Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um breytingu á lögum um málefni innflytjenda og vinnumarkaðsaðgerðir

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga breytingu á lögum um málefni innflytjenda og lögum um vinnumarkaðsaðgerðir (sameining Vinnumálastofnunar og Fjölmenningarseturs)                                                                                                                 

      3. febrúar 2023

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist, sem og heimsmarkmiðum SÞ.

Innflytjendum hefur fjölgað mikið á Íslandi á undanförnum árum, sem og hælisleitendum og fóttafólki. Augljóst er að í þeim hópum eru margir fatlaðir einstaklingar, sem eiga rétt á að tekið sé fullt tillit til aðstæðna þeirra og þarfa. Tölur sýna t.a.m. að mikill fjöldi þeirra barna sem er vísað á Ráðgjafar- og greiningarstöð eru með innflytjenda-bakgrunn og árið 2020 var 28% barna sem komu á stöðina af erlendum uppruna, sem er talsvert hærra hlutfall en fjöldi innflytjenda á Íslandi. Þá vekur hátt hlutfall barna af erlendum uppruna í Klettaskóla, sérskóla fyrir fötluð börn, athygli. Í yngstu bekkjum er hlutfallið um og yfir fimmtíu prósent.

Landssamtökin Þroskahjálp hafa undanfarin ár lagt mikla áherslu á að bæta þjónustu við fatlað fólk af erlendum uppruna, börn og fullorðna, með það að leiðarljósi m.a. að auka aðgengi að upplýsingum og stuðningi og upplýsa um réttindi. Samtökin hafa verið leiðandi í inngildingu fatlaðra innflytjenda og flóttafólks í íslenskt samfélag og hafa samtökin á undanförnum árum byggt upp töluverða reynslu og þekkingu í vinnu með innflytjendum og flóttafólki

Þá tóku samtökin nýlega að sér, samkvæmt samningi við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, að efla stuðning við fötluð börn af erlendum uppruna og aðstandendur þeirra. Þroskahjálp mun samkvæmt samningnum einnig sjá um fræðslu og ráðgjöf til fagaðila, sem vinna með flóttafólki, um stöðu fatlaðs flóttafólks og mikilvægi inngildingar þess í samfélagið.

í 1. gr. laga nr. 112/2016, um málefni innflytjenda segir um markmið laganna:  

Markmið laga þessara er að stuðla að samfélagi þar sem allir geta verið virkir þátttakendur óháð þjóðerni og uppruna. Markmiði þessu skal náð meðal annars með því að:
    a. hagsmunir innflytjenda séu samþættir allri stefnumótun, stjórnsýslu og þjónustu hins opinbera,
    b. stuðla að víðtæku samstarfi og samþættingu aðgerða og verkefna milli allra aðila sem koma að málefnum innflytjenda,
    c. efla fræðslu og miðlun upplýsinga um málefni innflytjenda og samfélag án fordóma,
    d. stuðla að og styðja við rannsóknir og þróunarverkefni í málefnum innflytjenda.

Og í 3. gr. laganna segir um hlutverk Fjölmenningarseturs:

Verkefni Fjölmenningarseturs eru meðal annars að:
    a. veita stjórnvöldum, stofnunum, fyrirtækjum, félögum og einstaklingum ráðgjöf og upplýsingar í tengslum við málefni innflytjenda,
    b. vera sveitarfélögum til ráðgjafar við að taka á móti innflytjendum sem flytjast í sveitarfélagið,
    c. taka saman og miðla upplýsingum um réttindi og skyldur innflytjenda,
    d. fylgjast með þróun innflytjendamála í þjóðfélaginu, meðal annars með upplýsingaöflun, greiningu og upplýsingamiðlun,
    e. koma á framfæri við ráðherra, innflytjendaráð og önnur stjórnvöld ábendingum og tillögum um aðgerðir sem hafa það að markmiði að allir einstaklingar geti verið virkir þátttakendur í samfélaginu óháð þjóðerni og uppruna,
    f. taka saman árlega skýrslu til ráðherra um málefni innflytjenda,
    g. hafa eftirlit með framgangi verkefna sem fram koma í þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda, sbr. 7. gr.,
    h. vinna önnur verkefni í samræmi við markmið laganna og þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda og einnig samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra.

Í ljósi markmiða laganna og hlutverks Fjölmenningarseturs og óumdeilanlegrar nauðsynjar í íslensku samfélagi nú og til framtíðar, að vinna að þeim markmiðum með þeim aðferðum og leiðum sem tilgreindar eru í 3. gr. laganna, hlýtur að skjóta nokkuð skökku við að fella stofnunina, sem hefur það hlutverk og hefur lýsandi heiti til samræmis við markmið laganna og hlutverk sitt, þ.e. Fjölmenningarsetur, undir stofnun sem hefur heitið Vinnumálastofnun. Og það hlýtur einnig að vekja margar og mikilvægar spurningar m.t.t. fjölmenningar, samfélags margbreytileika og jafnra tækifæra og hverjar áherslur stjórnvalda eru hvað þetta varðar.

Samtökin telja mjög mikilvægt að þau markmið sem tilgreind eru í 1. gr. laganna og þær aðferðir og leiðir sem tilgreindar eru í 3. gr. þeirra fái það vægi sem nauðsynlegt er í stjórnkerfinu og að tryggt verði að skipulagi þeirra, stjórnun, starfsmannahaldi og fagþekkingu verði hagað til samræmis við það.

 

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Anna Lára Steindal, verkefnastjóri í málefnum fatlaðs fólks af erlendum uppruna

 

Nálgast má mál sem umsögnin á við hér.