. Nauðsynlegt er í ljósi stöðunnar og reynslunnar að leggja sérstaka áherslu á að þjónustan í heild sinni eigi að henta öllu fötluðu fólki og því skuli ekki vísað í sérúrræði vegna fötlunar sinnar heldur verði öll þjónusta aðlöguð í nærumhverfi þess. 

 

Mikilvægt er að taka inn í a-lið stefnunnar greiningar barna því að greining er lykill að viðeigandi þjónustu. Biðlistar hjá Þroska- og hegðunarstöð og Ráðgjafar- og greiningarstöð eru nú óheyrilega langir og tefur það eðlilega þjónustu og möguleika á að hefja markvissa snemmtæka íhlutun. Í desember 2021 voru 326 börn á biðlista eftir greiningu hjá Ráðgjafar- og greiningarstöð og 738 á biðlista hjá Þroska- og hegðunarstöðinni.  

 

Aftast í b-lið stefnunnar segir: “Þverfagleg teymisvinna einkenni vinnubrögð heilbrigðisstarfsfólks til að tryggja betra aðgengi, gæði, skilvirkni og samfellu í geðheilbrigðisþjónustu.” Við þessa málsgrein þarf að bæta: “fyrir alla án aðgreiningar”.

 

Landssamtökin Þroskahjálp og Einhverfusamtökin lýsa miklum vilja og áhuga á því að eiga samstarf og samráð við hlutaðeigandi stjórnvöld til að tryggja að stefna í geðheilbrigðismálum taki nauðsynlegt tillit til aðstæðna, þarfa og réttinda fólks með  þroskahömlun og einhverfra og vísa í því sambandi til samráðsskyldna stjórnvalda sem kveðið er á um í 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Þar segir:

Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.



Virðingarfyllst,

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar

Sigrún Birgisdóttir, framkvæmdarstjóri Einhverfusamtakanna

 

Nálgast má mál sem umsögnin á við hér: