Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar frumvarp til laga um breytingu á lögum um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980, 233. mál.

Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að hafa fengið frumvarpið til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfæri varðandi það.

Samtökin Þroskahjálp lýsa ánægju með það markmið frumvarpsins að sporna við kjarasamningsbrotum á vinnumarkaði, enda um mikið hagsmunamál fyrir fatlað fólk að ræða. Samtökin taka undir það sjónarmið sem fram kemur í greinargerð með frumvarpinu, að þeir sem líklegastir eru til að verða fyrir misrétti á vinnumarkaði eru berskjölduðustu hóparnir sem ekki þekkja rétt sinn. Sérstaklega er bent á fólk af erlendum uppruna og fátækt fólk í greinarðgerðinni, en það á alls ekki síður um faltað fólk og þá ekki síst fólk með þroskahömlun eða skyldar raskanir.

Íslensk stjórnvöld fullgiltu samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbundu sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans á öllum sviðum. Samningurinn kveður á um víðtæka vernd réttinda og hagsmuna fatlaðs fólks, þar á meðal á vinnumarkaði. 27. gr.samningsins fjallar um vinnu og starf í henni segir:

1. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks, til jafns við aðra, til vinnu; í því felst réttur til að fá ráðrúm til að afla sér lífsviðurværis með vinnu að eigin vali eða vinnu sem er þegin á frjálsan hátt á vinnumarkaði og í vinnuumhverfi sem fötluðu fólki stendur opið, er án aðgreiningar og er því aðgengilegt. Aðildarríkin skulu tryggja og stuðla að því að rétturinn til vinnu verði að veruleika, m.a. fyrir þá sem verða fatlaðir meðan þeir gegna starfi, með því að gera viðeigandi ráðstafanir, til að mynda með lagasetningu, til þess meðal annars:

a) að leggja bann við mismunun vegna fötlunar að því er varðar öll mál sem tengjast störfum af hvaða tagi sem er, m.a. nýskráningar-, ráðningar- og starfsskilyrði, starfsöryggi, starfsframa og öryggi og hollustuhætti á vinnustað,

b) að vernda rétt fatlaðs fólks, til jafns við rétt annarra, til sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða, m.a. jafnra tækifæra og launajafnréttis,[1] öryggis og hollustu á vinnustað, þ.m.t. vernd gegn stöðugri áreitni, og til þess að fá úrlausn kvörtunarmála,

Í greininni segir einnig:

2. Aðildarríkin skulu tryggja að fötluðu fólki sé ekki haldið í þrældómi eða ánauð og að því sé veitt vernd, til jafns við aðra, gegn þvingunar- eða nauðungarvinnu.

Rannsóknir benda ótvírætt til þess að fatlað fólk sé mun líklegra til þess að verða fyrir hvers kyns misbeitingu og ofbeldi en fólk sem ekki er fatlað.  Í skýrslu sem Félagsvísindastofnun vann fyrir Félagsmálaráðuneytið, “Valdbeiting á vinnustað”, sem birt var árið 2019 kemur til dæmis í ljós að fatlað fólk með skerta starfsgetu er mun líklegra til að hafa reynslu af einelti á vinnustað en þátttakendur án skerðingar eða fötlunar, eða 35 prósent á móti 20 prósentum.[2] Þetta er sláandi töllur og mikilvægt að bregðast við því ekki síður en kjarasamningsbrotum svo vinnumarkaðurinn sé og verði réttlátur og öruggur fyrir alla.  16. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks fjallar um frelsi frá misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum. Þar segir:

     1.      Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félags- og menntamála og aðrar ráðstafanir í því skyni að vernda fatlað fólk, jafnt innan heimilis sem utan, fyrir hvers kyns misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum, einnig með hliðsjón af kynbundnum þáttum slíkra athafna.

     2.      Aðildarríkin skulu einnig gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar í hvaða mynd sem er, einnig með því að tryggja fötluðu fólki og fjölskyldum þess, ásamt þeim sem annast það, viðeigandi aðstoð og stuðning, sem tekur mið af kyni og aldri, meðal annars með því að veita upplýsingar og fræðslu um hvernig beri að forðast, átta sig á og tilkynna um misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar. Aðildarríkin skulu tryggja að sú þjónusta sem veitir vernd taki mið af kyni, aldri og fötlun.

     3.      Í því skyni að koma í veg fyrir misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar í hvaða mynd sem er skulu aðildarríkin tryggja að óháð yfirvöld hafi virkt eftirlit með allri aðstöðu og áætlunum sem er ætlað að þjóna fötluðu fólki.

     4.      Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að stuðla að líkamlegum, vitsmunalegum og sálrænum bata, endurhæfingu og félagslegri enduraðlögun fatlaðs fólks, sem verður þolendur misnotkunar í gróðaskyni, ofbeldis eða misþyrminga í ein¬hverri mynd, meðal annars með því að bjóða fram þjónustu sem veitir vernd. Slíkur bati og enduraðlögun skulu fara fram í umhverfi sem stuðlar að bættri heilsu, velferð, sjálfsvirðingu, reisn og sjálfræði viðkomandi einstaklings, þar sem tillit er tekið til sérþarfa hans miðað við kyn og aldur.

     5.      Aðildarríkin skulu taka upp skilvirka löggjöf og stefnu, einnig löggjöf og stefnu þar sem sérstakt tillit er tekið til kvenna og barna, til þess að tryggt sé að unnt sé að staðreyna og rannsaka misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar sem beinast gegn fötluðu fólki og ákæra vegna slíkrar háttsemi ef það á við.

Í ljósi þessa og með ofangreindar greinar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í huga, beina Landssamtökin Þroskahjálp þeim tilmælum til hlutaðeigandi stjórnvalda og Alþingis að sérstaklega verði hugað að vernd, hagsmunum og réttindum fatlaðs fólks á vinnumarkaði við útfærslu lagabreytinganna og þegar ferlar fyrir aðkomu Vinnumálastofnunar eru úbúnir.

 

Virðingarfyllst.

Friðrik Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálp,

Anna Lára Steindal, verkefnastjóri í málefnum barna, ungmenna og fólks af erlendum uppruna.

Nálgast má frumvarpið sem umsögnin á við hér.