Mikilvægt skref í átt að lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

AUÐLESIÐ

Guðmundur Ingi Guðbrandsson er félags- og vinnumálaráðherra.

Hann hefur búið til hóps fólks sem vinnur saman að plani um að innleiða samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks á auðlesnu máli er hægt að lesa hér.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar, er hluti af þessum hópi.

Þroskahjálp eru ánægð með að þessi hópur sé til.

„Þetta er mikilvægt skref í átt að því að fatlað fólk fái sömu tækifæri og aðrir“ segir Árni Múli, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar.

Það er mikilvægt að það sé hlustað á fatlað fólk í þessari vinnu.

Þroskahjálp finnst mjög mikilvægt að fólk með þroskahömlun fái aðstoð til þess að geta tekið þátt í þessu verkefni.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur tilkynnt um skipun verkefnastjórnar um gerð landsáætlunar um innleiðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Í frétt Stjórnarráðsins segir að landsáætlunin sé liður í lögfestingu samningsins hér á landi og fær verkefnastjórnin það hlutverk að skilgreina markmið landsáætlunarinnar ásamt því að setja niður mælikvarða og viðmið sem verða notuð við að meta árangur og framvindu.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar, á sæti í verkefnastjórninni en meira um verkefnastjórnina og hlutverk hennar er hægt að lesa á vefsíðu Stjórnarráðsins hér.

Landssamtökin Þroskahjálp fagna því að ríkisstjórnin skuli ráðast í þetta mikilvæga verkefni og þakka Guðmundi Inga, félags- og vinnumarkaðsráðherra, fyrir það frumkvæði sem hann hefur sýnt í þessu máli.

„Þessi mikilvægi mannréttindsamningur er mjög öflugt tæki til að bregðast við því mikla og ömurlega óréttlæti sem fatlað fólk býr oft við. Þetta er skref í þá átt að breyta samfélaginu þannig að fatlað fólk verði ekki á valdlaus og jaðarsettur hópur í samfélaginu, aðgreindur og oft ósýnilegur, heldur fullgildir þátttakendur með sömu tækifæri og aðrir.“ segir Árni Múli, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar.

Það er ljóst að mikil og mikilvæg vinna er framundan og við hjá Þroskahjálp treystum því að verkefnið verði unnið í nánu samráði við fatlað fólk og með virkri þátttöku þess, eins stjórnvöld hafa lýst yfir og er skylt að gera samkvæmt samningi Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þroskahjálp leggur sérstaka áherslu á að í þessu mikilvæga verkefni fái fólk með þroskahömlun eða skyldar fatlanir viðeigandi stuðning til þess að hafa áhrif.