Ávarp formanns Landssamtakanna Þroskahjálpar við afhendingu Múrbrjótsins 2017.

Ávarp formanns Landssamtakanna Þroskahjálpar við afhendingu Múrbrjótsins 2017.

„Hér er mikið verk að vinna og ég vil nota þetta tækifæri til að óska nýrri ríkisstjórn velfarnaðar og um leið skora á hana að sýna í verki að hún hafi metnað og getu til að láta Ísland verða í fararbroddi í heiminum  í að tryggja fötluðu fólki þau mannréttindi sem því ber að njóta og það þarf svo mikið á að halda. Það eru allar aðstæður til þess hér á landi. Vilji er allt sem þarf.“

 

Ágætu gestir.

Árið 1992 ákváðu Sameinuðu þjóðirnar að 3. desember ár hvert skyldi vera alþjóðadagur fatlaðs fólks. Það var gert til að vekja athygli á bágum aðstæðum og kjörum fatlaðs fólks hvarvetna í heiminum og umræðu, allt með það að markmiði að bæta stöðu fatlaðs fólks og virðingu fyrir því, framlagi þess til samfélagsins og rétti til virkrar þátttöku í því. Þetta eru augljóslega forsendur þess að fatlað fólk fái notið grundvallarmannréttinda eins og annað fólk.

Á þeim aldarfjórðungi sem liðinn er frá því að fyrst var haldið upp á þennan dag hefur ýmislegt áunnist í mannréttindabaráttu fatlaðs fólks. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sýnir það kannski best. Sá mikilvægi mannréttindasamningur var gerður fyrir 10 árum síðan og nú hafa langflest ríki í heiminum fullgilt hann og þar með skuldbundið sig til að virða hann og framfylgja ákvæðum hans. Með gerð og samningsins og víðtækri fullgildingu hans viðurkenndu ríki heims skýrt og skorinort að fatlað fólk hefur þurft að þola og þarf að þola mikla mismunun, óréttlæti og útilokun á öllum sviðum samfélgsins. Með samningnum lýstu ríkin því jafnframt yfir að þau ætluðu ekki að láta þetta viðgangast lengur heldur grípa svo skjótt sem verða má til margra og markvissra aðgerða á öllum sviðum samfélagsins leiðrétta þennan mikla órétt gagnvart þeim sem nú lifa og tryggja að þeir sem ófæddir eru verði ekki beittir þeim órétti heldur fái notið tækifæra og lífgæða sem aðrir fá að njóta og þykja sjálfsögð, a.m.k. í okkar ríka landi. Um þetta allt saman er mælt skilmerkilega fyrir í þessum mikilvæga og merkilega mannréttindaasamningi.

Ísland fullgilti samninginn á síðasta ári og óneitanlega vakti það undrun og vonbrigði mjög margra að svo vel stætt og þróað land skyldi vera svo seint til þess. En við skulum trúa því og treysta að íslensk stjórnvöld muni reka af sér það slyðruorð með því að tryggja fötluðu fólki þau mannréttindi sem samningurinn mælir fyrir um mjög hratt og mjög vel. Til þess þarf að endurskoða lög, stjórnsýslu og þjónustukerfi, fræða fólk um samninginn og vinna markvisst að vitundarvakningu á öllum sviðum samfélagsins varðandi mannréttindi fatlaðs fólks, reisn þess, viðurkenningu á framlagi þess og rétti til sjálfstæðs lífs og virkrar þátttöku á öllum sviðum samfélagsins.

Landssamtökin Þroskahjálp hlakka til uppbyggilegs samstarfs og samráðs við nýtt Alþingi og nýja ríkisstjórn og ráðherra og samtökin munu hér eftir sem hingað til gera allt sem í þeirra valdi stendur til að veita þeim þann stuðning sem þau vilja þiggja til að tryggja fötluðu fólki öll þau mannréttindi sem þeim er skylt að gera samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

 

En nú, kæru gestir, ætla ég að snúa mér að því ánægjulega verkefni sem býður okkar hér í dag, þ.e. að veita viðurkenningu Landssamtakanna Þroskahjálpar, Múrbrjótinn árið 2017.

Landssamtökin Þroskahjálp hafa óslitið frá árinu 1993 haldið upp á alþjóðadag fatlaðs fólks, 3. desember, með því að veita viðurkenninguna Múrbrjótinn aðilum eða verkefnum sem að mati samtakanna brjóta niður múra í réttindamálum og viðhorfum til fatlaðs fólks og stuðla þannig að því að fatlað fólk verði fullgildir þátttakendur í samfélaginu og hafi tækifæri til að lifa eðlilegu lífi til jafns við aðra. 

Það er mér sérstök ánægja að tilkynna hér og nú að María Þ. Hreiðarsdóttir hlýtur Múrbrjót Landssamtakanna Þroskahjálpar árið 2017 fyrir lífssögu sína sem hún segir í bókinni Ég lifði í þögninni.

María skráði lífssögu sína með Guðrúnu Stefánsdóttur og kom bókin út fyrr á þessu ári. Í bókinni segir María frá lífshlaupi sínu allt frá barnæsku til dagsins í dag, baráttumálum og framtíðardraumum.

María hefur lengi verið virk í réttindabaráttu fatlaðs fólks og var m.a. formaður Átaks, félags fólks með þroskahömlun og barðist þar ötullega fyrir ýmsum réttindum sem ófatlað fólk telur vera sjálfsögð, s.s. réttinum til að stofna fjölskyldu og halda frjósemi sinni og til að hafa mannsæmandi laun fyrir vinnu sína.

Í bókinni er rakin lífssaga mjög merkilegrar og kjarkmikillar konu og er bókin mikilvægt innlegg í umræðuna um stöðu fatlaðs fólks á Íslandi, ekki síst fólks með þroskahömlun og mikilvægi þess að rödd þessa samfélagshóps heyrist og að á hann sé hlustað.

Viðurkenningargripurinn er smíðaður á handverkstæðinu Ásgarði þar sem fólk með þroskahömlun starfar.

Og það er mér einnig mjög mikil ánægja að segja frá því að Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, sýnir okkur þann velvilja og heiður að vera hér með okkur í dag og hún ætlar að afhenda Maríu Múrbrjótinn fyrir hönd Þroskahjálpar. Jóhönnu þarf ekki að kynna en það er engin tilviljun að samtökin leituðu til hennar og báðu hana um að taka að sér þetta verkefni. Í stjórnmálastarfi sínu sýndi Jóhanna hagsmuna- og réttindabáráttu fatlaðs fólks ávallt mikinn áhuga og skilning og veitti oft ómetanlegan stuðning. Við viljum nota þetta tækifæri til að þakka henni fyrir það. Og svo fannst okkur skemmtilegt að sögur Maríu og hennar, þessara öflugu og kjarkmiklu baráttukvenna  fyrir mannréttindum og jöfnum tækifærum og gegn fordómum, skyldu koma út í ár.

Guðrún Stefánsdóttir er því miður erlendis og getur því ekki verið með okkur hér í dag en ég sendi henni kveðju okkar og þakkir fyrir hennar mikilsverða framlag.

En ég vil biðja þær Maríu og Jóhönnu að koma hér upp og ég gef þér orðið Jóhanna.