Sæti við borðið: styrkur til að efla notendasamráð um allt land

Frá undirritun styrksins. Frá vinstri: Birna Guðmundsdóttir starfsmaður Átaks, Haukur Guðmundsson fo…
Frá undirritun styrksins. Frá vinstri: Birna Guðmundsdóttir starfsmaður Átaks, Haukur Guðmundsson formaður Átaks, Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, Anna Lára Steindal starfsmaður Þroskahjálpar, Unnur Helga Óttarsdóttir formaður Þroskahjálpar og Sunna Dögg Ágústsdóttir verkefnstjóri ungmennaráðs Þroskahjálpar.

 

AUÐLESIÐ

  • Þroskahjálp fær styrk frá Guðmundi Inga, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
  • Styrkurinn er til þess að styðja fatlað fólk að vera eigin talsmenn og taka þátt í notendasamráði.
  • Notenda-samráð þýðir að sá sem fær þjónustuna, notandinn, tekur virkan þátt í að ákveða hvernig þjónustan á að vera.

  •  Í lögum á Íslandi segir að öll sveitarfélög eigi að vera með notendaráð fatlaðs fólks.
    Það er til að hlusta á skoðanir fatlaðs fólks og heyra hvað þau vilja gera. 

  • Styrkurinn er líka til að hjálpa starfsfólki hjá sveitarfélögum að vera betri í að hafa samráð við fatlað fólk.
  • Styrkurinn er 12 milljónir króna.
  • Verkefnið kallast Sæti við borðið.
  • Það er mikilvægt að hlusta á skoðanir og hugmyndir fatlaðs fólks. Þá verður samfélagið betra.
  • Verkefnið verður unnið með ungmennaráði Þroskahjálpar, Átaki - félagi fólks með þroskahömlun og með Fjölmennt.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur veitt Landsamtökunum Þroskahjálp 12 milljóna króna styrk til verkefnisins Sæti við borðið. Verkefnið miðar að því að auka þátttöku fólks bæði í ungmennaráði Þroskahjálpar og í Átaki, félagi fólks með þroskahömlun, og styrkja fulltrúa þeirra í samráðshlutverki sínu gagnvart stjórnvöldum. Sérstök áhersla verður lögð á að ná til fólks sem búsett er á landsbyggðinni og á þátttöku þeirra í notendaráðum hjá sveitarfélögum. Í notendaráðunum sitja fulltrúar fatlaðs fólks á hverjum stað.

Ungmennaráð Þroskahjálpar og Átak eru vettvangur fyrir fólk með þroskahömlun og skyldar fatlanir til að láta rödd sína heyrast og fá leiðbeiningar og stuðning til þess að tjá skoðanir sínar og miðla hugmyndum sínum, framtíðarsýn og reynslu. Markmiðið er að allir hafi möguleika til þátttöku, óháð búsetu. Verkefnið styður einnig við framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þar sem skýrt er kveðið á um lögbundna skyldu stjórnvalda til þess að hafa samráð við fatlað fólk og hagsmunasamtök sem koma fram fyrir hönd þess.

Ungmennaráðið og Átak verða kynnt markvisst fyrir nemendum á starfsbrautum framhaldsskóla á landsbyggðinni. Einnig verða þau kynnt fyrir fólki í gegnum samstarf við símenntunarmiðstöðvar og aðila sem veita fötluðu fólki þjónustu. Þau sem hafa áhuga á að starfa með ungmennaráðinu eða Átaki munu fá stuðning til þess.

Fjölmennt – símenntunar- og þekkingarmiðstöð hefur um árabil haft það hlutverk að bjóða upp á námskeið og símenntun fyrir fólk með þroskahömlun og skyldar fatlanir. Til staðar eru þjónustusamningar við símenntunarmiðstöðvar á landsbyggðinni um fræðslu fyrir markhóp Fjölmenntar. Í verkefninu Sæti við borðið verður leitast við að nýta þá samninga og tengsl við símenntunarmiðstöðvar um land allt til að bjóða upp á fræðslu um mannréttindi og stuðning óháð búsetu.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra: 

„Í hagsmunabaráttu er afar mikilvægt að raddir allra fái að heyrast. Til þess að svo megi verða er mikilvægt að geta boðið því fólki sem á þarf að halda upp á aukinn stuðning og aðgengi að fræðslu. Ég ber miklar væntingar til verkefnisins, enda koma að því fjölmargir aðilar með mikla reynslu á þessu sviði. Það er ósk mín að notendaráð sveitarfélaga um land allt vaxi og styrkist svo við getum boðið enn fleirum sæti við borðið.“

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Landsamtakanna Þroskahjálpar:

„Landsamtökin Þroskahjálp eru afar þakklát fyrir stuðninginn sem þau fá hjá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu vegna verkefnisins Sæti við borðið. Fatlað fólk eru sérfræðingar í eigin í lífi og fátt er jafn mikilvægt og að tryggja því sæti við borðið. Það er nauðsynlegt að vinna að raunverulegu og miklu samráði við fatlað fólk á landinu öllu og sérstaklega að tryggja að fólk með þroskahömlun og skyldar fatlanir fái tækifæri til þess að fá að segja sína skoðun og láta ljós sitt skína.“