Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um grænbók um mannréttindi

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um grænbók um mannréttindi                 

    13. febrúar 2023

Landssamtökin Þroskahjálp fagna ákvörðun forsætisráðherra um gerð grænbókar um mannréttindi og vilja á þessu stigi sérstaklega koma eftirfarandi á framfæri við við ráðherra og forsætisráðuneytið.  

Samtökin lýsa miklum vilja til samstarfs og samráðs við ráðuneytið við það mikilvæga verkefni. Í því sambandi vekja samtökin sérstaklega athygli á samráðsskyldum stjórnvalda samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem íslenska ríkið fullgilti árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja. Samráðsskyldurnar eru áréttaðar sérstaklega í 4. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina “almennar skuldbindingar” og í 33. gr. hans sem hefur yfirskriftina “Framkvæmd og eftirlit innanlands”.

3. mgr. 4. gr. samningsins er svohljóðandi:

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

Mjög mikilvægt er að við þetta samráð verði þess sérstaklega gætt að taka fullt tillit aðstæðna og þarfa fatlaðs fólks, þ.m.t. fólks með þroskahömlun eða skyldar fatlanir og að sérstaklega verði hugað að viðeigandi aðlögun til að tryggja að fólki verði ekki mismunað á grundvelli fötlunar hvað varðar tækifæri til að taka virkan þátt í gerð grænbókarinnar og að koma reynslu sinni og sjónarmiðum á framfæri á öllum stigum þeirrar vinnu.

Landssamtökin Þroskahjálp fagna því að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sé því lýst yfir að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur og „stofnuð ný Mannréttindastofnun“ og leggja mikla áherslu á að skýrt komi fram hvenær því verði lokið. Í því sambandi er óhjákvæmilegt að benda á að Alþingi samþykkti þingsályktun mótatkvæðalaust 3. júní 2019 um að „frumvarp, sem feli í sér lögfestingu samningsins og aðlögun íslenskra laga að honum, verði lagt fram á Alþingi með það að markmiði að samningurinn verði lögfestur eigi síðar en 13. desember 2020.“ (Þingskjal 1690  —  21. mál.). Þá féll sú þjóðréttarlega skylda á íslenska ríkið við fullgildingu samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 að stofna sjálfstæða mannréttindastofnun, sem uppfyllir skilyrði Parísar-meginreglnanna til að hafa eftirlit með að fatlað fólk njóti þeirra mannréttinda sem samningurinn áréttar og ver, sbr. 3. gr. 33. gr. samningsins. Nú, meira en 6 árum síðar, hefur það ekki enn verið gert. 

Samtökin hvetja forsætisráðherra til að beita sér fyrir því að valkvæður viðauki við samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks verði tafarlaust fullgiltur. Alþingi samþykkt mótatkvæðalaust 20. september 2016 að valkvæður viðauki við samninginn skyldi fullgiltur fyrir árslok 2017 (Þingskjal 1693  —  865. mál) Það hefur þó ekki enn verið gert. Þessi framkvæmd eða öllu heldur framkvæmdarleysi af hálfu íslenskra stjórnvalda hlýtur að vekja efasemdir um áhuga og skilning þeirra á brýnni nauðsyn þess að bæta vernd mannréttinda fatlaðs fólks, heldur lýsir þetta verulegu virðingarleysi framkvæmdavaldsins gagnvart vilja Alþingis.

Með aðild Íslands að valfrjálsa viðaukanum opnast kæruleið fyrir fatlað fólk, sem telur að íslensk stjórnvöld hafi ekki veitt þeim þann rétt sem þeim ber að fá samkvæmt samningnum og hefur fullreynt að ná fram rétti sínum innan íslenska stjórn- og dómskerfisins, án árangurs. Með fullgildingu valfrjálsa viðaukans verður virkara aðhald um að framfylgja samningnum, réttaröryggi fatlaðs fólks eykst og mannréttindi þess verða betur varin. 104 ríki hafa nú fullgilt valkvæða viðaukann.

https://treaties.un.org/pages/ViewDetails.aspx?src=IND&mtdsg_no=IV-15-a&chapter=4&clang=_en

Viðauki 12 við Mannréttindasáttmála Evrópu var lagður fram til undirritunar í nóvember árið 2000. Viðaukinn öðlaðist gildi í apríl árið 2005 þegar 10 ríki höfðu fullgilt hann. Nú hafa 20 ríki fullgilt viðaukann.

Vernd 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu gegn mismunun er takmörkuð við svið sáttmálans, þ.e. mismununin verður að vera tengd við þau réttindi sem lýst er í sáttmálanum sjálfum. Þar er því ekki um almenna jafnræðisreglu að ræða. Með viðauka 12 við sáttmálann er bætt úr því með því að kveða á um bann við mismunun á öllum réttarsviðum. Í skýringum með viðaukanum er gerð nánari grein fyrir því hvernig viðaukinn víkkar út bann við mismunun. Þar segir m.a. að samkvæmt viðaukanum nái bannið til hvers konar réttinda sem veitt eru einstaklingum að landsrétti.

Einstaklingar sem telja sig verða fyrir ólögmætri mismunun hvað varðar réttindi sem sáttmálinn tekur ekki til og hafa tæmt innlendar leiðir til að ná fram rétti sínum geta ekki skotið máli sínu til Mannréttindadómstóls Evrópu, nema hlutaðeigandi ríki hafi fullgilt viðauka 12. Með því að fullgilda viðaukann er íbúum á Íslandi, þ.m.t. talið fötluðu fólki, því veitt betri vernd gegn mismunun. Erfitt að skilja að íslensk stjórnvöld skuli ekki hafa fullgilt viðaukann til að veita fólki, þ.m.t. fötluðu fólki, þá viðbótarvernd og leggja þannig um leið sitt af mörkum til stuðla að framþróun mannréttinda í Evrópu.

Þá hefur íslenska ríkið ekki fullgilt viðauka við samning Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.Landssamtökin Þroskahjálp hvetja forsætisráðherra til að beita sér fyrir því að það verði gert, eins fljótt og nokkur kostur er, þar sem þau teja mikilvægt að bæta verulega eftirlit með mannréttindum fatlaðs fólks á Íslandi og myndi fullgilding viðaukans og sú kæruleið sem þá opnaðist fyrir fatlað fólk vera mikilvægur þáttur í því.

Lög nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði og lög nr. 85/2018, um jafna meðferð utan vinnumarkaðar, eins og þeim var breytt með lögum nr. 63/2022, var mikil réttarbót fyrir fatlað fólk. Það vantar þó mjög mikið á að kynning laganna, eftirlit með þeim og framfylgd sé fullnægjandi, almennt og sérstakelga m.t.t. fólks með þroskahömlun og skyldar fatlanir sem þarf vegna fötlunar sinnar mjög á stuðningi að halda til að fá notið lögbundinna réttinda og viðeigandi aðlögunar á öllum sviðum samfélagsins, eins og lögin mæla fyrir um. 

Þá er brýnt að í þessi lög verði sett fullnægjandi ákvæði sem banna mismunun vegna tengsla (e. discrimination by association), s.s. við fatlaða einstaklinga, sem og ákvæði sem banna mismunun á grundvelli skynjunar eða skilnings (e. discrimination by perception). Með mismunun á grundvelli skynjunar eða skilnings er átt við þegar einstaklingi er mismunað vegna þess að hann er talinn tilheyra tilteknum hópi, s.s. talinn vera fatlaður, samkynhneigður, tiltekinnar trúar o.s.frv.

Þá er óhjákvæmilegt að benda á og gagnrýna að fötlun skuli ekki vera tilgreind sem ólögmæt mismununarástæða í jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Sama á við um jafnræðisreglur stjórnsýslulaga, laga um réttindi sjúklinga og fleiri laga þar sem augljóst er að mjög mikilvægt er að bann við mismunun á grundvelli fötlunar sé mjög skýrt. Samtökin árétta því hér þá tillögu sína og áskorun til stjórnvalda að fötlun verði sérstaklega tilgreind í jafnræðisreglum stjórnarskrár og þessara og fleiri laga.

Sú skylda hefur hvílt á Íslenska ríkinu frá fullgildingu þess á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016, þ.e. í meira en sex ár, að koma á fót sjálfstæðri innlendri mannréttindastofnun, sem uppfyllir svokölluð Parísarviðmið (e. Paris Principles) til að hafa eftirlit með mannréttindum fatlaðs fólks. Samtökin telja að það eftirlit, sem nú er hér landi með því að fatlað fólk njóti þeirra mannréttinda, sem áréttuð eru og varin í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sé engan veginn fullnægjandi. Að mati samtakanna er það eftirlit ómarkvisst og brotakennt og alls ekki nægilega óháð félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, sveitarfélögum og fleiri stjórnvöldum, sem bera mesta ábyrgð lögum samkvæmt á að veita fötluðu fólki nauðsynlegan stuðning og þjónustu til að það geti notið þeirra mannréttinda sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að veita og tryggja.

4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar. Í 3. mgr. greinarinnar segir:

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd. (Feitletr. og undirstr. Þroskahj.).

Þessi skylda til að hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess á augljóslega við um stofnun sjálfstæðrar mannréttindastofnunar og setningu laga og reglna varðandi hana, að mati Þroskahjálpar, enda er þjóðréttarlega skyldan á íslenska ríkinu til að setja á fót slíka stofnun í samningnum, eins og fyrr sagði.

Mjög mikilvægt er að við þetta samráð verði þess sérstaklega gætt að taka fullt tillit aðstæðna og þarfa fatlaðs fólks, þ.m.t. fólks með þroskahömlun eða skyldar fatlanir og að sérstaklega verði hugað að viðeigandi aðlögun til að tryggja að fólki verði ekki mismunað á grundvelli fötlunar hvað varðar tækifæri til að taka virkan þátt og að koma reynslu sinni og sjónarmiðum á framfæri á öllum stigum þeirrar vinnu.

Landssamtökin Þroskahjálp leggja mikla áherslu á að við stofnun sjálfstæðrar mannréttindastofnunar, setningu laga og reglna varðandi hana, skipulag hennar og staðsetningu í stjórnkerfinu verði litið sérstaklega til þess sem best hefur gefist í öðrum ríkjum þar sem slíkar stofnanir eru, almennt og sérstaklega m.t.t. framfylgdar og verndar mannréttinda fatlaðs fólks.

Í lögum nr. 88/2011, með síðari breytingum, er kveðið á um réttindagæslu fyrir fatlað fólk. Sú réttindagæsla er, eins og reynslan hefur sýnt og mörg dæmi sanna, gríðarlega mikilvæg til að þessi berskjaldaði hópur fólks fái notið mannréttinda og tækifæra sem hann á rétt á samkvæmt lögum og samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks og fái til þess nauðsynlegan og viðeigandi stuðning.

Réttindagæslan er hluti af félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Sú staðsetning þessa mikilvæga eftirlits í stjórnkerfinu samræmist engan veginn kröfum, sem í réttarríki verður að gera til að eftirlit af þessu tagi sé óháð stjórnvöldum, sem það beinist oft að, beint eða óbeint. Trúverðugleiki eftirlitsins er þar í húfi. Þessi staðsetning réttindagæslunnar er ekki heldur í neinu samræmi við kröfur sem hvíla á íslenska ríkinu að tryggja sjálfstætt og óháð eftirlit með að fatlað fólk njóti mannréttinda til jafna við aðra, eins og kveðið er á um í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

Landssamtökin Þroskahjálp skora því að ríkisstjórnina, forsætisráðuneytið og Alþingi að koma réttindagæslunni sem fyrst undir sjálfstæða mannréttindastofnun. Samtökin telja að það megi vel gera mjög fljótt, þar sem skipulag og verkefni réttindagæslunnar er með þeim hætti að það krefst alls ekki flókinna eða tímafrekra breytinga á lögum, reglum og/eða stjórnkerfi.

 

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 

Nálgast má mál sem umsögnin á við hér.