Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um búsetu fyrir börn með miklar þroska- og geðraskanir

 

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um búsetu fyrir börn með miklar þroska- og geðraskanir, nr. 1038/2018.

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni og fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatalnir. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist, sem og heimsmarkmiðum SÞ.

Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Meginmarkmið samningsins er að tryggja fötluðu fólki mannréttindi og raunhæf tækifæri til virkrar þátttöku á öllum sviðum samfélagsins til jafns við aðra og án aðgreiningar.

Samtökin fagna því að sjá í reglugerðardrögunum sérstaka áherslu lagða á að stuðningsteymi barns skuli gera fyrir það áætlun þar sem fjallað er um þjónustu fyrir barnið eftir að það nær fullorðinsaldri, eftir atvikum í samstarfi við þjónustuteymi sbr. 12. gr. laga nr. 38/2018.

Landssamtökin Þroskahjálp hafa ítrekað bent á og gert alvarlegar athugasemdir við skort á þjónustu við einstaklinga með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir eftir að þeir ná 18 ára aldri.

Landssamtökin Þroskahjálp hafa kallað eftir því að sett verði á stofn þjónustumiðstöð fyrir fullorðið fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og fyrir einhverft fólk þar sem boðið yrði upp á þverfaglega og samfellda þjónustu og að ábyrgð á veitingu hennar sé skýr, en á þessu hefur verið mikill misbrestur. Í tengslum við þessa endurskoðun á þessari reglugerð ítrekum við þessa ábendingu og mikilvægi þess að tryggja þjónustu við einstaklinga með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir eftir að þeir ná 18 ára aldri mun betur en nú er gert.

 

Virðingarfyllst,

 

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálp

Anna Lára Steindal, verkefnisstjóri í málefnum fatlaðra barna, ungmenna

 

Nálgast má reglugerðardrögin sem umsögnin á við hér.