Mikilvægast að vera sýnileg og fá raunveruleg tækifæri

Sunna Dögg Ágústsdóttir
Sunna Dögg Ágústsdóttir

Greinin birtist í 3. tölublaði Tímarits Þroskahjálpar 2020.

Sunna Dögg Ágústsdóttir er ung baráttukona sem hefur tekið mikinn og virkan þátt í ungmennaráði Þroskahjálpar og verið samtökunum til liðsinnis í ýmsum verkefnum. Hér svarar hún nokkrum spurningum um baráttumálin og draumana sem hún hefur fyrir hönd ungs fólks með þroskahömlun og/eða einhverfu.

Hvenær fékkst þú áhuga á mannréttindabaráttu fatlaðs fólks?

Ég fékk einhverfugreiningu árið 2016, þegar ég var fjórtán ára, og þá fékk ég mikinn áhuga á mannréttindabaráttu. Ég hef alltaf haft sterka réttlætiskennd en greiningin gjörbreytti lífi mínu því ég skildi sjálfa mig betur og fann samfélag sem gat stutt mig og hjálpað mér til að takast á við að vera öðruvísi. Mjög fljótlega fór ég að átta mig á því að það var vegna einhverfunnar sem fólk kom öðruvísi fram við mig en aðra og mér fannst það ekki rétt.

Þess vegna langaði mig að nota mína reynslu til að reyna að koma í veg fyrir að aðrir upplifðu það sama. Við erum öll ólík en eigum rétt á sömu tækifærum og að aðrir komi fram við okkur af virðingu. Þegar ég sá auglýsingu frá ungmennaráði Þroskahjálpar ákvað ég að mæta á fund í febrúar og athuga hvort þetta væri eitthvað fyrir mig. Ástæðan var meðal annars sú að mig langaði að tilheyra samfélagi ungs fólks með svipaða reynslu og ég. Síðan hef ég mætt á alla fundi sem ég hef verið fær um að mæta á og tekið þátt í mörgum verkefnum.

Hvað finnst þér mikilvægast við vinnuna sem ungmennaráðið er að sinna?

Mér finnst mikilvægast að minnka fordóma og auka lífsgæði fólks með þroskahömlun og/eða einhverfu með því fræða, bæði okkur sjálf og aðra, um fjölbreytileikann. Svo er líka dýrmætt að í ungmennaráðinu tilheyrum við samfélagi og virðum skoðanir hvers annars, hvort sem við erum sammála eða ekki. 

 

Meðlimir í ungmennaráðinu eru fjölbreyttur hópur en öll erum við að vinna að sama markmiði og læra hvert af öðru. Þetta er eini vettvangurinn sem ég veit um þar sem ungt fólk með þroskahömlun og/eða einhverfu hefur tækifæri til að tala fyrir sig sjálft og hafa áhrif á stefnumótun og ákvarðanir sem hafa áhrif á lífið í nútíð og framtíð.

Það á að hafa samráð við börn og ungmenni, öll börn og ungmenni, það er krafa sem er að finna í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og Barnasáttmálanum. Ungmennaráð Þroskahjálpar opnar leið til þess að hafa raunverulegt samráð við okkur um ýmis mikilvæg mál.

Hefur þátttaka í ungmennaráðinu fært þér einhver ný tækifæri?

Já, fjölmörg. Ég hef til dæmis eignast marga nýja vini og sjálfstraustið hefur aukist mikið. Ég hef líka loksins fengið tækifæri til tjá mig um mín eigin réttindi, reynslu og framtíðardrauma þannig að á sé hlustað.

Í vor fékk ég að sitja fund þar sem félags- og barnamálaráðherra og menntamálaráðherra voru og bæði hlustuðu af athygli. Mér þótti vænt um það.

Ungmennaráðið er áheyrnaraðili að Landssamtökum ungmennahreyfinga, þar sem ráðið er svo nýstofnað uppfyllum við enn ekki skilyrði fyrir fullri aðild. En við fáum samt tækifæri til að láta í okkur heyra og hafa áhrif.

Við erum nokkur sem höfum verið að mæta á fundi hjá LUF. Ég og vinkona mín, sem ég kynntist í ungmennaráðinu, erum til dæmis í leiðtogaráði LUF og það hefur verið skemmtileg og áhrifarík samvinna. Í sumar tók ég sæti í ungSAFT sem lætur sig öll mál varða um netið og ungmenni.

Það tækifæri fékk ég í gegnum ungmennaráðið og hef verið að taka þátt í mjög áhugaverðu verkefni sem er alþjóðleg ráðstefna sem heitir Safer Internet Forum (SIF) og fjallar um netöryggi barna og ungmenna. Þar reyni ég eftir fremsta megni að koma inn fræðslu og nýjum hugmyndum um hvernig er hægt að vernda eða stuðla að jákvæðri upplifun ungs fólks með þroskahömlun og/eða einhverfu af netinu. Ég hef miðlað reynslu minni og hlotið góðar viðtökur.

Ég kann virkilega að meta hversu allir eru opnir fyrir þeim hugmyndum sem ég hef fengið tækifæri til að deila í þessu samstarfsverkefni.

Svo hefurðu líka farið í útvarpsviðtöl og tekið þátt í málstofum í Háskóla Íslands, ekki satt?

Jú, vissulega. Það fannst mér mikilvægt til þess að miðla því sem mér liggur á hjarta til fleira fólks. Ég hef farið tvisvar í viðtal á K100. Í fyrra skiptið var ég að tala um ungmennaráðið og réttindi fatlaðs fólks. Í seinna skiptið var umræðuefnið ráðstefnan um öryggi á netinu. Í HÍ tók ég þátt í málstofum fyrir nemendur í þroskaþjálfa- og tómstundafræðum og deildi með þeim minni reynslu af skólakerfinu, sem var því miður ekki góð, og hugmyndum um hvernig megi bæta það svo allir geti verið með og liðið vel í skólanum.

Hvaða drauma hefur þú fyrir hönd fólks með þroskahömlun og/eða einhverfu í framtíðinni?

Mér finnst mikilvægast að við verðum sýnilegri og fáum raunveruleg tækifæri til að taka þátt í að móta samfélag án aðgreiningar. Jafnrétti snýst ekki um að við fáum öll það sama heldur að við njótum sömu tækifæra og fáum þann stuðning sem þarf til að nýta þau, til að ná sem lengst og vera hamingjusöm.

Viðtalið tók Anna Lára Steindal, starfsmaður ungmennaráðs Þroskahjálpar