Ofbeldi gegn fötluðu fólki.

Ofbeldi gegn fötluðu fólki.

Ísland fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks á síðasta ári og skuldbatt sig þar með til að virða og framfylgja ákvæðum hans. Í formálsorðum samningsins segir:

Ríkin, sem eiga aðild að samningi þessum, viðurkenna að fatlaðar konur og stúlkur eru oft í meiri hættu, innan heimilis sem utan, að verða þolendur ofbeldis, áverka eða misþyrminga, afskiptaleysis eða vanrækslu, illrar meðferðar eða misnotkunar í gróðaskyni.

Í 16. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina „Frelsi frá misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum“ eru svo ítarleg ákvæði um margvíslegar ráðstafanir sem stjórnvöld verða að grípa til í því skyni að verja fatlað fólk fyrir ofbeldi af öllu tagi og veita þeim sem fyrir því verða nauðsynlegan stuðning. Þar segir m.a.:

Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félags- og menntamála og aðrar ráðstafanir í því skyni að vernda fatlað fólk, jafnt innan heimilis sem utan, fyrir hvers kyns misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum, meðal annars með hliðsjón af kynbundnum þáttum slíkra athafna. 

Það er alls ekki að ástæðulausu að svo mikil áhersla er í samningnum lögð á skyldur ríkja til að viðurkenna að fatlað fólk er sérstaklega berskjaldað fyrir ofbeldi og að grípa til markvissra aðgerða til að bæta vernd þess fyrir því. Rannsóknir sýna svo ekki verður um deilt að fatlað fólk hvarvetna í heiminum er beitt meira ofbeldi af öllu tagi og þ.m.t. kynferðislegu ofbeldi, en annað fólk.

Ekki þarf að hafa mörg orð um að ofbeldi sviptir þann sem fyrir því verður mannlegri reisn og vegur mjög alvarlega að mörgum öðrum mannréttindum hans með margvíslegum hætti. Það er því grundvallarskylda valdhafa í hverju ríki að verja fólkið fyrir ofbeldi með öllum tiltækum ráðum. Og það er líka grundvallarskylda þeirra að gæta þess sérstaklega að mismuna þar ekki ákveðnum hópum fólks sem eru sérstaklega berskjaldaðir fyrir ofbeldi. Samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks áréttar þær skyldur sérstaklega við stjórnvöld.

Að undanförnu hefur verið mikil umræða í íslensku samfélagi, eins og mjög víða í heiminum, um svívirðilegt ofbeldi sem hefur viðgengist og beinst gegn konum. Margar valdamiklar og frægar konur hafa lýst alvarlegu ofbeldi og ömurlegri niðurlægingu af ýmsu tagi sem þær hafa þurft að þola og hafa hingað til þagað um.

Um leið og við fögnum því að þögnin um þann mikla órétt sé loks rofin hljótum við að leiða hugann að því hver sé staða þeirra kvenna sem eru sérstaklega berskjaldaðar fyrir ofbeldi vegna fötlunar eða félagslegrar stöðu sinnar eða af öðrum ástæðum og eiga mjög erfitt með að verja sig og greina frá því ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir eða þurfa nú að þola.  Stjórnvöld verða að taka skyldur sína við þær konur mjög alvarlega.

Sem betur fer er ýmislegt sem bendir til að nokkur vitundarvakning sé að verða í þessum málum. Ein vísbendingin um það er stofnun starfshóps ríkissaksóknara um meðferð kynferðisbrotamála þegar um fatlaða sakborninga og/eða brotaþola er að ræða og önnur  er stofnun Bjarkarhlíðar sem er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis og hefur það markmið „að veita stuðning og ráðgjöf ásamt fræðslu og umfjöllun um eðli og afleiðingar ofbeldis, auk þess að gefa skýr skilaboð um að ofbeldi verði ekki liðið.“

Landssamtökin Þroskahjálp hafa lagt mikla áherslu á að minna stjórnvöld á skyldur þeirra til að verja fatlað fólk fyrir ofbeldi af öllu tagi. Samtökin eiga fulltrúa í starfshópi ríkissaksóknara og formaður og framkvæmdastjóri þeirra og formaður Átaks, félags fólks með þroskahömlun, hafa á undanförnum mánuðum átt fundi með lögreglustjórum og lögreglumönnum á Vestfjörðum, í Vestmannaeyjum á NA-landi, á Austurlandi, á NV-landi og Vesturlandi um hvernig megi bæta vernd fatlaðs fólks gegn ofbeldi. Þessir fundir hafa verið mjög uppbyggilegir og gagnlegir og hefur verið mjög ánægjulegt að skynja þann áhuga sem lögregluembættin hafa á þessum mikilvægu málum. Einnig hafa verið haldnir mjög gagnlegir fundir með stjórnendum félagsþjónustunnar á þessum svæðum þar sem rætt hefur verið um þessi mikilvægu mál og fleiri mikilvæg réttinda- og hagsmunamál fatlaðs fólks. Þroskahjálp og Átak munu á næstunni funda með lögregluembættum á Suðurlandi og á höfuðborgarsvæðinu.

Í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks segir undir yfirskriftinni „Vitundarvakning“:

Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að samþykkja tafarlausar, árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir til þess að standa að vitundarvakningu á öllum sviðum samfélagsins, þar á meðal sviði fjölskyldunnar, um fatlað fólk og auka virðingu fyrir réttindum þess og mannlegri reisn.    

Þessi vitundarvakning er gríðarlega mikilvæg og í raun forsenda þess að fatlað fólk fái notið margvíslegra mannréttinda sem það fær ekki notið til jafns við aðra og er ástæða þess að ríki heims komust að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt væri að gera sérstakan samning til að bregðast við þvi. Svona vitundarvakning um reisn, virðingu og mannréttindi fatlaðs fólks til jafns við aðra er líka mjög mikilvægur þáttur í að styrkja ímynd, sjálfsmynd og sjálfstraust fatlaðs fólks og efla það þannig til að verja sig fyrir ofbeldi og segja frá því þegar það er beitt ofbeldi eða öðrum órétti.