Svör dómsmálaráðherra um samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks vekja undrun og áhyggjum

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, á Alþingi í dag hvar fullgilding valkvæðs viðauka við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks væri stödd. Alþingi samþykkti með öllum greiddum atkvæðum árið 2016 að viðaukinn skyldi fullgiltur fyrir árslok 2017.

Með valfrjálsa viðaukanum opnast kæruleið fyrir fólk sem telur að íslensk stjórnvöld hafi ekki veitt þeim þann rétt sem þeim ber að fá samkvæmt samningnum, og hafa fullreynt að ná fram rétti sínum innan íslensks stjórnkerfis án árangurs. Með fullgildingu valfrjálsa viðaukans verður virkara aðhald um að framfylgja samningnum, réttaröryggi fatlaðs fólks eykst og mannréttindi þess verða betur varin. Þess má geta að 97 ríki hafa nú þegar fullgilt viðaukann.

Landssamtökin Þroskahjálp þakka Ágústi Ólafi fyrir fyrirspurnina um þetta mál, sem er afar mikilvægt til að tryggja vernd mannréttinda fatlaðs fólks. Reynslan sýnir okkur að það er því miður ekki vanþörf á.

Þroskahjálp getur ekki látið hjá líða að lýsa áhyggjum og undrun yfir svörum Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra um stöðu málsins á Alþingi í dag. Eins og fyrr sagði samþykkti Alþingi fyrir nær 4 árum síðan að viðaukinn skyldi fullgiltur fyrir árslok 2017 án mótatkvæða. Það þýðir að  fyrir meira en tveimur og hálfu ári síðan hefði átt að fullgilda viðaukann. Þrátt fyrir skýran vilja Alþingis og þverpólitíska samstöðu um málið hefur þetta ekki enn verið gert. Ekki var hægt að skilja svör dómsmálaráðherra á Alþingi í dag öðruvísi en svo að lítið hefði verið gert til að hrinda þessari samþykkt Alþingis í framkvæmd, og jafnvel alls ekki víst að það yrði gert.

Þessi framkvæmd eða öllu heldur framkvæmdarleysi af hálfu dómsmálaráðuneytisins lýsir ekki aðeins áhugaleysi um vernd mannréttinda fatlaðs fólks heldur einnig miklu virðingarleysi gagnvart vilja Alþingis.

Landssamtökin Þroskahjálp skora á dómsmálaráðherra að gera það sem gera þarf til að valkvæði viðaukinn verði fullgiltur, án frekari ástæðulauss dráttar. Þannig getur hún sýnt í verki vilja sinn til að bæta stöðu mannréttinda fatlaðs fólks.

Nálgast umræðurnar á vef Alþingis, frá upptöku þann 18. júní 2020 kl. 11:07:30.