Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um greiðslur vegna umönnunar langveikra eða fatlaðra barna

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um greiðslur vegna umönnunar langveikra eða fatlaðra barna. 591. mál.

Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að hafa fengið frumvarpið til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfæri varðandi það.

Samtökin styðja þær meginbreytingar sem koma fram í frumvarpinu, þ.e.a.s. að koma eigi til móts við heildarumönnunarþarfir langveikra eða fatlaðra barna og að ekki sé einungis horft til læknisfræðilegra greininga. 

Með breytingunni fá foreldrar meira frelsi til að fara út á vinnumarkaðinn eða í nám án þess að til skerðinga komi.

Hér á eftir eru ábendingar samtakanna varðandi einstakar greinar frumvarpsins.

7. gr.

Mjög mikilvægt er að Tryggingastofnun ríkisins upplýsi foreldra vel hvaða greiðslur komi betur út fyrir foreldra, umönnunarstyrkur eða umönnunargreiðslur.  Í núverandi kerfi er heimilt að framlengja greiðslutímabil umönnunargreiðslna til 20 ára aldurs. Hafa ber í huga að þeir sem sækja um örorkugreiðslur eða endurhæfingargreiðslur fá í einhverjum tilfellum synjun, þrátt fyrir að foreldrar hafi fengið greiðslur fram að því. Með þessari breytingu þarf að tryggja sanngjarnt og gagnsætt mat eftir að barn verður 18 ára.

8. gr.

Mikilvægt er að efla og skýra frumkvæðisskyldu sveitarfélaga og heildræna stefnu er varðar greiningu á umönnunarþörf svo að samræmi sé á matinu milli sveitarfélaga á öllu landinu. Nauðsynlegt er að umönnunarmatið sé gert í samvinnu við foreldra/forráðamenn og þverfaglega fagaðila, sbr. stefnu farsældarlaganna hvað það varðar. Þetta á einnig við um endurskoðun matsins. Það mat ætti ekki að einskorðast við læknisvottorð tengt greiningum og þá sérstaklega greiningum sem engar líkur eru á að munu breytast.

10. gr.

Í þessari grein er kveðið á um fjárhæð umönnunarstyrks eftir umönnunarþrepum. Hér verður sérstaklega staldrað við fjárhæðir í þrepi 4 og 5.

Greiðslur í þeim flokkum eru annars vegar þrep 4 kr. 281.536 og hins vegar þrep 5 kr. 351.920. Þetta er litill hópur sem að er í viðkvæmri stöðu sem þarf nauðsynlega að taka tillit til.

Við samanburð á greiðslum verður að hafa í huga að umönnunargreiðslur í núverandi kerfi eru skattfrjálsar.

Samkvæmt ofangreindu eru mögulegar greiðslur til þeirra sem eru að koma nýir inn í kerfið og eru foreldrar barna með miklar umönnunarþarfir töluvert lægri en til þeirra sem nú njóta foreldragreiðslna.  Á móti kemur að engin skilyrði eru þess efnis að fólk njóti ekki hæstu greiðslna þótt það sé á vinnumarkaði eða í námi.

Hafa ber í huga að greiðslurnar sem verði skattlagðar gætu haft haft áhrif á aðrar tekjutengdar greiðslur umönnunaraðila, eins örorkubætur, námslán eða fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og tryggja verður að svo verði ekki til að hindra að viðkomandi verði fyrir fjárhagslegri skerðingu vegna stöðu sinnar.

Niðurstaðan er að það þarf að hækka greiðslurnar umtalsvert.

21. gr. 

Samtökin styðja að greitt sé í lífeyrissjóð vegna umönnunargreiðslna með mótframlagi frá ríkinu. Samtökin telja einnig að skoða ætti sambærilegt fyrirkomulag vegna umönnunarstyrks þar sem búast má við að þeir sem njóta umönnunarstyrks, sérstaklega í efri flokkunum, geti verið bæði stopult á vinnumarkaði og í lægri stöðuhlutfalli en ella vegna umönnunar barna sinna og standi þannig höllum fæti hvað varðar lífeyri og fjárhagslegt öryggi í framtíðinni.

Landssamtökin Þroskahjálp óska eftir að fá að koma á fund velferðarnefndar til að gera nefndinni betur grein fyrir áherslum sínum og sjónarmiðum varðandi frumvarpið

 

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar

 

 Nálgast má lagafrumvarp sem umsögnin á við hér.