Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2022-2025

 

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2022-2025. 592. mál.

Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að hafa fengið þingsályktunartillöguna til umsagnir og vilja koma eftirfarandi á framfæri varðandi hana.

Samtökin fagna því að í tillögunni sé að finna tvær aðgerðir sem fjalla um fatlað flóttafólk og mikilvægi þess að veita því sérstakan stuðning. Annars vegar aðgerð 2.3. Fötluð börn af erlendum uppruna og stuðningur við aðstandendur þeirra, sem hefur það að markmiði að efla stuðning við fötluð börn af erlendum uppruna og aðstandendur þeirra. Gert er ráð fyrir fræðsluefni sem verði aðgengilegt fyrir þjónustuveitendur og aðstandendur fatlaðra barna af erlendum uppruna. Og í öðru lagi aðgerð 5.8. Móttaka og þjónusta við flóttafólk í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Markmið þeirrar aðgerðar er að bæta verklag vegna móttöku sérstaklega viðkvæmra hópa flóttafólks, þar með talið fatlaðs flóttafólks.

Tölur sýna að mikill fjöldi þeirra barna sem er vísað á Ráðgjafar- og greiningarstöð eru með innflytjenda-bakgrunn og árið 2020 var 28% barna sem komu á stöðina af erlendum uppruna, sem er talsvert hærra hlutfall en fjöldi innflytjenda á Íslandi. Þá vekur athygli hátt hlutfall barna af erlendum uppruna í Klettaskóla, sérskóla fyrir fötluð börn. Í yngstu bekkjum þar er hlutfallið um og yfir fimmtíu prósent. Fáar rannsóknir eru til um stöðu fatlaðra barna af erlendum uppruna á Íslandi en þessar tölur sýna svo ekki verður um villst að huga þarf sérstaklega vel að þessum hópi og huga sérstaklega að aðgengi þeirra og aðstandenda þeirra að upplýsingum og þjónustu.

Í ljósi þeirra tillagna sem áður eru nefndar vill Þroskahjálp benda á að samtökin hafa síðan árið 2018 unnið verkefni sem miða að því að auka innsýn og skilning á þörfum fatlaðra innflytjenda og flóttafólks og auka aðgengi þeirra að upplýsingum og þjónustu. Árið 2018 fengu samtökin styrk úr Þróunarsjóði innflytjendamála til þess að gera myndbönd um réttindi fatlaðra barna sem talsett voru á fimm tungumál. Þá unnu samtökin texta um réttindi fatlaðs fólks og unnu þrjú myndbönd um réttindi fatlaðs fólks fyrir félagsmálaráðuneytið og í samvinnu við Fjölmenningarsetur. Textarnir og myndböndin voru þýdd/talsett á sjö tungumál. Mikilvægt er að gera það efni aðgengilegt og vitneskju um að þetta efni sé til og notkun á því.

Í verkefnum Þroskahjálpar sem snúa að fötluðum innflytjendum hafa samtökin verið í samstarfi og sinnt ráðgjöf við fjölmarga aðila, bæði þá sem sinna málefnum innflytjenda og fatlaðs fólks, þar á meðal Ráðgjafar- og greiningarstöð sem vann kynningarefni um starfsemi og þjónustu stöðvarinnar og ráðgjafarstofu um málefni innflytjenda um málefni sem varða fatlað fólk sérstaklega. Reynslan sýnir að mikilvægt er fyrir ráðgjafa sem sinna stuðningi við fatlað fólk af erlendum uppruna eða aðstandendur þess að geta leitað eftir stuðningi og leiðsögn hjá hagsmunasamtökum fatlaðs fólks, enda oftast um afar sérhæfða ráðgjöf að ræða. Einnig er brýnt að starfsfólk fái fræðslu um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og löggjöf sem skiptir máli í þessu samhengi.

Þá vilja samtökin beina þeim tilmælum til þeirra sem bera ábyrgð á framkvæmdaáætluninni að gert verði ráð fyrir öflun sérstakra tölfræðigagna um fatlað fólk af erlendum uppruna á öllum aldri til að hafa yfirsýn yfir fjölda, aðstæður og þarfir þess fólks. Í 31. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem hefur yfirskriftina “Tölfræðilegar upplýsingar og gagnasöfnun” er kveðið á um skyldur ríkja til að safna slíkum gögnum og sundurliða þau “og nota til þess að meta hvernig aðildarríkjunum miðar að innleiða skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum og til að greina og takast á við þær hindranir sem fatlað fólk stendur frammi fyrir þegar það hyggst nýta sér réttindi sín.”

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa miklum vilja og áhuga til samráðs varðandi þær aðgerðir í áætluninni sem varða sérstaklega fatlað fólk og vísa í því sambandi til samráðsskyldu stjórnvalda sem er áréttuð sérstaklega í 3. mgr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks sem er svohljóðandi:

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

Samtökin eftir að fá að koma á fund velferðarnefndar til að gera nefndinni betur grein fyrir áherslum sínum og sjónarmiðum varðandi það sem um er fjallað í þingsályktunartillögunni og þessari umsögn samtakanna.

 

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Anna Lára Steindal, verkefnastjóri í málefnum fatlaðs fólks af erlendum uppruna

 

Nálgast má þingsályktunatillöguna sem umsögnin á við hér.