Náið samráð stjórnvalda við fatlað fólk og virk þátttaka þess

Neðangreint bréf sent félags- og húsnæðismálaráðherra, innanríkisráðherra og Sambandi ísl. sveitarfélaga - afrit sent réttindavakt velferðarráðuneytis.

Eygló Harðardóttir,

félags- og húsnæðismálaráðherra,

                                                                                                                                              

       22. febrúar 2016

Efni: Náið samráð stjórnvalda við fatlað fólk og virk þátttaka þess.

Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er lögð sérstök áhersla á að stjórnvöld skuli hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, eftir atvikum með milligöngu samtaka, þegar þau undirbúa löggjöf og vinna að því að taka ákvarðarnir um stöðu fatlaðs fólks, sbr. 4. gr. samningsins.

Þá segir í 1. gr. laga, um málefni fatlaðs fólks, að við framkvæmd laganna skuli taka mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og að stjórnvöld skuli tryggja heildarsamtökum fatlaðs fólks og aðildarfélögum þeirra áhrif á stefnumörkum og ákvarðanir er varða málefni fatlaðs fólks.

Að mati Landssamtakanna  eru þessi ákvæði samningsins og laganna um samráð við fatlað fólk og virka þátttöku þess afar mikilvæg og mjög nauðsynlegt að þannig sé staðið að framkvæmd þeirra að samráðið og þátttakan tryggi sem best að reynsla og sjónarmið fatlaðs fólks heyrist mjög vel við greiningu viðfangsefna, stefnumörkun, ákvarðanatöku, setningu laga og reglna og alla stjórnsýsluframkvæmd sem varðar stöðu, hagsmuni og málefni fatlaðs fólks.

Rétt er að taka fram að íslensk stjórnvöld hafa oft haft samráð við fatlað fólk og samtök þess í samræmi við ofannefnd ákvæði samningsins og laganna og hefur oft verið ágætlega að því  samráði staðið.

Samtökin telja þó, í ljósi reynslunnar, tilefni til að árétta sérstaklega að til að þetta mikilvæga samráð skili örugglega því sem til er ætlast og nauðsynlegt er þarf það að fara þannig fram að það tryggi „virka þátttöku“ fatlaðs fólks. Til að svo megi verða er óhjákvæmilegt að líta til þess að fatlaðir einstaklingar sem taka beinan þátt í samráði af þessu tagi, s.s. þeir sem eru með þrokshömlun, þurfa mjög oft viðeigandi stuðning og aðstoð þegar þeir taka þátt í umræddu samráði við stjórnvöld. Að öðrum kosti er mikil hætta á að samráðið skili ekki því sem að er stefnt og þátttakan verði ekki virk eins og markmiðið hlýtur að vera og áréttað er sérstaklega í samningi Sameinuðu þjóðanna.

Þetta þýðir að ef stjórnvöld vilja tryggja að samráð og þátttaka fatlaðs fólks skili þeim árangri sem að er stefnt og sé í fullu samræmi við skyldur þeirra og réttindi fatlaðs fólks,  verða þau að sjá til þess að fatlað fólk sem tekur beinan þátt í samráði af þessu tagi, s.s. með því að sitja í nefndum, starfshópum, notendaráðum eða samráðshópum fái nauðsynlegan stuðning og aðstoð. Ef því fylgir kostnaður verða stjórnvöld að mæta þeim kostnaði, s.s. með því að greiða laun fólks sem tekur að sér að aðstoða fatlað fólk við nauðsynlegan undirbúning fyrir fundi, s.s. við að kynna sér gögn o.þ.h., semja álit og tillögur sem og við þátttöku á fundunum sjálfum þannig að um „virka þátttöku“ þess geti verið að ræða og til jafns við aðra eins og mælt er fyrir um í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

 Virðingarfyllst,

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar.

 Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar.

 

  Samrit sent:

Ólöf Nordal, innanríkisráðherra.

Samband íslenskra sveitarfélaga

 

 

Afrit sent:

Réttindavakt, velferðarráðuneytinu.