Grein: Afstofnanavæðing er lykilinn að Evrópu án aðgreiningar

Bryndís Snæbjörnsdóttir, varaformaður Inclusion Europe og fyrrum formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar skrifaði grein í blað EESC Diversity Europe Newsletter um afstofnanavæðingu og tækifæri fatlaðs fólks til sjálfstæðs lífs. Hér er greinin í íslenskri þýðingu.

Afstofnanavæðing er lykilinn að Evrópu án aðgreiningar

Þau ríki Evrópu sem enn reka stofnanir fyrir fatlað fólk þurfa að gera tímasettar áætlanir um hvenær og hvernig á að leggja þær niður og tryggja fjármagn til verkefnisins. Jafnframt ætti að vera skýr krafa um að nýir íbúðarkjarnar sem teknir eru í notkun séu litlir og takmarkaður fjöldi á sama svæði. Lykilatriði er að fötluðu fólki gefist tækifæri til að lifa sjálfstæðu lífi með þeim stuðningi sem það hefur þörf fyrir og að því gefist kostur á að vera sjálft verkstjórar í eigin lífi. Krafa fatlaðs fólks um þátttöku í samfélagi á jafnréttisgrundvelli er mannréttindamál en ekki velferðarmál. Tryggja þarf fötluðu fólki aðgengi að öllum sviðum samfélagsins svo sem menntun, húsnæði, atvinnu og þátttöku í menningar- og tómstundalífi. Þetta markmið næst ekki nema með breytingum sem tryggja fötluðu fólki viðeigandi stuðning sem grundvallast á virðingu fyrir mannréttindum. 

Evrópa án aðgreiningar kallar á viðeigandi aðlögun og skilvirkan stuðning við fatlað fólk. Fötluð börn eiga rétt á því að ganga í sinn heimaskóla með viðeigandi stuðningi og því á ekki að senda þau á stofnanir eða í aðgreind úrræði. Sama á við um fullorðið fatlað fólk. Það á rétt á því að stunda atvinnu með viðeigandi stuðningi en vera ekki þvingað til að starfa á aðgreindum vinnustofum. Virða ber rétt fatlaðs fólks til þess að velja hvar og með hverjum það býr. Stofnanir og sambýli ættu að heyra sögunni til. 

Þegar ríki gera áætlanir um uppbyggingu innviða samfélagsins verða þau að hafa samráð við hagsmunasamtök fatlaðs fólks til að tryggja að þær séu í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Undirstöðuþekking allra stjórnmála- og embættismanna á samningum ætti að vera krafa, enda forsenda þess að innleiða hann með farsælum hætti og uppfylla þær kröfur sem af samningnum leiða um húsnæði, samgöngur, upplýsingar, menntun, atvinnu, heilsu, innflytjendamál og á öllum öðrum sviðum samfélagsins. Fatlað fólk og samtök þess býr yfir víðtækri reynslu og sérfræðiþekkingu þegar kemur að málefnum fatlaðs fólks. Það er nauðsynlegt að stjórnvöld um alla Evrópu nýti þessa dýrmætu auðlind til að skapa Evrópu án aðgreiningar.

Bryndís Snæbjörnsdóttir, varaformaður Inclusion Europe og fyrrum formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar.

Smelltu hér til að lesa Diversity Europe.