Þrusumæting á fræðslufund Þroskahjálpar

Húsfylli var á fundinum.
Húsfylli var á fundinum.

Frábær mæting var á fræðslufundinn 18 ára, og hvað svo? sem Þroskahjálp og Einhverfusamtökin stóðu að í sameiningu. Áhuginn á fundinum ber þörfinni á slíkri fræðslu glöggt merki.

Það var fjölbreyttur hópur sem mætti, fötluð ungmenni og aðstandendur þeirra, starfsfólk sveitarfélaga og þjónustustofnanna og fleiri sem vildu kynna sér hvað stæði ungmennum til boða þegar þau ná 18 ára aldri.

 

Arna Guðný Valgarðsdóttir og Fríða Rún Gylfadóttir, þroskaþjálfanemar við HÍ, kynntu  BA-lokaverkefni sitt sem snýr að þessum tímamótum. Þær kynntu drög að fræðslubæklingi  fyrir ungt fatlað fólk og aðstandendur. Í honum mun vera tekið saman það sem þarf að hafa í huga við þessi tímamót til að hafa upplýsingarnar aðgengilegar og að fólk viti hvert það geti leitað eftir aðstoð á ýmsum sviðum og einnig að fólk viti hvaða þjónusta er í boði.  

 

Auðbjörg Ingvarsdóttir, Gerður Gústafsdóttir og Þórir Hrafn Gunnarsson komu sem fulltrúar frá Tryggingastofnun ríkisins og fóru yfir ferlið sem tengist endurhæfingarlífeyri, endurhæfingaráætlun og örorkulífeyri. Fóru þau yfir hvaða gögn þurfa að vera til staðar til að sækja um endurhæfingar- og örorkulífeyrisgreiðslur og hvaða skilyrði þarf að uppfylla.

 

Svala Hreindóttir var fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hún fór yfir það hvað getur breyst í samskiptum og þjónustu sveitarfélaga þegar ungmenni verða 18 ára, útskýrði farsældarlögin og stigskiptingu farsældarþjónustu og hlutverk tengiliðar og málastjóra. Hún fór yfir hugtökin sjálfræði, fjárræði og persónuvernd og þjónustuþætti sveitarfélaga er tengist lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018. Marmikið með þjónustu sveitarfélaganna sé alltaf að valdefla fólk til að það geti sjálft tekið ákvarðanir um líf sitt, m.a. með stuðnings- og stoðþjónustu.

 

Eiríkur Smith kynnti starf Réttindagæslu fatlaðs fólks og fjallaði m.a. um þá manneklu sem hamlar stofnuninni frá því að veita eins góða þjónustu og réttindagæslan myndi kjósa að geta veitt. Þó aðstoðar Réttindagæslan fatlað fólk við að sækja rétt sinn í hvívetna, og heldur utan um persónulega talsmannakerfið. Námskeið fyrir nýja talsmenn fatlaðs fólks fara nú alfarið fram á netinu og eru tilvonandi talsmenn, sem og fatlað fólk sem óskar eftir hverskyns aðstoð við að standa vörð um réttindi sín, hvatt til að senda stofnuninni tölvupóst postur@rettindagaesla.is  eða hafa samband í gegnum Facebook. 

 

Sara Dögg Svanhildardóttir, verkefnastjóri hjá Þroskahjálp, kynnti stuttlega lausn sem samtökin hafa unnið að til að auðvelda fötluðum ungmennum og aðstandendum að afla sér upplýsinga um allt sem er í boði eftir 18 ára aldur, en brátt fer í loftið svokallað upplýsingatorg Þroskahjálpar. Upplýsingatorgið, sem kallast mun #Hvaðerplanið er stutt af félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og á að gefa góða yfirsýn yfir náms- og starfstækifæri fatlaðs fólks.

Á fundinum fóru fram miklar og áhugaverðar umræður, og augljóst að margar spurningar brenna á þessum hópi. Áberandi margir voru með fyrirspurnir er tengist endurhæfingarlífeyri og örorkubótum og athugasemdum um hvers vegna að fötluðum ungmennum sé ætlað að skila inn endurhæfingaráætlun þar sem óljóst er hvað þarf að endurhæfa og í hvaða tilgangi. Einnig kom fram að almennt sé ekki nógu ljóst hverjir eigi að fylla út áætlunina og að fylgja henni eftir og lenda ungmennin í því að vera vísað á milli kerfa. Þá komu fram margar ábendingar um erfitt aðgengi að heilbrigðiskerfinu, og þá sérstaklega geðheilbrigðisþjónustu þar sem geðheilbrigðisteymi heilsugæslunnar vísa fötluðum ungmennum iðulega frá. Af umræðum sem fram fóru á fundinum má ráða að mikill skortur er á úrræðum fyrir fötluð börn og ungmenni með fjölþættan vanda og vöntun er á samþættri þjónustu.

Aðstandendum finnst öll upplýsingagjöf vera af skornum skammti þegar kemur að möguleikum fatlaðra ungmenna þegar þau standa á þessum tímamótum að verða 18 ára og því sérstaklega ánægjulegt að sjá svona góða mætingu á þennan fræðslufund. 

 

Við þökkum fulltrúum frá Tryggingastofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Réttindagæslunni fyrir að koma og taka þátt í þessu fræðslukvöldi. Við viljum líka sérstaklega þakka þeim Fríðu Rún og Örnu Guðnýju, þroskaþjálfanemum, fyrir að taka þetta málefni fyrir í BA-ritgerð sinni og fyrir metnaðinn við að stofna til þessa samtals við bæði fötluð ungmenni og aðstandendur þeirra, sem og við þau sem þjónustu veita.

Þroskahjálp mun leitast við að halda þessu samtali áfram – fylgist áfram með miðlum okkar!