Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar (LÞ) um tillögu til þingsályktunar um sólarhringsmeðferð í öndunarvél á heimili sjúklings. (Þingskjal 31 – 31. mál).

Velferðarnefnd Alþingis.

 Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar (LÞ) um tillögu til þingsályktunar um sólarhringsmeðferð í öndunarvél á heimili sjúklings. (Þingskjal 31 – 31. mál).

Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að fá ofangreinda þingsályktunartillögu senda til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfæri við velferðarnefnd varðandi tillöguna.

Möguleikar til að geta dvalist á heimili sínu og notið einkalífs þar og samvista við fjölskyldu og aðra aðstandendur eru grundvallarlífsgæði sem flestir meta afar mikils. Þeir hagsmunir njóta einnig mikillar viðurkenningar og verndar í íslenskum rétti sem og í öllum helstu mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist. Í 71. gr. íslensku stjórnarskrárinnar er viðurkenning og vernd þessara hagsmuna orðuð svo:

Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.

Jafnræðisregla íslensku stjórnarskrárinnar bannar mismunun fólks á grundvelli veikinda eða fötlunar.

Þörfin fyrir að geta dvalist á heimili sínu og að fá að njóta þeirra réttinda og lífsgæða sem því tengjast verður enn meiri þegar í hlut eiga einstaklingar sem vegna alvarlegra veikinda eða fötlunar geta vegna veikindanna eða fötlunarinnar ekki notið ýmissa lífsgæða utan heimilis sem fólk á almennt kost á að njóta.

Landssamtökin Þroskahjálp líta því svo á að stjórnvöldum beri að gera það sem í þeirra valdi stendur til að fólk sem er alvarlega veikt eða fatlað eigi kost á  heimili sem hentar þörfum þess og geti dvalist þar eins lengi og mögulegt er ef það er vilji þess. 

Rök og sjónarmið sem styðjast við siðferði og mannúð leiða til sömu niðurstöðu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýsa Landssamtökin Þroskahjálp eindregnum stuðningi við þingsályktunartillöguna.

 

19. febrúar 2016,

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Landssamtakanna þroskahjálpar.

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Landssamtakanna þroskahjálpar.