Tækni og fötlun: Pósthúsið.

Vegna mikils áhuga á pistlum Ingu Bjarkar Margrétar Bjarnadóttur, sérfræðings Þroskahjálpar í málefnum fatlaðs fólks, um fötlun og tækni höfum við ákveðið að birta þá alla í rituðu máli. Pistlarnir hafa verið spilaðir í útvarpsþættinum Lestin á Rás 1 en þar snertir Inga Björk á ýmsum áskorunum sem fatlað fólk stendur frammi fyrir í sífellt stafrænni heimi

Við munum birta pistlana í rituðu máli næstu þrjá laugardaga. 

Pistillinn sem við birtum í dag var spilaður í Lestinni þann 23. nóvember 2022. Í honum segir Inga Björk frá sinni upplifun sinni af pósthúsinu.

Inga Björk skrifar

Ég kem á pósthúsið og tek númer. 512 segir miðinn og ég lít á skjái sem hanga yfir höfðum kvenna sem nálgast eftirlaunaaldur og unglinga með blátt hár. Íslendingar kunna ekki að standa í röð og það sést kannski best á pósthúsum. Númerakerfið er ekki hagræði fyrir Íslendinga, það er okkar eina bjargráð. Fólk stendur slánalega hér og þar í rýminu og bíður eftir að það komi að sér. Það reynir að snúa sér undan næsta manni, með símablámann í andlitinu, í veikri von um að hitta engan. Það er ógjörningur að smalltalka á pósthúsi.

Mér er of kalt til að fara úr úlpunni en of heitt til að vera í henni. Það væri líka undarlega heimilislegt að fara úr úlpunni. Við erum öll á hraðferð, öll rétt ókomin á næsta stað. Ég bíð og ég bíð þar til unglingur með blátt hár kallar 512 og tölurnar blikka frekjulega yfir höfði hans. „Ætlarðu að póstleggja pakka? Nei, þú áttir að fara í tölvuna þarna og skrá sendinguna sjálf.“ 

Þrýstingur í höfðinu. Æðin í gagnauganu tifar. Ég safna öllum þeim kröftum sem ég á til að skammast ekki í unglingnum og fer aftast í rýmið þar sem kámugur snertiskjár húkir. Hann felur sig innan um afmæliskort og lundanammi og það er búið að spritta hann svo oft að hann er orðinn mattur. Ég sé fyrir mér þykkt lag af húðfitu á skjánum. Vil ekki hugsa um það og loka ósjálfrátt augunum. Kreisti þau aftur. Ég dreg peysuna yfir fingurna til að þurfa ekki að snerta skjáinn en hann tekur ekki við manni þannig. Tölvan vill snertingu húðar og maður finnur velgju og leitar eftir spritti. Það stendur tómur sprittbrúsi á enn kámugra borði — minnisvarði um farsótt sem allir hafa gleymt.

Ég skruna í gegnum meters langan lista af póstnúmerum og í augnablik slær úti fyrir mér hvert pakkinn eigi að fara. Ég renni í gegnum meters langan af lista mögulegu innihaldi pakkans. Það voru ekki sprengiefni í pakkanum, var það nokkuð? 

Símanúmer, kennitölur, PIN númer, rafræn skilríki, 12 stafa lykilorð sem eru stafasúpa en appið sem gleymir þau er alltaf að frjósa og þú þarft að muna lykilorð foreldra þinna, afa þíns og eiginmanns ömmusystur þinnar. Vallargerdi123. Eða var það 12345? Stór stafur. Lítill stafur. 

Ég er ekki orðin þrítug og ég er með tækni-örmögnun.

Ég er með ógeð af því að sitja við skjá 8 tíma á dag í vinnunni, og fletta svo á ennþá minni skjá í aðra fjóra.
Ég er komin með ógeð af því að tala við vélmenni þegar ég þarf að fá upplýsingar hjá ríkisstofnun.
Ég er komin með ógeð á því að líta á næsta borð á kaffihúsi og horfa á blámann í andlitum lítilla barna með störuflog sem kunna bara að segja litina á ensku.
Ég er komin með ógeð af því að skanna QR kóða til að skoða matseðil á pínulitlum skjá.

Ég er komin með ógeð á að fylgjast með blóðbaði og byltingum í beinni útsendingu hinum megin á hnettinum, sem er svo fylgt beint á eftir með myndskeiði af lubbalegum hundi sem hefur tekið lamb í fóstur. Við virðumst ekki geta horfst í augu við það að ólýsanlegur sársauki eigi sér stað hjá fólki sem deilir með okkur þessari jörð án þess að því sé pakkað inn í fimmfaldan bómul, án þess að við í hinum vestræna heimi fáum eitthvað sem veitir okkur fró í allri sorginni — svona rétt í lokin á fréttatímanum.

Ég er með tækni-örmögnun og skoða í leyni myndir af enskum kotum í skjólsælum sveitaþorpum á Pinterest og ég þrái samfélagslega afturför. En bara í leyni. Olíulampa og vosbúð getur ekki verið verra en þessi sjálfviljugi, tæknilegi heiladauði. Jú, líklega var það verra að norpa í torfkofa með 10 berklaveik börn, en þetta er samt vont. 

Ég las í haust grein um bandarískan háskólaprófessor sem hafði varið tugum klukkustunda í að lesa yfir ritgerðir nemenda sinna og gefa þeim umsagnir og endurgjöf. Síðar komst hann að því að allir nemendurnir höfðu notað gervigreind til þess að skrifa ritgerðir sínar frá grunni. Mér féllust hendur. Er eitthvað jafn deprímerandi, jafn mikil vanvirðing við þann stutta tíma sem við höfum hér á jörðinni, og að láta manneskju af holdi og blóði sitja og lesa yfir ritgerðir skrifaðar af tölvum. Láta manneskju með pumpandi hjarta og taugar meta hugmyndir og rökfærslur tölvu. Á sama tíma eru háskólar Vestanhafs farnir að nota gervigreind til að fara yfir verkefni. Þá eigum við innan skamms von á tölvum sem skrifa fræðigreinar sem ritrýndar eru af tölvum. Á meðan getum við ræktað kjötmusteri okkar í líkamsræktarstöðvum á meðan við horfum á *Vines that cured my depression*. Það er sjálfsagt besta nýtingin á þeim kjöthólkum sem við erum.

Hægt er að hlusta á pistilinn í Lestinni hér (byrjar á mínútu 23:30)

Hlusta á pistil