Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar (LÞ) um frumvarp til laga um breytingu lögum um grunnskóla nr. 91/2008. (mannréttindi). (Þingskjal 104 – 104. mál).

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis.

 Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar (LÞ) um frumvarp til laga um breytingu lögum um grunnskóla nr. 91/2008. (mannréttindi). (Þingskjal 104 – 104. mál).

Landssamtökin Þroskahjálp þakka allsherjar- og menntamálanefnd fyrir að fá ofangreint lagafrumvarp sent til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfæri varðandi það.

Samtökin styðja heilshugar þá breytingu á grunnskólalögum sem lögð er til i frumvarpinu og taka undir þau sjónarmið og rök sem er að finna í greinargerð með frumvarpinu.

Í þessu sambandi vilja samtökin einnig benda á og árétta að þekking og skilningur á mannréttindum eykur mjög líkur á að ungt fólk geti orðið virkir þátttakendur í lýrðæðissamfélagi sem er grundvallað mannréttindum og meginreglum réttarríkis. Mikilvægur liður í að stuðla að því er að skýra vel fyrir börnum í grunnskólum innihald, tilgang og markmið mannréttindaákvæða íslensku stjórnarskrárinnar og alþjóðlegra mannréttindasamninga.

Þá er virðing fyrir jafnræði fólks og skilningur barna og ungmenna á því hvað það þýðir að óheimilt sé að mismuna fólki á grundvelli kynferðis, kynþáttar, fötlunar, kynhneigðar, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna og stöðu að öðru leyti mikilvæg forsenda þess að markmið um skóla án aðgreiningar geti náðst eins og stjórnvöld hafa mótað stefnu um. Þar gegnir samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks afar mikilvægu hlutverki en stjórnvöld vinna nú að því að fullgilda hann með því að tryggja að lög, reglur og stjórnsýsluframkvæmd uppfylli kröfur samningsins.

Þá skal bent á að í öllum mannréttindasamningum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir eða búa sig undir að fullgilda er lögð mjög mikil áhersla á skyldur stjórnvalda til að kynna efni samninganna og þau réttindi sem þeir mæla fyrir um fyrir almenningi.

 

22. mars 2016.

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar.

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri landssamtakanna Þroskahjálpar.