Ofbeldi gegn fötluðu fólki og ábyrgð stjórnvalda

Mynd: Zack Melhus, Pexels.
Mynd: Zack Melhus, Pexels.

Í september 2020 sendu Landssamtökin Þroskahjálp erindi á Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar (GEF) um verklag sveitarfélaga varðandi ofbeldi gegn fötluðu fólki. Fyrirspurnin kom í kjölfar dóms sem hafði fallið í Héraðsdómi Reykjavíkur nokkrum dögum áður, í máli ungrar fatlaðrar konu sem varð fyrir kynferðisofbeldi af hálfu starfsmanns í skammtímadvöl á vegum Reykjavíkurborgar. 

Vegna þess hversu ríkar skyldur stjórnvöld hafa til að verja fatlað fólk fyrir hvers kyns ofbeldi og grípa til ráðstafana í því skyni óskuðu Landssamtökin Þroskahjálp eftir því að GEF kannaði hvort og hvaða verkferlar væru í gildi í þjónustu við fatlað fólk. Þá óskuðu samtökin eftir upplýsingum um hvort stofnunin teldi þörf á að gefa út leiðbeiningar og/eða gæðaviðmið fyrir sveitarfélög og ef svo, hvaða fyriráætlanir GEF hefði í því sambandi. 

Nú hefur GEF birt niðurstöður athugunar og svörin benda ekki til þess að stjórnvöld ríkis og sveitarfélaga taki þessa ábyrgð sína nógu alvarlega. Rannsóknir sýna að fatlað fólk er í mikilli hættu á að verða fyrir ofbeldi, og í miklu meira mæli en aðrir. Sérstaklega eru fötluð börn og fullorðið fólk með þroskahömlun í viðkvæmri stöðu. Það er grundvallarskylda stjórnvalda að verja borgarana gegn ofbeldi og það eru grundvallar mannréttindi fólks að njóta þeirrar verndar, óháð fötlun.

Landssamtökin Þroskahjálp berjast gegn ofbeldi gegn fötluðu fólki og munu  fylgja þessum málum eftir.