Bókun Landssamtakanna Þroskahjálpar við niðurstöðu nefndar um endurskoðun laga um almannatryggingar

Bókun Landssamtakanna Þroskahjálpar við niðurstöðu nefndar um endurskoðun laga um almannatryggingar
 
Landssamtökin Þroskahjálp lýsa sig sammála þeirri stefnumörkun sem fram kemur í tillögum nefndarinnar um einföldun á bótakerfi almanntrygginga, með fækkun bótaflokka, samræmingu á skerðingarhlutfalli vegna tekna og einföldun á frítekjumarki.
 
Landssamtökin Þroskahjálp hafa kynnt sér og eru efnislega sammála mörgum atriðum sem fram koma í séráliti Öryrkjabandalags Íslands. Samtökin telja hinsvegar að margt í tillögum nefndarinnar sé það mikilvægt að rétt sé að standa að nefndarálitinu með eftirfarandi bókun með það að leiðaljósi að á seinni stigum megi leiðrétta augljósa galla á tilllögunum.
 
Efnislegar athugasemdir.
 
Fulltrúi Landssamtakanna Þroskahjálpar í endurskoðunarnefndinni hefur margítrekað að sú einföldun sem hægt væri að ná fram á lífeyrisbótakerfinu mætti ekki leiða til þess að núverandi almanntryggingakerfi gegndi síður því hlutverki sínu að tryggja fólki með engar eða litlar tekjur, aðrar en bætur almannatrygginga, viðunandi lífskjör. Einnig hefur fulltrúi samtakanna lagt áherslu á mikilvægi þess að tryggingabótakerfið virki atvinnuhvetjandi fyrir alla.
Í þeim tillögum sem nú liggja fyrir er gert ráð fyrir því að afnema öll frítekjumörk, þar með talið frítekjumark vegna atvinnutekna. Um 1000 öryrkjar eru með atvinnutekjur á bilinu 1-100 þús. kr. á mánuði skv. upplýsingum frá TR frá í september 2015. Þær hugmyndir sem fram hafa verið settar um einhvers konar sérreglu/ákvæði til bráðbirgða til að tryggja að þessir einstaklingar beri ekki minna úr býtum en þeir hafa samkvæmt núgildandi reglum. Slíkt ákvæði er alsendis ófullnægjandi að mati samtakanna, ekki síst í því ljósi að nýtt almannatryggingakerfi skv. tillögum nefndarinnar mun kosta umtalsvert meira en núverandi kerfi. Verði tillögur nefndarinnar að lögum eins og þær liggja fyrir mun ekkert af þeim kostnaðarauka gagnast þessum einstaklingum. Landssamtökin Þroskahjálp samþykktu umtalverða lækkun á á aldurtengdu uppbót almannatrygginga enda kæmi hún ofan á hinn nýja bótaflokk. Verði hugmyndir nefndarinnar að veruleika verða þeir sem hafa aldurstengda uppbót jafnsettir og þeir eru í dag ef þeir hafa um 50 þús. kr. í atvinnutekjur .
 
Landssamtökin Þroskahjálp geta ekki staðið að tillögu sem hefur þessar afleiðingar og leggja samtökin til að viðhaldið verði frítekjumarki vegna atvinnutekna hjá öryrkjum.
 

Þeir einstaklingar sem hafa atvinnutekjur undir 100 þús. krónum hafa í langflestum tilvikum svo skerta starfsgetu að þeir munu ekki fara á hlutabætur og geta því ekki nýtt sé það svigrúm gagnvart atvinnutekjum sem því fylgir. Samt sem áður er fyllsta ástæða til að hafa reglur þannig að þær séu hvetjandi fyrir þennan hóp til atvinnuþátttöku, eftir getu hvers og eins. Þeim sjálfum og samfélaginu til góðs. Hér er um að ræða fólk sem, oft með töluverðri fyrirhöfn, er að reyna að taka þátt á vinnumarkaði og einnig fólk sem stundar vinnu á vernduðum vinnustöðum sem hluta af starfsþjálfun og almennri endurhæfingu. Einnig ber að hafa í huga að margir einstaklingar sem eru á leið út á vinnumarkað byrja í hlutastörfum þegar þeir fara að feta sig til aukinnar atvinnuþátttöku. Það er augljóslega letjandi og ósanngjarnt að þeim mæti skerðingar upp á 52.5-45% og síðan sköttun sem

samtals þýðir um 70% skerðingu á atvinnutekjum. Einnig má benda á að samkvæmt tillögum um nýtt
húsnæðisbótakerfi munu eftirstöðvar þessara tekna síðan skerða greiðslur húsnæðisbóta um 8% .
Einnig verður í þessu sambandi að líta til þess að umtalsverður kostnaður fylgir því að koma sér til og
frá vinnu, auk annarss kostnaðar sem oft fylgir atvinnuþátttöku.
 
Samtökin styðja þá tillögu nefndarinnar að tekið sé upp starfsgetumat með virkri starfsendurhæfingu
og greiðslu hlutabóta. Landssamtökin Þroskahjálp leggja áherslu á að sett verði
endurskoðunarákvæði í þá tillögu þar sem nauðsynlegt er að taka til skoðunar í ljósi reynslunnar
mörg atriði tengd upptöku nýs fyrirkomulags. Reynsla annarra þjóða, t.d. Dana, af því að taka upp
nýtt kerfi er sú að við svo mikla breytingar koma í ljós ýmis atriði sem þarfnast endurskoðunar.
 
Reykjavík 12. febrúar 2016
 
F.h. Landssamtakanna Þroskahjálpar
 
Friðrik Sigurðsson, fulltrúi Landssamtakanna Þroskahjálpar í nefndinni
Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar