Ungmennaráð ályktar um menntamál og strætó

Annar fundur ungmennaráðs Landssamtakanna Þroskahjálpar fór fram þann 6. febrúar. Fundurinn var vel sóttur og er mikill baráttuhugur í ráðinu!

Ungmennaráð Þroskahjálpar samþykkti á fundi sínum tvær ályktanir sem snúa að þingsályktunartillögu um menntastefnu og strætó samgöngur við Hitt húsið.

 

Hér að neðan má lesa ályktanirnar í heild:


Ábendingar varðandi drög að þingsályktunartillögu um menntastefnu frá ungmennaráði Þroskahjálpar:

 

Á fundi ungmennráðs Þroskahjálpar sem haldinn var 6. febrúar 2020 var fjallað um drög að nýrri menntastefnu. Eftirfarandi ályktun var samþykkt samhljóða:

Ungmennaráð Þroskahjálpar fagnar sérstaklega þeirri áherslu sem er á að Allir hafi jöfn tækifæri til menntunar í drögum að menntastefnu.

  • Ungmennaráðið tekur heilshugar undir að stuðla þurfi að vitundarvakningu um mikilvægi menntunar og jafnra tækifæra til náms og tryggja jafnræði betur í framtíðinni en nú er gert.

  • Ungmennaráðið er mjög sammála því að jöfn tækifæri til menntunar feli í sér tilboð um menntun við hæfi, sem tekur mið af getu og áhugasviði nemenda, og að hæfilegar væntingar séu gerðar til nemenda í náminu.

  • Ungmennaráð Þroskahjálpar leggur áherslu á að þess sé vandlega gætt að þarfir nemenda með þroskahömlun og/eða aðrar skerðingar séu ígrundaðar sérstaklega við mótun stefnunnar og að í stefnunni verði tekið tillit til þeirra með skýrum hætti.

  • Ungmennaráðið vill koma eftirfarandi ábendingum sérstaklega á framfæri við Lilju Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra:
  1. Við mótun nýrrar menntastefnu er mikilvægt að leggja áherslu á fjölbreyttara námsúrval fyrir fólk með þroskahömlun /eða aðrar skerðingar til að tryggja í raun jafnrétti til náms sem miðast við getu, hæfni og áhugasvið hvers og eins.

  2. Við bendum á að stúdentspróf er lykill að frekara námi og framtíð. Fólk með þroskahömlun fær ekki stúdentspróf við útskrift af starfsbrautum og er því augljóslega mismunað um margvísleg tækifæri til menntunar. Þetta hefur mikil áhrif á möguleika til frekari menntunar og margs konar tækifæri okkar alla framtíð, s.s. til atvinnu og til að afla okkur tekna, til að eiga möguleika til að eignast heimili og taka virkan þátt í samfélaginu á öllum sviðum til jafns við aðra. Bráðnauðsynlegt er því að tryggja raunhæf tækifæri fólks með þroskahömlun og/eða aðrar skerðingar til framhaldsmenntunar við hæfi. Mikilvægt er að það komi skýrt fram í menntastefnunni.

  3. Við skorum á menntamálaráðherra að huga sérstaklega að því að veita nemendum með þroskahömlun og/eða aðrar skerðingar nám og þjálfun sem tryggir rétt þeirra til að taka þátt í samfélagi sem er að breytast og gera þeim kleift að taka virkan þátt í að takast á við og leysa mikilvæg viðfangsefni sem nemendur og samfélagið allt munu standa frammi fyrir í framtíðinni og sérstaklega er talað um í menntastefnunni, s.s. breytingar á vinnumarkaði með fjórðu iðnbyltingunni og loftslagsmál.

  4. Þá beinum við þeim tilmælum til menntamálaráðherra að hugað verði að því að skapa ungu fólki með þroskahömlun og/eða aðrar skerðingar, sem búsett eru utan höfuðborgarsvæðis, tækifæri til náms á háskólastigi eftir útskrift úr framhaldsskóla með því að tryggja með einhverjum hætti búsetuúrræði með stuðningi. Eins og staðan er í dag eiga þeir sem búa utan höfuðborgarsvæðis ekki kost á slíku námi sem er augljós mismunun á grundvelli búsetu.

Að lokum vill Ungmennaráð Þroskahjálpar koma því á framfæri við menntamálayfirvöld að við höfum mikinn áhuga og vilja til að taka þátt samráði og umræðu við þau um hugmyndir okkar og áherslur varðandi framtíðarskipan menntamála fyrir fólk með þroskahömlun.

Virðingarfyllst,

Ungmennaráð Þroskahjálpar

 

 


Ábending ungmennaráðs Þroskahjálpar til Strætó um stoppistöð við Hitt húsið.

 

Ungmennaráð Þroskahjálpar vill beina þeim tilmælum til stjórnar Strætó að bæta strætósamgöngur við Hitt húsið í Elliðárdal. Hitt húsið er eini staðurinn í borginn þar sem fatlað fólk getur sótt í frístundastarf eftir skóla og því er þetta sérlega mikilvægt fyrir þennan hóp.

Hitt Húsið býður upp á skólatengt frístundaúrræði fyrir ungmenni með fötlun sem stunda nám á  starfsbrautum framhaldsskólanna. Meginmarkmið starfsins er að stuðla að virkni og félagslegri þátttöku ungmenna í frístundum. Í starfinu er nærumhverfið notað að þjálfa ungmennin í sjálfstæði, félagsfærni og samskiptafærni. Starfsemin byggir á einstaklingsmiðaðri þjónustu þar sem reynt er að vinna með styrkleika hvers og eins og ávallt er reynt að koma til móts við ólíkar þarfir og áhuga ungmennanna.

Áhersla er lögð á að skapa vettvang þar sem ungt fólk hittist og fær tækifæri til þátttöku í öflugu frístundastarfi á jafningjagrundvelli og upplifi öryggi og vellíðan. Leitast er eftir að stuðla að virkni og þátttöku einstaklinga í sínum eigin frítíma og styðja við jákvæða sjálfsmynd. Ungmennin fá að kynnast hinum ýmsu tómstundum sem hægt er að stunda eftir að skóla lýkur.

Starfið fer fram alla virka daga frá klukkan 13 – 17.

Ungmennaráð Þroskahjálpar vekur athygli á því að strætósamgöngur við Hitt húsið mættu vera betri. Eins og staðan er núna er aðeins einn strætó sem stoppar nálgæt Hinu húsinu, en samt þarf að labba góðan spöl til að komast þangað. Eini strætóinn sem stoppar nálægt Hinu húsinu er leið 16 sem stoppar við Rafstöðvarveg. Þaðan þarf svo að ganga um 500 metra í Hitt húsið, sem getur verið erfitt fyrir fatlað fólk og aðgengi er ekki með besta móti. Þetta er hamlandi fyrir sumt fatlað fólk sem vildi gjarnan nýta sér starfsemi Hins hússins en getur það ekki eða að takmörkuðu leyti vegna þess að strætósamgöngur eru ekki nógu góðar.

Við, ungmennaráð Þroskahjálpar, óskum eftir því að stjórn Strætó taki þetta til skoðunar og bæti við stoppistöð við Hitt húsið sem gæti gert fleira ungu, fötluðu fólki mögulegt nýta Hitt húsið til að efla félaglega virkni og tómstundaiðju. 

Virðingarfyllst,

Ungmennaráð Þroskahjálpar.