Erindi sent ráðherra vegna stafrænnar framþróunar

Þroskahjálpar hefur sent Guðmundi Inga Guðbrandssyni,  félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, erindi varðandi framkvæmd við nýtingu stafrænnar tækni og við stafræna þróun m.t.t. réttinda fatlaðs fólks.

Erindi Þroskahjálpar

Tölvupóstur til félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, ritara hans, ráðuneytisstjóra í félagsmálaráðuneytinu, Ernu Kristínar Blöndal skrifstofustjóra í félagsmálaráðuneytinu, aðstoðarfólk félagsmálaráðherra og til ráðuneytisins sjálfs.

Efni: Erindi Þroskahjálpar til félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra varðandi framkvæmd við nýtingu stafrænnar tækni og við stafræna þróun m.t.t. réttinda fatlaðs fólks.

Landssamtökin Þroskahjálp telja brýna nauðsyn að upplýsa þig, hæstvirtur félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, vegna þeirrar hættu sem upp er komin vegna notkunar stafrænna lausna fyrir fatlað fólks. Samtökin hafa nú í a.m.k. 1,5 ár ítrekað vakið athygli hlutaðeigandi stjórnvalda á því að mjög mikil hætta er á, og nýmörg dæmi er um, að stafrænar lausnir eins og þær eru framkvæmdar í dag og eiga að einfalda líf borgaranna séu beinlínis hindrun í lífi fólks með þroskahömlun og skyldar fatlanir. Þrátt fyrir að þessar hindranir leiði til alvarlegra mannréttindabrota gagnvart fötluðu fólki hafa viðbrögðin verið lítil eða engin og samtökin talað fyrir daufum eyrum.

Í þessu samhengi má sem dæmi nefna rafræn skilríki til þess að komast inn á “Mínar síður” opinberra aðila, nota bankaþjónustu og auðkenna sig.

Með þessari framkvæmd er vegið með mjög alvarlegum hætti að margvíslegum og mikilsverðum mannréttindum fólks með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir, sem áréttuð eru í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem íslenska ríkið fullgilti árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að virða og framfylgja (sjá meðfylgjandi minnisblað sem Þroskahjálp fór yfir á fundi hjá Stafrænu Íslandi 16. nóvember 2021).

Þessi framkvæmd er ekki heldur í neinu samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem íslensk stjórnvöld hafa lýst yfir að þau ætli að hafa að leiðarljósi í stefnumótun sinni og framkvæmd og vísa mjög gjarnan til því að grundvallarmarkmið heimsmarkmiðanna er: “Skiljum engan eftir!”

Þá er þessi framkvæmd í fullkomnu ósamræmi við það sem segir í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar, þar sem er mikil áhersla lög á stafræna þróun og nýtingu gervigreindar:

„Tæknibreytingar og hagnýting gervigreindar þurfa að vera í allra þágu og byggjast á grunngildum um mannréttindi, lýðræði og jöfnuð. Mikilvægt er að efla þekkingu, tryggja jöfn tækifæri og sporna gegn aðstöðumun í breyttu umhverfi.“ (undirsstr. Þroskahj.)

Verði ekki gerðar viðeigandi ráðstafanir, án frekari tafa, til að tryggt verði að stafræn tækni sem er nú þegar komin í notkun og frekari stafræn þróun jaðarsetji og útiloki ekki fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir enn meira en þegar er í íslensku samfélagi og svipti það margvíslegum tækifærum til sjálfstæðis og virkrar þátttöku verða framangreind orð í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar algjörlega innantóm og marklaus.

Með vísan til þess sem að framan er rakið og þá ábyrgð sem þú, hæstvirtur félagmála- og vinnumarkaðsráðherra, berð samkvæmt lögum til að standa vörð um réttindi fatlaðs fólks, skora Landssamtökin Þroskahjálp á þig að taka það mikilvæga mannréttindamál sem hér er um fjallað án tafar upp við aðra hlutaðeigandi ráðherra og tryggja að íslenskt stjórnkerfi taki við nýtingu stafrænnar tækni og við stafræna þróun með tilliti til aðstæðna og þarfa fatlaðs fólks sem því er skylt að gera samkvæmt lögum og fjölþjóðlegum mannréttindsamningum. Á því hefur verið mjög mikill misbrestur og því er mjög brýnt að brugðist verði með við þeim hætti sem dugar og án frekari tafa.

Afrit af þessum tölvupósti er m.a. sent til ráðuneytisstjóra fjármálararáðuneytis og forsætisráðuneytis og umboðsmanni Alþingis, Ríkisendurskoðun, formanni stjórnskipunarnefndar, yfirmanni réttindagæslunnar, Stafrænu Íslandi og Samband íslenskra sveitafélaga til upplýsingar.

Meðfylgjandi er minnisblað sem Landssamtökin Þroskahjálp fór yfir á fundi hjá Stafrænu Íslandi og sendi framkvæmdastjóra þess eftir fundinn.

Virðingarfyllst,
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar 

Minnisblað Þroskahjálpar