Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð (réttindaávinnsla og breytt framsetning)

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð (réttindaávinnsla og breytt framsetning), 533. mál.        

                                                                                                                               16. janúar 2023

Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að hafa fengið frumvarpið til umsagnar og vilja koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri varðandi það.

Eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu er  í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar lögð rík áhersla á að málefni örorkulífeyrisþega verði tekin til endurskoðunar á kjörtímabilinu, til að bæta lífskjör og lífsgæði einstaklinga með skerta starfsgetu og að gera eigi örorkulífeyriskerfið gagnsærra, einfaldara og skilvirkara en nú er. 

Landssamtökin Þroskahjálp fagna þessum áformum

Fjárhæð örorkulífeyris

Mjög mikilvægt er að taka fullt tillit til þess að stór hópur fatlaðs fólks hefur engar aðrar tekjur en örorkulífeyrir frá TR og mjög litla möguleika til að auka þær vegna afar lítilla tækifæra á ósveigjanlegum vinnumarkaði og/eða fötlunar sinnar og býr því við verstu kjörin í íslensku samfélagi þar sem grunn-örorkulífeyrir er miklu lægri en lágmarkslaun og mun lægri en atvinnuleysisbætur. Margt fatlað fólk þarf að reiða sig á örorkulífeyri til framfærslu alla ævi og er því dæmt til fátæktar, eins og grunn-örorkulífeyrir eru nú.

Landssamtökin skora á stjórnvöld að hækka grunn-örorkulífeyri nú þegar mjög verulega og taka við það fullt tillit til verðalagsþróunar að undanförnu og fyrirsjáanlegrar þróunar á því sviði.

Endurhæfingarlífeyrir og örorkumat 

Greiðslur örorkumats eru bundnar því skilyrði að umsækjendur  hafi verið metnir til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Heimilt er að fötluð ungmenni við 18 ára aldur gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar  áður en til örorkumats kemur. Ungmenni sem hafa verið með verulega fötlun frá unga aldri eða frá fæðingu þurfa að skila inn læknisvottorði og endurhæfingaráætlun. Í þeim tilvikum er mjög erfitt að sjá tilgang með kröfu um endurhæfingu og hver á að gera endurhæfingaráætlunina og bera ábyrgð á henni.

Samkvæmt upplýsingum frá TR þarf endurhæfingaráætlun ávallt að taka mið af heilsufarsvanda umsækjanda með það að markmiði að aðstoða umsækjanda við að leita lausna við þeirri færniskerðingu eða heilsubresti sem veldur skertri starfsfærni hans.  Þetta fyrirkomulag hentar ekki fötluðum ungmennum, heldur umsækjendum með heilsufarsleg vandamál.

Samtökin benda á að að fötlun er ekki sjúkdómur eða eitthvað til að „laga“. Þetta fyrirkomulag og ferli er niðurlægjandi fyrir fatlað fólk og að þurfa að leggja fyrir skriflegar staðfestingar á fötlun þess er til þess fallið að brjóta niður sjálfsmynd þess.

Einnig kemur fram að endurhæfingaráætlunin skuli vera unnin af heilbrigðismenntuðum fagaðila,  svo sem lækni, sjúkraþjálfara, félagsráðgjafa, sálfræðingi, iðjuþjálfa eða hjúkrunarfræðingi í samvinnu við umsækjanda.

Skila þarf inn áætlun á 6 mánaða fresti til samþykktar. Skert aðgengi að sérfræðilæknum og heimilislæknum getur verið alvarleg hindrun í þessu sambandi, þar sem fötluð ungmenni hafa ekki eftir 18 ára aldur aðgengi að þjónustu- og þekkingarmiðstöð né þverfaglegri þjónustu sem sniðin er að fötlun viðkomandi.

Þessi staða getur verið mjög flókin og erfið fyrir fötluð ungmenni sem hafa ekki sterkt félagslegt bakland til þess að halda utan um þetta ferli á 6 mánaða fresti.

Ítrekað „detta“ fötluð ungmenni út úr kerfinu þar sem ekki hefur verið skilað inn endurhæfingaráætlun, sem leiðir til þess að þau missa einnig starfssamning við Vinnumálastofnun í gegnum atvinnu með stuðningi. Þetta eru einstaklingar sem klárlega þurfa stuðning á vinnumarkaði vegna fötlun sinnar og þarf þá kerfið í heild sinni að styðja viðkomandi en ekki leggja fyrir það hindranir.

Samtökin gera einnig alvarlegar athugasemdir við að skila þurfi inn reglulega til TR læknisvottorði vegna fötlunar til þess að endurnýja örorkulífeyri, þrátt fyrir að fötlun viðkomandi sé augljóslega þess eðlis að hún muni ekki breytast í náinni framtíð.

Jákvætt er að stytta eigi biðtíma fyrir greiður endurhæfingarlífeyris úr þremur í eitt ár ef viðkomandi hefur búið erlendis.

Einnig fagna samtökin því að fatlað fólk á  örorkulífeyri muni halda sömu réttindum eftir 67 ára aldur.

Landssamtökin Þroskahjálp telja mjög mikilvægt að endurskoða lögin með tilliti til þarfa fatlaðs fólks og hafa þar í forgangi að bæta kjör þeirra sem lakast standa. Veruleg hækkun grunn-örorkulífeyris er algjör forsenda þess að fatlað fólk eigi nokkra raunhæfa möguleika til að njóta margvíslegra mikilvægra mannréttinda og tækifæra til sjálfstæðs og eðlilegs lífs, til jafns við aðra, eins og mælt er fyrir um í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að framfylgja og hyggst lögfesta.

 

Virðingarfyllst,

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

 

Nálgast má frumvarp sem umsögnin á við hér.