Yfirlýsing vegna breytinga talsmannaþjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd

Mynd: Ahmed Akacha, Pexels.
Mynd: Ahmed Akacha, Pexels.

Landssamtökin Þroskahjálp sendu í vikunni erindi til dómsmálaráðuneytis, Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála vegna breytingar sem á að gera á  talsmannaþjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd. Dómsmálaráðuneytið tók ákvörðun um að segja einhliða upp samningum við Rauða krossinn á Íslandi sem sinnt hefur talsmannaþjónustu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd um árabil. Nú liggur fyrir að sú reynsla sem orðið hefur til hjá Rauða krossinum verður ekki nýtt við endurskipulagningu málaflokksins. 

Samkvæmt auglýsingu Útlendingastofnunar á talsmannaþjónustunni er ekki gerð krafa um að þeir sem sinna munu talsmannahlutverkinu í framtíðinni hafi þekkingu á málefnum fatlaðs fólks né heldur á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í ljósi þess hversu berskjaldaðir fatlaðir umsækjendur um alþjóðlega vernd eru, og þá mikilvægu hagsmuni og mikilsverðu mannréttindi sem eru í húfi, lýsir Þroskahjálp yfir miklum áhyggjum af þessum breytingum sem virðast mjög illa undirbúnar og mótmæla samtökin því hvernig að þeim er staðið af hálfu stjórnvalda.

Yfirlýsing Landssamtakanna Þroskahjálp vegna breytinga talsmannaþjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd.

Reykjavík 7. mars 2022
Dómsmálaráðuneytið, Sölvhólsgötu 7, 101 Reykjavík

Afrit:
Forstjóri Útlendingastofnunar
Formaður kærunefndar útlendingamála

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa þungum áhyggjum vegna þeirrar stöðu sem komin er upp í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd á Íslandi.  Dómsmálaráðuneytið tók einhliða ákvörðun um að segja upp samningum við Rauða krossinn á Íslandi sem sinnt hefur talsmannaþjónustu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd um árabil og nú liggur fyrir að sú reynsla sem orðið hefur til hjá Rauða krossinum verður ekki nýtt við endurskipulagningu málaflokksins.  Landssamtökin Þroskahjálp átelja þetta vinnulag harðlega, enda með öllu óskiljanlegt að dýrmæt þekking á viðkvæmum málaflokki sé ekki nýtt til að tryggja réttindi og hagsmuni fólks sem sækir um alþjóðlega vernd, svo sem skylt er að gera samkvæmt alþjóðasamningum.

Nýverið birti Útlendingastofnun auglýsingu og býður “hæfum aðilum að skila inn umsóknum til að sinna hlutverki talsmanns.” Hæfniskröfur gera ráð fyrir lögfræðiprófi, þekkingu á málum er lúta að alþjóðlegri vernd og flóttafólki, reynslu og haldbærri þekkingu á stjórnsýslurétti og þekkingu á Barnasáttmálanum “í þeim tilvikum sem um ræðir fylgdarlaust barn.” Landssamtökin Þroskahjálp líta það alvarlegum augum að einungis sé gerð krafa um þekkingu á Barnasáttmálanum í tilvikum fygldarlausra barna þar sem öll börn eiga ávallt rétt á því að njóta verndar, réttinda og stuðnings  samkvæmt ákvæðum samningsins. Þá telj samtökin það algjörlega og fullkomlega óviðunandi að ekki sé gerð krafa um þekkingu á málefnum fatlaðs fólks og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, í ljósi þess að reynslan sýnir svo að ekki verður um villst að verulegur hluti umsækjenda um alþjóðlega vernd er fatlað fólk í skilningi laga.

Þá gagnrýna samtökin harðlega það vinnulag sem lýst er í ákvæði um faglegt skilamat, en þar segir að Útlendingastofnun muni leggja mat á frammistöðu talsmanna. Augljóst hlýtur að vera að mjög óeðlilegt og fullkomlega ótrúverðugt er að Útlendingastofnun sé sjálfri falið þetta mat. Verkefni talsmanna hlýtur eðli máls samkvæmt óhjákvæmilega oft að fela í sér, beint og óbeint, gagnrýni á meðferð mála hjá Útlendingastofnun og ákvarðanir stofnunarinnar. Ekki er víst að gagnrýni af því tagi falli í kramið hjá stofnuninni, stjórnendum hennar og hlutaðeigandi starfsfólki og getur hún því augljóslega haft áhrif á hvernig stofnunin metur frammistöðu talsmanna og/eða verið réttmæt ástæða til að draga megi hlutlægni hennar við það mat í efa. 

Undanfarin misseri hafa æ fleiri mál sem varða fatlaða umsækjendur um alþjóðlega vernd komið inn á borð Þroskahjálpar. Fyrir fáeinum vikum óskuðu samtökin eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun um fjölda fatlaðra umsækjenda síðastliðin tvö ár, sundurliðað eftir eðli og niðurstöðu máls. Í svörum frá stofnuninni kom fram að ekki væri unnt að veita slíkar upplýsingar þar sem fötlun er ekki breyta í tölfræði sem safnað er. Fötlun virðist því ekki vera eitthvað sem horft er til við afgreiðslu umsókna, svo sem skylt er að gera samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks sem íslenska ríkið fullgilti árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að virða og framfylgja. Það virðist endurspeglast í auglýsingu eftir talsmönnum til að fara með málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd að hlutaðeigandi stjórnvöld telji af einhverjum ástæðum ekki tilefni til að gefa samningnum það vægi við meðferð mála og ákvarðanir í þeim sem íslenska ríkið hefur þó skuldbundið sig til að gera.  

Í mörgum þessara mála umsækjenda um alþjóðlega vernd sem Landssamtökin Þroskahjálp hafa komið að telja þau að málsmeðferð stjórnvalda hafi alls ekki verið fullnægjandi eða í samræmi við þær skyldur sem leiða af samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Í nær öllum tilvikum hefur það verið Rauði krossinn eða umsækjendur sjálfir sem hafa leitað til samtakanna eftir ráðgjöf og stuðningi. Í ljósi þess hversu gríðarlega berskjaldaðir fatlaðir umsækjendur um alþjóðlega vernd eru hafa Landssamtökin Þroskahjálp ítrekað lýst yfir áhyggjum af þessu. Haldnir hafa verið fundir með Útlendingastofnun, dómsmálaráðuneyti, Kærunefnd útlendingamála og öðrum þeim aðilum sem bera ábyrgð á málaflokknum. Á þessum fundum hefur af hálfu þessara stjórnvalda verið lýst skilningi á mikilvægi þess að taka betur tillit réttidan, aðstæðna og þarfa til fatlaðs fólks. Sá skilningur endurspeglast þó alls ekki í þeim ráðstöfunum stjórnvalda sem hér er um fjallað. Þá hafa samtökin boðist til samráðs og samtals við hlutaðeigandi stjórnvöld til að tryggja að fatlaðir umsækjendur njóti þeirra réttinda og verndar sem stjórnvöldum er skylt að veita. Því hefur verið vel tekið af þeirra hálfu en þau hafa þó ekki sé ástæðu til að leita umsagnar hjá Þroskahjálp um þær breytingar sem til standa. Í því sambandi skal bent á að í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks er mælt fyrir um skyldur stjórnvalda til samráðs við fatlað fólk og samtök sem vinna að hagsmuna- og réttindamálum þess þegar stjórnvöld taka ákvarðanir sem geta haft veruleg áhrif á aðstæður og réttindi fatlaðs fólks.

Í ljósi ofangreinds ítreka Landssamtökin Þroskahjálp því áhyggjur sínar af þeirri stöðu sem komin er upp í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd og krefjast þess að fram fari endurskoðun á málaflokknum með hagsmuni og réttindi fatlaðra umsækjenda að leiðarljósi. 

 

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar