Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um grænbók um sveitarstjórnarmál

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um grænbók um sveitarstjórnarmál.

            16. desember 2022

Sveitarfélög gegna mjög mikilvægu hlutverki samkvæmt lögum við að veita fötluðu fólki þjónustu, sem er mjög oft algjör forsenda þess að það hafi raunhæf tækifæri til að njóta margvíslegra mannréttinda sem eru sérstaklega áréttuð í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem íslenska ríkið fullgilti árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja hér á landi. Sú skuldbinding nær skýrt og skilyrðislaust til sveitarfélaga. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur og þá er hafin sérstök landsáætlun um innleiðingu hans. Þátttaka og afstaða sveitarfélaga ræður mjög miklu um hvernig til tekst í því afar mikilvæga verkefni.

Í 1. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum, segir:      

Við framkvæmd laga þessara skal framfylgt þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Framkvæmd þessara tveggja laga er fyrst og fremst á verksviði og ábyrgð sveitarfélaga.

Í ljósi þeirra miklu hagsmuna, sem eru í húfi fyrir fatlaða íbúa sveitarfélaga, að þau veiti þeim góða þjónustu og þar með raunhæf tækifæri til að njóta mannréttinda, eins og aðrir íbúar þeirra og ræki af metnaði þær skyldur sem þau hafa gagnvart fötluðum íbúum sínum, samkvæmt lögum og samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks, hlýtur að vekja verulega athygli hversu lítið er um þennan málaflokk fjallað í þeirri grænbók sem hér er til umfjöllunar.

Í 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar, segir að aðildarríki samningsins skuldbindi sig til „að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanagerð.

og í sömu grein samningsins segir:

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

Í 1. gr. framannefndra laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, segir: 

Þá skulu stjórnvöld tryggja að fatlað fólk, þ.m.t. hagsmunasamtök þess, hafi áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni þess.

 

 

Landssamtökin Þroskahjálp vísa til þess sem að framan er rakið og lýsa miklum vilja og áhuga til samráðs við hlutaðeigandi stjórnvöld hvað varðar málefni fatlaðs fólks í þeirri stefnumótun sem hér er til umfjöllunar.

 

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 

Nálgast má mál sem umsögnin á við hér.