Vegna umræðu um skerðingar á framlögum til jöfnunarsjóðs.

 

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa yfir miklum áhyggjum af þeirri togstreitu og ágreiningi milli ríkis og sveitarfélaga sem hefur á undanförnum dögum endurspeglast í fréttaflutningi varðandi framlög til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

 Þjónusta við fatlað fólk með miklar og langvarandi stuðningsþarfir er fjármögnuð í gegnum jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Í lok árs 2015 var gengið frá samkomulagi milli ríkis og sveitarfélaga og lýstu báðir aðilar þá yfir ánægju með það. Samkomulagið og yfirlýsingar forsvarmanna ríkis og sveitarfélaga varðandi það var ekki hægt að skilja öðru vísi en svo að þar með væri séð fyrir nægilegu fjármagni til að tryggja að þjónusta við fatlað fólk uppfyllti lagaskyldur og þær skyldur ríkis og sveitarfélaga sem leiða af fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

 

Það er því mjög mikil vonbrigði og áhyggjuefni að enn og aftur sé kominn upp ágreiningur um þessi mál með allri þeirri óvissu sem því fylgir fyrir fatlað fólk, þar sem stjórn sambandsins sér ástæðu til að mótmæla boðuðum niðurskurði á fjárveitingum til jöfnunarsjóðs. Íslenska ríkið hefur með lagasetningu og fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks viðurkennt rétt fatlaðs fólks til þjónustu og ber ábyrgð á því að fjármagn sé tryggt til að svo megi vera. Að skapa þannig enn og aftur óvissu og óöryggi hjá fötluðu fólki sem er oftast mjög háð þjónustu til að geta tekið þátt í samfélaginu og notið mannréttinda eins og aðrir landsmenn er mjög ámælisvert og löngu mál að því linni.

 

Stjórnvöld samþykktu í maí 2017 framkvæmdaáætlun málefnum fatlaðs fólks þar sem í aðgerð F.6. er fjallað um áhrif fjárveitinga til félags-, heilbrigðis- og menntamála á líf fatlaðs fólks. Þar er gert ráð fyrir því að við fjárlagagerð verði skoðað hvernig fjárveitingar koma við fatlað fólk eins og gert er í kynjaðri fjárlagagerð með kynjajafnrétti í huga. Áhrif útgjaldabreytinga á sviði velferðar, heilbrigðis og menntunar á stöðu og líf fatlaðs fólks verði skoðuð. Það er lágmarkskrafa að framkvæmdavaldið fari að þessum skýru tilmælum Alþingis og taki ekki til umfjöllunar mögulegar skerðingar á fjármagni til þjónustu við fatlað fólk án þess að skoðað hafi verið hvaða áhrif það hefur á líf fatlaðs fólks!

 

Reykjavík 19. mars 2019

 

Bryndís Snæbjörnsdóttir formaður