Umsögn Landssamtakanna Geðhjálpar og Þroskahjálpar um frumvarp til laga um öryggisráðstafanir samkvæmt dómsúrlausn, FRN25040030

Umsögn Landssamtakanna Geðhjálpar og Þroskahjálpar um frumvarp til laga um öryggisráðstafanir samkvæmt dómsúrlausn, FRN25040030

                                                                                                                             12. október 2025

Frumvarpið

 

Landssamtökin Geðhjálp og Þroskahjálp hafa tekið þátt í samráði í tengslum við vinnu við öryggisvistun og breytingar á lögum sem tengjast þeirri vinnu. Fagna samtökin að leitað hafi verið til þeirra strax á fyrstu stigum vinnunnar. Þessi vinna hefur endurspeglað meira en áður ákveðna viðleitni til að tryggja að mannréttindi séu tryggð gagnvart mjög berskjölduðum hópi. Sú viðleitni er jákvæð en það eru ýmis atriði að mati samtakanna, sem snúa að mannréttindum og hugmyndafræði, sem verður að ydda betur.

 

Í greinargerð með frumvarpinu segir

 

Skort hefur lagaumgjörð sem veitir stjórnvöldum skýra heimild til að framfylgja dómsúrlausnum um slíkar ráðstafanir. Þannig hefur ekki verið kveðið nánar á í lögum um framkvæmd þessara ráðstafana. Því er með lagafrumvarpi þessu sett heildarlöggjöf um framkvæmd, þjónustu og úrræði fyrir einstaklinga sem hljóta dómsúrlausnir um öryggisráðstafanir. Með nýrri löggjöf er kveðið á um að sett skuli á fót stofnun sem skal fara með framkvæmd öryggisráðstafana, auk annarra verkefna í samræmi við ákvæði frumvarpsins.

 

Í kjölfar OPCAT eftirlits Umboðsmanns Alþingis á þrjár lokaðar geðdeildir Landspítalans árið 2018, þar sem fram kom að lagaheimildir skorti fyrir þvingandi aðgerðum gagnvart sjúklingum deildanna. Þar kom einnig fram að aðbúnaður, starfsmannahald og þekking væri ekki nægjanleg og þyrfti að bæta. Frá því að þetta kom fram hefur framkvæmdavaldið ítrekað reynt að breyta lögum þannig að þvingunin og nauðungin yrði lögleg. Það hefur hins vegar minna farið fyrir því að bæta aðbúnað, styrkja starfsmannahald og nútímavæða hugmyndafræði. Landssamtökin Geðhjálp og Þroskahjálp hafa fullan skilning á því að bæta þurfi löggjöfina en ef ný hugmyndafræði, breytt starfsmannahald og bættur aðbúnaður fylgir ekki með er hætt við að staðan breytist lítið.

 

Börn

Í 3. gr. segir:

Börn undir 18 ára sæta öryggisgæslu í úrræðum á vegum Barna- og fjölskyldustofu. Barn skal njóta sömu meðferðar og önnur börn sem í barnaverndarúrræðinu dvelja. Við framkvæmdöryggisráðstafana skulu hagsmunir barna ávallt hafðir að leiðarljósi þegar teknar eru ákvarðanir sem varða þau.

Í skýrslu umboðsmanns Alþingis, sem kom út í júní 2024 og varðaði tvö einkarekin úrræði fyrir börn, sagði m.a.:

Bent er á að í lögum, reglum og fjölþjóðlegum viðmiðum sé lögð áhersla á menntun, þjálfun og færni þeirra sem starfa með börnum sem vistuð eru utan heimilis eða eru með þroska- og geðraskanir. Við eftirlit umboðsmanns hjá Klettabæ og Vinakoti kom í ljós að fagfólk hefur takmarkaða aðkomu að umönnun barnanna frá degi til dags. Er bent á að huga verði að því hvort þau fái þá sérhæfðu og þverfaglegu þjónustu sem þau eiga rétt á og leita leiða til að tryggja að faglærðir starfsmenn annist börnin a.m.k. hluta úr degi auk þess að veita starfsfólki viðhlítandi fræðslu um réttindi barnanna. [1]

Í heimsóknarskýrslu umboðsmanns Alþingis á neyðarvistun Stuðla, sem kom út í desember 2024, kom eftirfarandi m.a. fram:

Samkvæmt viðtölum og fyrirliggjandi gögnum geta börn orðið af daglegri útiveru vegna manneklu og/eða álags á deildinni.

Neyðarvistun Stuðla er ekki heilbrigðisstofnun og þar er ekki veitt heilbrigðisþjónusta. Stór hluti barna sem vistast á deildinni getur þó þurft á slíkri þjónustu að halda.

Í heimsókninni kom fram að börnum með geðræn vandamál hefði fjölgað á neyðarvistun undanfarin misseri. Fram kom af hálfu starfsfólks deildarinnar að í sumum tilvikum væri um að ræða börn sem þyrftu á sérhæfðri meðferð að halda en væru vistuð á neyðarvistun vegna skorts á viðeigandi úrræðum. [2]

Ábendingar umboðsmanns eru í samræmi við þær áhyggjur sem fjölmargir aðilar – félagasamtök, fagfólk, aðstandendur og notendur í kerfinu hafa haft í langan tíma. Það er erfitt að sjá hvernig frumvarp um öryggisvistun tryggi það að börn njóti þeirra réttinda sem alþjóðaskuldbindingar og stjórnarskráin segja fyrir um. Ítrekaðar ábendingar umboðsmanns og annarra hafa ekki haft mikið að segja hingað til. Breytingar kalla á gagngerar endurbætur á því kerfi sem hér um ræðir: hugmyndafræði, fagkröfur of aðbúnaður.

Forstjóri, fagráð og starfsfólk

Í 7. gr. er fjallað um ráðningu forstjóra og fagráð:

Við skipun í embætti forstjóra skal ráðherra skipa þriggja manna nefnd til að meta hæfni umsækjenda um embættið. Ráðherra getur sett nefndinni reglur um mat á umsóknum. Nefndin skal láta ráðherra í té skriflega rökstudda umsögn um hæfni umsækjenda. […]

Ráðherra skipar miðstöðinni fagráð samkvæmt tilnefningum forsætisráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis, mennta- og barnamálaráðuneytis, innviðaráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Skipa skal tvo fulltrúa hagsmunasamtaka í fagráð, að fengnum tilnefningum. Ráðherra skipar tvo fulltrúa án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður fagráðs.

 

 

Hvað varðar ráðningu forstjóra er mikilvægt að hagsmunasamtökin, sem hér um ræðir, hafi aðkomu að ráðningunni – hvort sem það er í gegnum fagráðið eða með beinni aðild. Það er fagnaðarefni að tveir fulltrúar fagráðsins séu skipaðir eftir tilnefningu hagsmunasamtaka – það er þó mikilvægt skilgreina hvaða hagsmunasamtök eigi í hlut.

Í 8. gr. er fjallað um menntun og hæfni starfsfólks:

Starfsfólk Miðstöðvar um öryggisráðstafanir og starfsfólk öryggisgæslustaða skal hafa nauðsynlega menntun og hæfni í samræmi við starfsemi öryggisgæslustaðar og það starf sem því er ætlað að sinna. Liggja skal fyrir gilt starfsleyfi eftir því sem við á.

Landssamtökin Geðhjálp og Þroskahjálp ítreka mikilvægi þess að gert verði ráð fyrir stöðum jafningja (notenda) innan öryggisgæslustaða. Þeirra þekking, reynsla og kunnátta hefur sannað sig innan geð- og félagsþjónustu út um allan heim – líka hér á Íslandi. Hér er um að ræða algjöra lykilstarfstétt innan geðheilbrigðiskerfis 21. aldarinnar.

Í 10. gr. er fjallað um þekkingu og færni starfsfólks – þar segir:

Miðstöð um öryggisráðstafanir skal sjá til þess að starfsfólk hafi nauðsynlega fagmenntun, færni og þekkingu til að starfa við framkvæmd öryggisráðstafana. Miðstöðin skal bjóða upp á regluleg námskeið fyrir starfsfólk, þar sem meðal annars er fjallað um mannréttindi, samskipti og færni í notkun aðferða til að draga úr þörf fyrir beitingu nauðungar. Hver þjónustuaðili skal tryggja að starfsfólk sitji slík námskeið og að símenntunaráætlunum sé fylgt.

Það er mjög mikilvægt að sú hugmyndafræði, sem unnið er eftir innan þessarar miðstöðvar og þeirra öryggisgæslustaða sem hún hefur umsjón með, sé batamiðuð og með breiða skírskotun. Horft verði til batamiðaðra nálgana eins og Open dialogue og vinnu með raddir og óhefðbundna skynjun sem víða er unnið eftir. Landssamtökin Geðhjálp standa t.d. um þessar mundir fyrir 82 klst. þjálfun í gagnlegum aðferðum í tengslum við raddir og aðra óhefðbundna skynjun. Það er afar mikilvægt að starfsfólk öðlist þekkingu og þjálfun í þessum batamiðuðu nálgunum í stað þess að sækja aðeins

námskeið er snúa að öryggisþáttum og öryggismenningu.

Þverfaglegt teymi

Í 20. gr. er fjallað um þverfaglegt teymi sem leggur mat á þjónustuþörf þeirra sem hér um ræðir.

Álit teymisins skal lagt til grundvallar þegar tekin er ákvörðun um framkvæmd þeirrar öryggisráðstöfunar sem kveðið er á um í dómsúrlausn, þ.e. um öryggisgæslustað og aðrar vægari öryggisráðstafanir. Miðstöðin ber ábyrgð á að tryggja eins og kostur er að í teyminu sitji hverju sinni sérfræðingar með sérþekkingu á þjónustuþörfum hlutaðeigandi skjólstæðings. Yfirlæknir réttar- og öryggisgeðþjónustu Landspítala skal eiga fast sæti í teyminu. Þegar skjólstæðingur er barn skal fulltrúi Barna- og fjölskyldustofu sitja í teyminu.

Samtökin leggja áherslu á að fulltrúar notenda/notendasamtaka verði í þessu teymi. Það hefur sýnt sig að raddir notenda/jafningja skipta miklu máli innan velferðarþjónustu sem er oft á tíðum í besta falli matskennd þegar kemur að meðferð og ákvörðunum. Það skiptir líka máli að á þessar raddir séhlustað og reynslan kennir okkur líka að fulltrúarnir þurfi því að vera fleiri en einn. Annars er hætt við að ekki sé hlustað. Þetta er sérstaklega mikilvægt hér þar sem líklegt er að yfirlæknir réttar- og öryggisþjónustu hafi talsverð völd þegar kemur að ákvörðunum hvort einstaklingur færist til og frá geðsviði Landspítalans. Með því er ekki verið að segja að viðkomandi hafi annað að leiðarljósi en faglegt mat. Notenda/jafningja sjónarmið eru sérstaklega mikilvæg þegar kemur að ákvörðunum sem varða meðferð jaðarsettra einstaklinga í kerfinu.

Innra og ytra eftirlit

Í 6. gr. er fjallað um innra og ytra eftirlit þjónustunnar. Þar segir:

Miðstöðin hefur innra eftirlit og umsjón með öryggisgæslustöðum sem starfa á hennar vegum, sem og með einstaklingum sem gert er að sæta öðrum öryggisráðstöfunum. Miðstöðin fer jafnframt með innra eftirlit með öryggisgæslustöðum sem reknir eru á grundvelli samnings við sveitarfélög og einkaaðila. Eftirlit með öryggisgæslustöðum sem teljast vera heilbrigðisstofnanir er í höndum heilbrigðisyfirvalda. Barnaverndaryfirvöld hafa eftirlit með stöðum þar sem börn sæta öryggisráðstöfunum. Ráðherra skal setja reglugerð þar sem nánar er kveðið á um innra eftirlit, m.a. um innihald, kröfur og verklag.

Í 63. gr. er fjallað um ytra eftirlit

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála hefur ytra eftirlit með félagslegri velferðarþjónustu sem veitt er samhliða öryggisráðstöfunum samkvæmt V. kafla laga þessara. Embætti landlæknis hefur ytra eftirlit með heilbrigðisþjónustu sem veitt er samhliða öryggis- ráðstöfunum samkvæmt V. kafla laga þessara, þar með talið á heilbrigðisstofnunum sem teljast vera öryggisgæslustaðir.

Brot á mannréttindum eru því miður daglegt brauð á stofnunum og stöðum þar sem einstaklingar með geðrænan vanda og/eða þroskahömlun dveljast. Lyfjaþvinganir, innilokun á herbergi, útivistarbann, símabann, skömmtun á mat og kaffi og jafnvel líkamlegt og andlegt ofbeldi. Eins og bent var á hér á undan er hluti þessara aðgerða tilkominn vegna mönnunarvanda og óhentugs húsnæðis en stærstur hluti er vegna kerfisvanda og gamaldags hugmyndafræði sem byggir um of á öryggismenningu. Ferlar meðferðar, sem boðið er upp á, taka ekki tillit til þarfa notenda heldur virðast byggja á þörfum starfsmanna. Meðal annars þess vegna leggja landssamtökin Geðhjálp og Þroskahjálp á það mikla áherslu að notendur/jafningjar sitji í þverfaglegu teymi sem kveðið er á um í 20. gr. Sporin hræða því miður þegar kemur að innra eftirliti með starfsemi þar sem nauðung og þvingun er beitt daglega.

Þarna er komið að ábyrgðaraðila þjónustunnar sem jafnframt á að hafa eftirlit með starfseminni. Hér er um nýja stofnun á vegum ríkisins að ræða sem rekur þjónustuna og hefur eftirlit með henni. Landssamtökin Geðhjálp og Þroskahjálp hafa ítrekað bent á mikilvægi eftirlits með stofnunum og stöðum þar sem einstaklingar með geðrænar áskoranir og/eða fötlun eru vistaðir til lengri eða skemmri tíma. Það hefur einnig komið fram að lögbundnu eftirliti hefur ekki verið sinnt sem skyldi sl. ár og áratugi. Á þetta hefur Umboðsmaður Alþingis bent í nokkrum skýrslum á undanförnum árum í tengslum við OPCAT eftirlit. Það kom einnig fram í forvinnu fyrirhugaðrar rannsóknarnefndar á vegum Alþingis að tilefni sé að ætla að eftirlit sé ekki og hafi ekki verið nægjanlega vel sinnt um langt árabil. Sporin hræða í þessum efnum og þegar horft er til þeirra stofnana sem nú eiga að sinna þessu eftirliti, Embættis landlæknis og Gæða- og eftirlitsstofnunnar velferðarmála, kemur í ljós hve veikt þetta eftirlit er, m.a. vegna umfangs og takmarkaðs fjölda stöðugilda sem hægt er að setja í verkefnin.

Landssamtökin Geðhjálp og Þroskahjálp leggja mikla áherslu á það að eftirlit verði skilgreint og fjármagn til þess tryggt áður en öryggisvistun tekur til starfa. Ekki þarf að hafa mörg orð um að frelsissvipting felur í sér mjög alvarlegt inngrip gagnvart afar mikilsverðum mannréttindum og leiðir til mikilla og margvíslegra skerðinga á ýmsum stjórnmálalegum, borgaralegum, efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum mannréttindum. Það er því mjög rík og skýr skylda á íslenska ríkinu að gæta þess afar vel að öll lög sem það setur, sem fela í sér frelsisviptingar fólks um lengri eða skemmri tíma, séu í fullu samræmi við skuldbindingar ríkisins samkvæmt fjölþjóðlegum mannréttindasamningum.

Samningur sameinuþjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Í þessu sambandi árétta samtökin sérstaklega skyldur íslenska ríkisins samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem ríkið fullgilti árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur, frumvarp um lögfestingu samningsins var til meðferðar á síðasta þingi og þá er í gangi af hálfu ríkisins sérstök landsáætlun um innleiðingu hans. Í samningnum er ýmis ákvæði sem hafa mjög mikla þýðingu m.t.t. þess máls sem hér er til umsagnar. Landssamtökin Þroskahjálp og Geðhjálp leggja því mjög mikla áherslu á að þess verði sérstaklega vel gætt við undirbúning, gerð, setningu og framkvæmd þeirra áforma um þá lagasetningu, sem hér er til umfjöllunar, sem og eftirlit með framfylgd þeirra laga að

taka fullt tillit til ákvæða samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, eins og íslenska ríkinu er skylt að gera, sbr. 4. gr. samningsins hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar. Þar segir:

1. Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi á grundvelli fötlunar.

Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:

a) að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningi þessum,

b) að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin,

Við undirbúning gerð og setningu þeirra laga sem hér eru til umsagnar verða stjórnvöld að gæta sérstaklega vel að skyldum, sem á þeim hvíla samkvæmt 14. gr samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hefur yfirskriftina Frelsi og öryggi einstaklingsins og hljóðar svo:

1. Aðildarríkin skulu tryggja að fatlað fólk, til jafns við aðra:

a)   njóti réttar til frelsis og persónulegs öryggis,

b)  sé ekki svipt frelsi sínu með ólögmætum hætti eða geðþóttaákvörðunum og að frelsissvipting í hvaða mynd sem er sé lögum samkvæmt og að fötlun skuli ekki undir neinum kringumstæðum réttlæta frelsissviptingu.

2. Sé fatlað fólk svipt frelsi sínu á einhvern hátt skulu aðildarríkin tryggja að því séu tryggð mannréttindi til jafns við aðra í samræmi við alþjóðleg mannréttindalög og að meðferð þesssamræmist markmiðum og meginreglum samnings þessa, meðal annars með því að tryggja því viðeigandi aðlögun.

Samningurinn leggur beinlínis blátt bann við hvers kyns nauðung og þvingun. Til þess að það megi takast leggja landssamtökin Þroskahjalp og Geðhjálp það til að jafnhliða vinnu við það frumvarp sem hér um ræðir verði ráðist í eftirfarandi aðgerðir:

Endurskoðum hugmyndafræði og innihald meðferðar

Hugmyndafræði og innihald meðferðar þarfnast endurskoðunar og færast nær 21. öldinni. Verum opin fyrir nýjungum við meðferð sem eru fjölmargar í löndunum í kringum okkur og má þar nefna Skjólshús, lyfjalausar deildir, opna samræðu (Open dialogue), fyrirfram gerðir samningar um meðferð o.fl. Húsnæði geðsviða LSH og SAK eru óhentug og löngu úr sér gengin. Fjölgum búsetuúrræðum og aukum fjölbreytni. Mikilvægt að ráðast í úrbætur jafnhliða því sem hugmyndafræði er endurskoðuð.

Þingið þarf að setja á laggirnar rannsóknarnefnd

Með ályktun 12. júní 2021 fól Alþingi forsætisráðherra að skipa nefnd til að undirbúa rannsókn á  aðbúnaði og meðferð fullorðins fólks með þroskahömlun og fullorðinna með geðrænan vanda. Forsætisráðherra skilaði Alþingi skýrslunni vorið 2022 en þar er gerð tillaga um að rannsókn fari fram samkvæmt fyrirmælum laga um rannsóknarnefndir, nr. 68/2011. Málið hefur ekkert þokast á þeim tíma. Það er kominn tími til að Alþingi ljúki þessari vinnu því við skuldum fjölmörgum einstaklingum, og fjölskyldum þeirra að horfast í augu við þau mannréttindabrot sem framin hafa verið.

Eflum samfélagsgeðþjónustu

Heilsugæslustöðvar og samfélagsgeðteymin verður að efla. Þjónusta á heimilum fólks og í nærumhverfi er það sem koma skal. Niðurgreiðsla sálfræði- og samtalsmeðferða er mikilvægur þáttur hér. Áherslur miða að því að það heyri til undantekninga í framtíðinni að þurfa að leggjast inn á geðdeild eða stofnanir en sé þess þörf verði þjónustan nútímaleg, þjónandi og framsækin.

Geðfræðsla í leik- og grunnskólum

Það er ein besta fjárfesting hvers samfélags að kenna börnum frá unga aldri um verndandi þætti geðheilbrigðis og hvernig hægt er að nýta þá í daglegu lífi. Mikilvægt er að geðrækt verði kennd á menntavísindasviði til að styðja við getu kennara við að miðla þessari fræðslu. Með því að hefast handa strax á unga aldri drögum við úr fordómum sem aftur dregur í árekstrum í framtíðinni.

Fjármögnum geðheilbrigðiskerfisins og samanburður

Í maí sl. kynnti ríkisstjórn Danmerkur og allir flokkar á danska þinginu sameiginlega fullfjármagnaða 10 ára áætlun í geðheilbrigðismálum. [3] Áætlunin er niðurstaða ítarlegrar greiningarvinnu á öllu kerfinu og þjónustu við alla aldurshópa á öllum stjórnsýslustigum. Ólíkt íslenskum aðgerðaráætlunum í geðheilbrigðismálum, sem Alþingi samþykkir reglulega hvar aðeins 10% aðgerða eru fjármagnaðar, fylgir fjármagn þessari dönsku áætlun. Framlög til geðheilbrigðismála í Danmörku munu aukast árlega um 19,2 milljarða eða um 35%. Í ár gera Danir ráð fyrir að setja 278 milljarða í málaflokkinn, sem heimfært á fólksfjölda á Íslandi, er rétt um 19 milljarðar. Til samanburðar, sýna tölur fengnar í skýrslu RND 2022, að áætla má að framlög til geðheilbrigðismála verði um 12,7 milljarðar á Íslandi í ár. [4] Þetta þýðir að í ár eru framlög til málaflokksins 50% hærri í Danmörku en hér og verða 79% hærri árið 2030 ef Ísland heldur áfram hækka framlög til málaflokksins aðeins um hluta hækkunar vísitölu neysluverðs. Miðað við smæð Íslands ættu framlög til geðheilbrigðismála í rauninni að vera 15% hærri en í Danmörku þar sem stærðarhagkvæmnin er okkur ekki í hag.

 

 

 

 

 

 

Að lokum

Við erum öll með geðheilsu rétt eins og við erum með hjarta. Setjum geðheilsu í forgang og réttum af kúrsinn. Umfang geðheilsutengdra verkefna innan heilbrigðiskerfisins er um 25-30% en fjármagnið sem rennur til þessara verkefna er samkvæmt úttekt Ríkisendurskoðunar um 4,7%. Með því að fjársvelta kerfið erum við að brjóta á mannréttindum fólks og draga úr möguleikum þess til að lifa góðu og innihaldsríku lífi. Það er kominn tími til að við tökum af skarið og stígum inni í 21. öldina.

 

Virðingarfyllst

fh. Landssamtakanna Geðhjálpar Svava Arnardóttir, formaður

fh. Landssamtakanna Þroskahjálpar Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður

 

Málið sem umsögnin fjallar um má finna hér

 

[1] „Faglært starfsfólk og eftirlit skortir í tveimur einkareknum úrræðum fyrir börn.“ Umboðsmaður Alþingis, 27. júní 2024. https://www.umbodsmadur.is/frettir/nanar/9483/faglaert-starfsfolk-og-eftirlit-skortir-med-tveimur-einkareknum-urraedum-fyrir-born

[2] „Heimsóknarskýrsla Stuðlar, meðferðarstöð ríkisins fyrir unglinga.“ Umboðsmaður Alþingis, 16. desember 2024, 8.

[3] „Regeringen fuldender 10-årsplan for psykiatrien med nyt udspil.” Innanríkis- og heilbrigðisráðuneyti Danmerkur. https://regeringen.dk/nyheder/2025/regeringen-fuldender-10-aarsplan-for-psykiatrien-med-nyt-udspil-1/

[4] „Geðheilbrigðisþjónusta – stefna, skipulag, kostnaður og árangur.“ Ríkisendurskoðun. https://www.rikisend.is/skyrslur/nanar?id=976