Ósk um upplýsingar varðandi þjónustu við fatlað fólk. Bréf sent félags- og húsnæðismálaráðherra

Félags- og húsnæðismálaráðherra,    

Hafnarhúsinu við Tryggvagötu,                                                                                                          

101 Reykjavík

 

   8. nóvember 2016

 

Efni: Ósk um upplýsingar varðandi þjónustu við fatlað fólk.

Eins og ráðuneytinu er kunnugt er í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks, með síðari breytingum, mælt fyrir um að ráðherra skuli hafa „eftirlit með framkvæmd laganna, þar á meðal að þjónusta, starfsemi og rekstur sveitarfélaga og annarra aðila samkvæmt lögum þessum sé í samræmi við markmið laganna, reglugerða og reglna settra samkvæmt þeim og að réttindi fatlaðs fólks séu virt.“

Í 1. gr. laganna nr. 59/1992, eins og henni var breytt með lögum nr. 152/2010, er kveðið á um að við framkvæmd laganna skuli „tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.“ Íslenska ríkið hefur nú fullgilt þann samning.

Í 31. gr. samnings SÞ um réttindi fatlað fólks er m.a. kveðið á um skyldu „ríkja til að safna viðeigandi upplýsingum, meðal annars tölfræðilegum gögnum og rannsóknargögnum, sem gera þeim kleift að móta og fram­fylgja stefnum samningi þessum til framkvæmdar“. Í greininni segir einnig: „Upplýsingar, sem er safnað samkvæmt þessari grein, skal sundurliða eftir því sem við á og nota til þess að meta hvernig aðildarríkjunum miðar að efna skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum og til að greina og ryðja úr vegi þeim hindrunum sem fatlað fólk stendur frammi fyrir þegar það hyggst nýta sér réttindi sín.“

Í 4. tl. skriflegrar fyrirspurnar um þjónustu við fatlað fólk á heimili sínu til félags- og húsnæðismálaráðherra á löggjafarþinginu 2013-2014 (þingskjal 65 – 65. mál)[1] var spurt:

Hefur verið kallað eftir upplýsingum um lengd biðtíma hjá þjónustuaðilum?

Í svari sínu við þeirri spurningu sagði ráðherra:

Ráðuneytið hefur ekki enn kallað eftir upplýsingum sem spurt er um í þessum lið fyrirspurnarinnar. Ráðuneytið hefur talið, með vísan til þeirra auknu krafna sem reglugerð 1054/2010 tilgreinir, að nauðsynlegt sé að hafa góða samvinnu við sveitarfélögin um að laga verklag þeirra að þeim kröfum sem reglugerðin gerir til þeirra. Ráðuneytið ákvað því að hefja samstarf við Hagstofu Íslands um að fá aðstoð við að kalla eftir svörum frá sveitarfélögunum við eftirfarandi spurningum með vísun í tilgreindar greinar reglugerðarinnar og verkefni í framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks 2012–2014.“

Í svari ráðuneytisins eru síðan tilgreindar eftirfarandi spurningar sem ráðuneytið hafði ákveðið að yrði kallað eftir svörum við frá sveitarfélögunum:

  1. Hvert er hlutfall fatlaðs fólks, 18 ára og eldra, sem er með samning um þjónustu? 
  2. Hvert er hlutfall fatlaðs fólks, 18 ára og eldra, sem er með einstaklingsbundna þjónustuáætlun? 

Með vísan til þess sem að framan er rakið óska Landssamtökin Þroskahjálp eftir upplýsingum um eftirfarandi:

Hvaða svör hafa borist frá sveitarfélögunum við þeim spurningum sem tilgreindar eru í svörum ráðherra við 4. tl. umræddrar fyrirspurnar?

Í 5. tl. umræddrar fyrirspurnar var spurt:

Hver hafa orðið afdrif umsókna um þjónustu eftir gildistöku reglugerðar nr. 1054/2010? Óskað er eftir sundurliðun samkvæmt eftirfarandi flokkun: 
                a.     Gengið frá samningum innan tólf mánaða frá því að umsókn barst. 
                b.     Umsækjendum tilkynnt að ekki væri hægt að ganga frá samningi innan tólf mánaða og því þyrfti að gera nýjan samning. 
                c.     Umsókn varð meira en tólf mánaða gömul án þess að gengið væri frá samningi eða haft samband við umsækjanda til að gera nýjan samning. 

 Svar ráðuneytisns við þessum liðum fyrirspurnarinnar er svohljóðandi:

Ráðuneytið hefur ekki haft möguleika á að afla svara við þessum lið fyrirspurnarinnar því til þess hefði þurft lengri tíma. Sveitarfélögin vinna nú að því að styrkja skráningu sína á þörfum fatlaðs fólks eftir að hafa að fullu tekið við ábyrgð á framkvæmd hennar. Ljóst er að um viðamikið verkefni er að ræða sem mun taka tíma. Það skal tekið fram að ráðuneytið hefur áætlanir um, í samráði við sveitarfélögin og Hagstofu Íslands, að bæta þessum spurningum inn á þann spurningalista sem Hagstofan mun leita svara við hjá sveitarfélögunum frá með 2014.

Með vísan til þess sem að framan er rakið óska Landssamtökin Þroskahjálp eftir upplýsingum um eftirfarandi:

Hefur fyrrgreindum spurningum verið bætt inn á þann spurningalista sem Hagstofan leitaði svara við hjá sveitarfélögunum frá og með 2014?

Hafi fyrrgreindum spurningum verið bætt við spurningalistann er óskað upplýsinga um hvaða svör hafa borist frá sveitarfélögunum við þeim.

Landssamtökin Þroskahjálp fara þess á leit við ráðuneytið að fá þær upplýsingar sem óskað er eftir í bréfi þessu eins skjótt og mögulegt er.

 

Virðingarfyllst,

 

__________________________________                       __________________________________  

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður                                      Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri



[1] http://www.althingi.is/altext/143/s/0165.html